Þórir S. Gröndal
Á unglingsskólaárunum endur fyrir löngu var leikfimi skyldufag og nemendum gefin einkunn rétt eins og fyrir landafræði og reikning. Þar sem ég var ekki mjög fimur í því fagi fékk ég einatt lága einkunn, sem dró niður aðaleinkunnina. Ef satt skal segja kveið ég alltaf fyrir leikfimistímunum. Ég verð að viðurkenna að ég var hálfgerð veimiltíta og hafði oft ekki nægilegt þrek og kraft til afreka í rimlum og klifurs í köðlum. Svo hafði ég mikinn beyg af kistunni og hestinum. Mér fannst þessi leikfimistæki hálfgerð píningartól.
Í stað þess að láta okkur gera reglulegar hópæfingar var okkur oftast skipt niður í raðir og við látnir glíma við leikfimistækin. Ég man svo glöggt eftir mér standandi í biðröð við eitthvert tækið skjálfandi á beinunum. Með aðstoð kennarans skrönglaðist ég yfir kistu og hest, en gafst oftast upp fyrir rimlum og köðlum. Þegar leikfimistímunum blessunarlega lauk tók við hópsturtan og feimnin við að vera innan um 30 berrassaða stráka. Sumir voru orðnir líkamlega þroskaðri en aðrir og olli það bæði forvitni og hugarangri hjá mér og öðrum.
Á þessum árum voru engin fyrirtæki sem buðu upp á líkamsrækt. Ef einhver hefði talað um að fara í ræktina hefði maður helst haldið að viðkomandi væri að tala um kartöflurækt inni í Sogamýri. Leikfimi og alls kyns langhlaup voru stunduð af örfáum útvöldum. Þrátt fyrir þennan litla áhuga á almennri líkamsrækt um miðja síðustu öld kom fram á sviðið fjöldi afreksmanna í frjálsum íþróttum. Aðstaða til æfinga var ekki sérlega góð, svo ekki sé meira sagt. Melavöllurinn var allt í öllu; knattspyrnan fór fram á mölinni því gras var ekki á vellinum. Ekki veit ég hversu háar fjárveitingar féllu til íþróttamála á þeim tíma en mig grunar að þær hafi verið heldur fátæklegar.
Íslensku frjálsíþróttamennirnir tóku þátt í erlendum mótum, Norðurlandamótum, Evrópumeistaramótum og svo Ólympíuleikum. Þeir unnu ótrúleg afrek og komu heim með brons-, silfur- og gullverðlaunapeninga. Þeir voru landi og þjóð til mikils sóma. Mér er minnisstætt eitt alþjóðamótið, sem haldið var í London eftir miðja síðustu öld. Eins og endranær fór sómamaðurinn Benedikt G. Waage forseti ÍSÍ fyrir íslenska hópnum. Elísabet, þá nýorðin Bretadrottning, kom á svæðið og meðal annars voru erlendu fararstjórarnir kynntir fyrir henni. Benedikt á að hafa sagt við hennar hátign: „How do you do Mrs. Queen.“
Nú á dögum gengur allt út á að styrkja skrokkinn á allan hátt. Líkamsræktarstöðvar eru næstum á hverju götuhorni, og svo er víða boðið upp á margar tegundir af leikfimi fyrir unga sem aldraða. Og ekki má gleyma öllum fjöldahlaupunum út um allt land. En þrátt fyrir alla þessa áherslu á heilbrigði og hreysti líkamans eigum við miklu færri afreksmenn í frjálsum íþróttum en á árum áður. Þegar ég tala um menn á ég bæði við karlmenn og kvenmenn.
Ekki vil ég kasta rýrð á þá sem nú stunda frjálsar íþróttir og taka þátt í keppnum bæði heima og erlendis, en því miður hafa þeir ekki náð nærri eins góðum árangri og okkar menn gerðu á tímum Benedikts G. Waage á síðustu öld. Ekki veit ég af hverju þetta stafar en ég hef séð að menn setja fram ýmsar kenningar. Margir vilja benda á að fjárveitingar hafi verið af skornum skammti. Einnig að öll aðstaða til æfinga sé léleg. Það hefði verið gott ef Melavöllurinn væri ekki horfinn undir enn eitt menningarhúsið. Þá hefði verið hægt að sýna spekingunum hvernig aðstaðan var á tímum afreksmannanna.
Segja má að ég geti trútt um talað, maður sem aldrei hefur farið í ræktina og ekki einu sinni spilað golf hvað þá meira. Einhvern veginn fannst mér ég aldrei hafa tíma á starfsævinni, sem auðvitað var léleg afsökun. En nú er ég orðinn gamall eftirlaunamaður og ekkill þar á ofan svo ég hef tíma aflögu. Öldrunarsetrið hér vestra býður upp á alls kyns líkamsæfingar fyrir okkur gamlingjana. Þar sem ég er ekki lengur veimiltíta og hér eru ekki kistur, hestar, rimlar og kaðlar hef ég tekið leikfiminni opnum örmum. Það er eins og að vera kominn aftur í vinnu, því ég skunda á öldrunarsetrið fjóra morgna í viku til að hreyfa minn gamla skrokk.
Að endingu kemur gömul saga um hinn fræga mann Bob Hope. Blaðamaður á að hafa spurt hann hvort hann stundaði ekki einhverjar líkamsæfingar. „Jú vissulega,“ svaraði hann, „þegar ég stekk fram úr rúminu á morgnana stend ég teinréttur á gólfinu og soga inn magann.“ „Það er nú ekki mikil æfing,“ svaraði blaðamaðurinn. „Víst er það æfing, því þá verð ég að beygja mig niður til að hysja upp um mig náttbuxurnar,“ svaraði Bob hróðugur.
Höfundur er fyrrverandi fisksali og ræðismaður í Ameríku.