Sprungu Leifar af símboðum sem sprungu í Líbanon í síðustu viku.
Sprungu Leifar af símboðum sem sprungu í Líbanon í síðustu viku. — AFP
Íranski Lýðveldisvörðurinn, úrvalssveit íranska hersins, hefur skipað öllum liðsmönnum sínum að hætta að nota samskiptatæki í kjölfar þess að þúsundir símboða og talstöðva í fórum félaga í Hisbollah-samtökunum í Líbanon sprungu í síðustu viku

Íranski Lýðveldisvörðurinn, úrvalssveit íranska hersins, hefur skipað öllum liðsmönnum sínum að hætta að nota samskiptatæki í kjölfar þess að þúsundir símboða og talstöðva í fórum félaga í Hisbollah-samtökunum í Líbanon sprungu í síðustu viku.

Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir tveimur háttsettum embættismönnum í Lýðveldisverðinum.

Annar þeirra sagði við fréttastofuna að nú stæði yfir umfangsmikil rannsókn á öllum tækjum sem Lýðveldisvörðurinn notar, ekki aðeins samskiptatækjum. Hann sagði að flest þessara tækja væru framleidd í Íran eða flutt inn frá Kína eða Rússlandi.

Þá sagði foringinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið, að Íranar hefðu áhyggjur af því að ísraelskir leyniþjónustumenn hefðu náð að komast inn í raðir Lýðveldisvarðarins og hugsanlega væru Íranar þar á launaskrá Ísraels. Því stæði nú yfir ítarleg rannsókn á öllum sem starfa innan Lýðveldisvarðarins, þar á meðal á bankareikningum þeirra í Íran og öðrum löndum og á ferðalögum þeirra og fjölskyldumeðlima.

Ekki fengust upplýsingar um hvernig félagar í Lýðveldisverðinum, sem eru um 190 þúsund talsins, ættu nú samskipti en embættismaðurinn sagði að þau væru öll dulkóðuð.

Sami embættismaður sagði við Reuters að leiðtogar Írans hefðu miklar áhyggjur af þessu máli. Annar íranskur embættismaður sagði að öryggisráðstafanir við kjarnorkuver og flugskeytaskotpalla landsins hefðu nú verið hertar til muna og hefðu aldrei áður verið jafn strangar.

Lýðveldisvörðurinn, sem var stofnaður eftir íslömsku byltinguna árið 1979, er afar valdamikill og býr yfir eigin hersveitum. Hann hefur náin tengsl við Ali Khamenei erkiklerk, leiðtoga Írans.