Þórveig Bryndís Káradóttir, Donna, var fædd 18. nóvember 1943 á Akureyri. Hún lést 13. september 2024 á Hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri.
Foreldrar hennar voru Alda Rannveig Þorsteinsdóttir, f. 22.10. 1923, d. 14.9. 2004, og Kári Elías Karlsson, f. 18.8. 1919, d. 30.7. 2001.
Systkini hennar eru Vignir Kárason, f. 16.7. 1942, Hreinn Brynjar Kárason, f. 12.5. 1951, d. 29.7. 1952, og Sigríður Kristín Káradóttir, f. 21.7. 1956.
Donna giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Hreini Tómassyni, f. 25.6. 1941, þann 6. nóvember 1965.
Synir þeirra eru: 1) Kári Hreinsson, f. 19.3. 1966, kvæntur Kristínu Sigurðardóttur. Börn þeirra eru Dagur, f. 17.3. 2001, og Þórdís, f. 2.2. 2003. 2) Arnar Hreinsson, f. 4.4. 1971. Börn hans eru Alexandra, Líf f. 22.10. 2000, Kristófer Kári, f. 17.9. 2004, og Sara Dís, f. 5.10. 2015.
Þórveig Bryndís vann ýmis störf en starfaði stærstan hluta starfsævi sinnar sem matráðskona hjá Vatnsveitum Akureyrar sem síðar varð Norðurorka.
Útför Þórveigar Bryndísar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 24. september 2024, klukkan 13.
Ég hitti Donnu tengdamóður mína fyrst þegar við Kári eldri sonur hennar byrjuðum að vera saman á Akureyri sumarið 1993. Veðrið var óvenjuhaustlegt þetta sumarið en í minningunni var fallegur og sólríkur dagur þegar við Donna hittumst í fyrsta skipti. En kannski var það þessi glaðlynda, fallega og hlýja kona með fallegu augun sem birti upp þennan dag fyrir rúmum þrjátíu árum.
Donna fæddist á Akureyri og ólst þar upp í faðmi ástríkra foreldra og bjó þar alla tíð. Hún giftist Hreini sínum árið 1965 og eignuðust þau strákana sína tvo, Kára og Arnar. Hjónaband Donnu og Hreins var fallegt og þau voru samheldin hjón, bæði dugleg og traust, heiðarleg og réttsýn. Eitt af þeirra sameiginlegu áhugamálum var skátastarf í St. Georgsgildinu á Akureyri þar sem Donna var virkur félagi um langt árabil á meðan heilsan leyfði. Ekkert áhugamál var þó stærra en fjölskyldan og var hún ávallt í algjörum forgangi. Hún hugsaði alla tíð vel um strákana sína og tengdadætur og þegar barnabörnin komu til sögunnar þá snérist tilveran um þau og að þeim vegnaði vel.
Donna var einstök kona. Hún var góð og umhyggjusöm og vildi allt fyrir alla gera. Nú þegar ég lít til baka er eins og hlutverk Donnu í þessu lífi hafi verið að hugsa um aðra, að hún hafi verið hér á jörðinni til að dekra við okkur fjölskylduna og aðra samferðamenn og sjá til þess að öllum liði vel.
Það lék allt í höndunum á Donnu þegar kom að heimilinu, matreiðslu, bakstri og hannyrðum. Heimilið var fallegt og snyrtilegt og hún eldaði dýrindis mat og bakaði bestu kökurnar og er þar efst í huga marengstertan sívinsæla sem prýddi öll veisluborð fjölskyldunnar. Hún hristi einnig stórar veislur fram úr erminni með aðdáunarvert ofurskipulag að vopni. Donna var listræn og myndarleg í höndunum svo um munaði og saumaði, prjónaði og heklaði mörg meistarastykkin. Þykir mér nú enn vænna um stóra, fallega, dúkinn sem hún heklaði og gaf okkur Kára í brúðargjöf og fallegu sjölin sem hún prjónaði handa mér af mikilli elsku.
Donna átti við veikindi að stríða síðustu árin og flutti á Grenihlíð fyrir rúmum tveimur árum. Þar leið henni vel og þökkum við fjölskyldan starfsfólkinu fyrir góða umönnun og mikla umhyggju sem var ómetanleg. Þegar Donna var búin að vera aðeins nokkra mánuði á Grenihlíð þurfti hún að leggjast inn á sjúkrahús vegna alvarlegra veikinda og var ekki víst hvort hún myndi ná sér upp úr þeim. Hún áttaði sig á alvarleikanum og bað mig þá um að passa elskurnar sínar (börnin) og manninn minn. Ég ætla að passa þau elsku Donna. Hafðu þökk fyrir allt. Hvíl í friði.
Sofnar drótt, nálgast nótt,
sveipast kvöldroða himinn og sær.
Allt er hljótt, hvíldu rótt.
Guð er nær.
Þín tengdadóttir,
Kristín.
Þórveig Bryndís Káradóttir, eða „amma Donna“ eins og við köllum hana, kvaddi þennan heim föstudaginn 13. september. Það er eflaust fátt á þessari jörðu sem má telja jafn fallegt og hlýtt og sál hennar ömmu og hafa því verið forréttindi að geta notið góðs af nærveru hennar öll þessi ár. Amma Donna var eins konar ofurhetja og var eins og hún gæti skapað allt milli himins og jarðar en hún saumaði, prjónaði og heklaði allt sem bæði henni og okkur datt í hug! Þegar hún var ekki að búa til föt á öll barnabörnin bakaði hún alls konar sætabrauð í tonnatali sem varð bara betra með árunum. Síðast en ekki síst var ávallt gott að vera í kringum hana en hún sá til þess að allt gengi smurt fyrir sig á meðan fjölskyldan var í heimsókn og að öllum liði vel á heimili hennar.
Margar af okkar bestu minningum má rekja til þess að heimsækja gömlu í Eikarlundinn góða enda var það ávallt hápunktur sumarsins. Akureyri hefur alltaf og verður áfram eins og hálfgerður töfrabær í augum okkar systkina og þykir okkur mjög vænt um hann vegna þess að þarna býr fjölskyldan okkar, þarna bjó amma. Það getur hins vegar verið flókið að búa í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð frá þeim sem manni þykir vænt um, hvað þá þegar um mikinn heilsubrest er að ræða eins og í tilfelli ömmu. Amma var mikil fjölskyldukona og þótti okkur mjög erfitt að vera oftar fjær en nær stundum í nokkra mánuði í senn og varð það ekki auðveldara þegar leið á veikindi hennar. Þess vegna verðum við ávallt þakklát fyrir hverja einustu minningu sem við eigum af okkur saman og minnast þess sem áður var. Til dæmis þegar afi var ávallt látinn sofa á gólfinu svo við gætum sofið uppi í rúmi með ömmu og á hverju einasta kvöldi þegar við fórum saman með faðirvorið og sungum síðan stutta bæn fyrir svefninn.
Leiddu mína litlu hendi,
ljúfi Jesús, þér ég sendi
bæn frá mínu brjósti, sjáðu,
blíði Jesús, að mér gáðu.
Hafðu gát á hjarta mínu
halt mér fast í spori þínu,
að ég fari aldrei frá þér,
alltaf, Jesús, vertu hjá mér.
Um þig alltaf sál mín syngi
sérhvern dag, þó eitthvað þyngi.
Gef ég verði góða barnið,
geisli þinn á kalda hjarnið.
(Ásmundur Eiríksson)
Það er erfitt að kveðja ömmu en nú er hún komin til elskulegra foreldra sinna og litla bróður sem hún elskaði svo mikið. Hvíldu í friði elsku amma, við elskum þig.
Þín
Dagur og Þórdís Kárabörn.