6 Emilía Kiær Ásgeirsdóttir hefur byrjaði tímabilið í dönsku úrvalsdeildinni af miklum krafti og er markahæst í deildinni með sex mörk.
6 Emilía Kiær Ásgeirsdóttir hefur byrjaði tímabilið í dönsku úrvalsdeildinni af miklum krafti og er markahæst í deildinni með sex mörk. — Ljósmynd/@FCNordsjaelland
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta hefur farið ágætlega af stað og við erum búin að vinna alla okkar leiki, að undanskildum leiknum gegn Fortuna Hjörring um helgina,“ sagði knattspyrnukonan Emilía Kiær Ásgeirsdóttir í samtali við Morgunblaðið

Danmörk

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Þetta hefur farið ágætlega af stað og við erum búin að vinna alla okkar leiki, að undanskildum leiknum gegn Fortuna Hjörring um helgina,“ sagði knattspyrnukonan Emilía Kiær Ásgeirsdóttir í samtali við Morgunblaðið.

Emilía, sem er 19 ára gömul, er samningsbundin Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni en hún er markahæsti leikmaður deildarinnar með 6 mörk í sex leikjum.

Nordsjælland situr í öðru sæti deildarinnar með 15 stig eftir fyrstu sex umferðirnar, stigi minna en topplið Fortuna Hjörring.

Framherjinn hefur raðað inn mörkunum í Danmörku og var markahæsti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð með 10 mörk þegar Nordsjælland varð Danmerkurmeistari í fyrsta sinn í sögu kvennaliðsins. Þá varð liðið einnig bikarmeistari eftir sigur gegn Bröndby, 2:1, í Herning.

„Markmiðið í ár er að sjálfsögðu að endurtaka leikinn frá síðasta tímabili. Við ætluðum okkur stærri hluti í Meistaradeildinni og það fór ekki eins og við ætluðum okkur. Við öðluðumst hins vegar mikilvæga reynslu, gegn mjög sterkum andstæðingum, og það er eitthvað sem við tökum klárlega með okkur úr keppninni.

Ég er alveg jafn hungruð í árangur núna eins og í fyrra. Það breytist ekkert og hungrið verður til staðar alveg þangað til ég hætti í fótbolta. Persónulega hefur mér gengið vel en það sem mestu máli skiptir er að liðinu gangi vel. Ég skoraði slatta af mörkum í fyrra, mörkum sem skiptu liðið máli, og markmiðið er að skora ennþá meira á þessu tímabili,“ sagði Emilía.

Virk í uppbyggingu félagsins

Hvernig var að leika svona stórt hlutverk í fyrsta Danmerkurtitli Nordsjælland?

„Þetta var stórskostleg upplifun og stórt og langþráð markmið félagsins sem loksins náðist. Þetta var frábær tími en á sama tíma skrítinn því við fengum í raun lítinn sem engan tíma til þess að fagna bikarnum. Fjórum dögum eftir að við verðum meistarar mætum við Bröndby í úrslitum bikarkeppninnar og vinnum þann leik líka.

Þetta var mjög sætt fyrir mig persónulega líka því ég er búin að vera lengi hjá félaginu. Ég byrjaði að spila með U16-ára liðinu, og svo U18-ára liðinu áður en ég stíg mín fyrstu skref með meistaraflokknum. Ég hef sett mér ný markmið, eftir því sem árin líða, og nýjum markmiðum geta líka fylgt ákveðin vonbrigði.

Ég hef gengið í gegnum minn skammt af hindrunum og þegar ég horfi til baka er ég ótrúlega sátt með þann stað sem ég er á í dag. Mótlætið sem ég hef gengið í gegnum hefur þroskað mig og gert mig að betri leikmanni. Það hefur verið einstakt að vera virkur þátttakandi í uppganginum hjá Nordsjælland.“

Emilía, sem lék fyrstu tvo A-landsleiki sína í sumar, á eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Nordsjælland en sér hún fram á að spila í sterkari deild á næstunni?

„Eins og staðan er í dag þá er ég mjög ánægð hjá Nordsjælland. Ég er í frábæru umhverfi, umhverfi þar sem ég get haldið áfram að bæta mig sem leikmaður. Það er frábær menning innan félagsins og hún hentar mér mjög vel. Ég er opin fyrir öllu í framtíðinni og loka ekki á neitt en ég er leikmaður Nordsjælland í dag,“ bætti Emilía við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason