Í liðinni viku var fallegur bragur um alþýðukonuna dugmiklu Línu Dalrós Gísladóttur. Einar Kr. Guðfinnsson sendi mér línu og sagði þetta eina mestu merkiskonu sem hann hefði kynnst. „Í ævisögu afa míns og nafna Einars sögu Guðfinnssonar, sem…

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Í liðinni viku var fallegur bragur um alþýðukonuna dugmiklu Línu Dalrós Gísladóttur. Einar Kr. Guðfinnsson sendi mér línu og sagði þetta eina mestu merkiskonu sem hann hefði kynnst.
„Í ævisögu afa míns og nafna Einars sögu Guðfinnssonar, sem Ásgeir Jakobsson skráði, eru frásagnir af Línu og fádæma dugnaði hennar.“ Lína Dalrós var dóttir Elísabetar Guðmundsdóttur og Gísla „skálda“ Jónssonar, en þau urðu að láta hana frá sér. Gísli orti þessar fallegu vísur um hana:

Fríðikala faldalín

flestir tala um gæði þín,

fjörs um bala bjarta skín

blessuð dalarósin mín.

Frjáls um stundir fallvaltar

fagurt sprundið athugar

komið undir öllu er þar

að ná fundi guðssonar.

Í orðum prúð þá á þér skín

unaðsskrúði faldalín.

Á guð trúðu elskan mín,

undirbúðu sálu þín.

Hitadýja hrundin fín

hirtu hlýju ráð til þín;

hróðrargígja heftist mín.

Hér er nýársgjöfin mín.

Gísli var sjómaður og skáld á Ísafirði og Bolungarvík. Á óðfræðivefnum Braga má finna vísur eftir hann, sem sóttar eru í tölvupóst frá Reyni Hjartarsyni. Þar á meðal eru þessar fallegu vísur:

Undir líður ævinón

ei skal hryggjast, drengur

fipast höndum, förlast sjón

flest til þurrðar gengur.

Kraftur handa eyddur er

ei var stóru að flíka,

brjóst og fætur bila á mér

bakið kvartar líka.

Þó mannleg gatan þyki þröng

þá má gá að hinu,

að dag hvern styttist leiðin löng

lífs að takmarkinu.

Að síðustu er þessi vísa eftir Gísla ort undir ævilokin:

Fáir held eg Gísla gráti

grafar djúpt í kaldri ró,

sumir hvískra kuldahlátri

kostalítill maður dó.