Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra og oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, útilokar ekki að bjóða sig fram til formanns VG. „Ég er eins og aðrir búin að vera undir mínum feldi og ég er ekki búin að taka neina ákvörðun enn þá. En útiloka alls ekki neitt,“ segir Bjarkey í samtali við Morgunblaðið en hún gerir ráð fyrir því að hún muni greina frá ákvörðun sinni um miðja viku.
Landsfundur flokksins verður haldinn 4.-6. október. Enn hefur enginn tilkynnt formlega að hann ætli í formannsframboð en Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og starfandi formaður VG, lýsti í gær yfir stuðningi við Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra til að leiða flokkinn, í færslu á Facebook. Á sama tíma greindi Guðmundur Ingi frá því að hann ætlaði sjálfur ekki að bjóða sig fram í formannsembættið en hann gæfi aftur á móti kost á sér til að sinna varaformennsku, embætti sem hann gegndi þegar Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra leiddi flokkinn.
„Ég er stoltur af mörgu sem VG hefur áorkað undir minni forystu, sérstaklega fjölmörgum mikilvægum þingmálum sem við kláruðum í vor, eins og breytingum á örorkulífeyriskerfinu, mannréttindastofnun og fjölmörgum kjarasamningstengdum málum sem munu auka jöfnuð og réttlæti í samfélaginu,“ skrifaði Guðmundur en ráðherrann gaf ekki kost á viðtali við Morgunblaðið í gær.
Svandís hefur ekki gefið út hvort hún ætli að bjóða sig fram til formanns eður ei en ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar. Gera má ráð fyrir að hún greini frá ákvörðun sinni á allra næstu dögum.
Tvö varaformannsframboð
Skömmu áður en færsla Guðmundar Inga birtist greindi Jódís Skúladóttir þingmaður VG frá því að hún myndi bjóða sig fram til varaformanns. Er því ljóst að í það minnsta Jódís og Guðmundur munu etja kappi um þann stól.
Jódís segir í samtali við Morgunblaðið að of miklar málamiðlanir hafi verið gerðar í ríkisstjórninni og að hún finni fyrir ákalli eftir meiri vinstristefnu.
„Ég held að það sé kallað á það innan hreyfingarinnar að við stöndum svolítið fast í lappirnar í okkar stefnu og okkar vinstri. Ég hef síðan ég byrjaði í pólitík reynt að gera það,“ segir hún.
Jódís segir allt kjörtímabilið „hafa einkennst af ákveðnum þyngslum“ og segir núverandi kjörtímabil vera þyngra en það síðasta. Hún kveðst þó sátt við mjög margt sem hefur áunnist, „en það hafa verið ákveðin mál sem hafa verið okkur mjög þung“.
Hún kveðst sjálf ekki alltaf hafa verið sátt við þær málamiðlanir sem hafa verið gerðar og kveðst hún vilja leggja sín lóð á vogarskálarnar.
„Ég vil fara aftur í ræturnar, að við hlustum á grasrót okkar og stöndum þéttar með stefnu okkar,“ segir hún.