Lögreglan á Austurlandi segir ekki tímabært að gefa upp dánarorsök í máli eldri hjóna sem fundust látin á heimili sínu í Neskaupstað í lok ágústmánaðar.
Einn er í haldi lögreglu grunaður um að hafa orðið hjónunum að bana og rennur gæsluvarðhald yfir honum út 4. október nk. Yfirheyrslur yfir manninum eru enn í gangi, að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar yfirlögregluþjóns á Austurlandi. „Rannsókn á málinu er enn í fullum gangi og við bíðum eftir rafrænum gögnum og niðurstöðum lífsýnarannsóknar,“ segir Kristján Ólafur en lögreglan hefur fengið í hendur bráðabirgðaniðurstöður úr krufningu á hjónunum sem voru á áttræðisaldri.
Þá hefur lögreglan á Austurlandi heldur ekki viljað gefa upp hvort og þá hvaða vopni maðurinn beitti í árás sinni á hjónin.