Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Veröldin öll er undir og málefnin eru brýn í vali Sameinuðu þjóðanna á áherslumálum ársins 2025. Löng hefð er fyrir því að tiltekin mál séu kynnt sérstaklega á vegum samtakanna og fyrir þeim talað í ýmsu tilliti. Svo verður einnig gert nú en 2025 er í fyrsta lagi alþjóðlegt ár skammtavísinda og tækni. Þá er fram undan alþjóðlegt ár samvinnufélaga og verndar bráðnandi jökla. Einnig verður komandi ár af hálfu SÞ tileinkað friði og trausti í veröldinni og munu margir væntanlega segja að ekki sé vanþörf á slíku.
Þróun styrki þarfir
Sérfræðingar SÞ segja aukna alþjóðlega samvinna og fræðslu um skammtavísindi og tækni geta hjálpað til við að mæta áskorunum um sjálfbæra þróun. Vísindi þessi séu mikilvæg fyrir þróun sem styrkt geti grunnþarfir svo sem fæðuöryggi, heilsu, vatnsöflun og fjarskipti í sjálfbærum borgum þar sem loftslagsáherslur eru í heiðri hafðar.
Skammtafræði er lýst á Vísindavef HÍ sem stærðfræðilegri skilgreiningu á hegðun smæstu hluta; svo sem raf- og frumeinda sem mynda jafnvel enn smærri einingar. Þessar agnir séu grundvallareiningar í byggingu nær allra efna. Marga af eiginleikum lofttegunda, kristalla og jafnvel vökva megi einungis útskýra með hjálp skammtafræði. Og til þessa horfa Sameinuðu þjóðirnar sem vilja efa menntun í raungreinum sem að þessu víkja, þá ekki síst fyrir konur í þróunarlöndunum.
Samvinna styrkir stöðu
Að viðurkenna að samvinnufélög í mismunandi útfærslum stuðla að mestri mögulegri þátttöku í efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu. Allir sem einn, þar með talið fólk í viðkvæmri stöðu í ýmsu tilliti, geta fengið tækifæri innan félaga í samvinnurekstri sem aftur styrkir stöðu þeirra og vinnur gegn fátækt og hungri.
Þetta segir í lauslega þýddri kynningu Sameinuðu þjóðanna. Þau hvetja aðildarríki sín til þess að koma á kerfum í hverju landi um sig, svo sem landsnefndum, en á vettvangi þeirra yrði talað fyrir samvinnuhugsjóninni. Aðrir tækju svo við keflinu og kæmu góðum málum fyrir vind í krafti samstöðu með félagslegum lausum.
Jöklar eru forðabúr
Umhverfismál og aðgerðir sem spornað geta við hraðfara loftslagsbreytingum eru ofarlega á baugi í alþjóðlegu starfi. Því tengist að á vettvangi SÞ er árið 2025 tileinkað hörfandi jöklum. Í þessu sambandi má halda til haga frásögn Hrafnhildar Hannesdóttur, fagstjóra jöklarannsókna á Veðurstofu Íslands, hér í Morgunblaðinu á dögunum. Þar greindi hún frá því að um aldamót voru 300 jöklar Íslandi en síðan þá, á tæpum aldarfjórðungi, hafa 70 litlir jöklar horfið.
„Jöklar eru mikilvægir í hinu stóra samhengi náttúrunnar, þeir eru ferskvatnsforðabúr í mörgum löndum í Asíu og Suður-Ameríku, afrennsli frá jöklum er einnig notað til vökvunar á ræktarlandi. Með jökulvatni berast næringarefni með ánum út í sjó og vötn og hafa áhrif á margvísleg vistkerfi, meðal annars fiskistofna. Rýrnun jökla út um allan heim og hækkandi hitastig sjávar, sem veldur þenslu sjávar, leiða til hækkunar sjávarborðs, sem færir eyjar á kaf og hefur áhrif á tilveru hundraða milljóna manna,“ sagði Hrafnhildur ennfremur.
Jöklar eru mikilvægur þáttur í hringrás vatnsins. Hop þeirra hefur alvarleg áhrif á loftslag, umhverfi, viðhald, vellíðan og heilsu manna og sjálfbæra þróun, segja Sameinuðu þjóðirnar. Í gögnum þeirra er minnt á til dæmis Parísarsáttmálann og aðrar þær bókanir sem gerðar hafa verið um aðgerðir gegn hnatthrænni hamfarahlýnun. Allt verði að skoðast í samhengi og minnt er á að nú líði – það er 2018-2028 – áratugur aðgerða sem ber yfirskriftina Vatn fyrir sjálfbæra þróun. Víða til fjalla veraldar hopi jökular og sífreri. Af þeim sökum megi víða búast við skriðuföllum og flóðum.
Gagnkvæmur skilningur
Sjálfbær þróun, friður og öryggi og mannréttindi eru grunngildi Sameinuðu þjóðanna sem stofnaðar voru haustið 1945 kjölfar þess mikla hildarleiks sem síðari heimsstyrjöldin var. Og nú þegar svo margt er viðsjárvert í heiminum er við hæfi að nýtt ár sé tileinkað friði og trausti.
Viðleitni alþjóðasamfélagsins stuðlar að því að koma í veg fyrir átök og vinna að friði. Unnið skal að lausn deilumála, friðargæslu, afvopnun, sjálfbærri þróun, eflingu mannlegrar reisnar og mannréttinda, félagslegu námi án aðgreiningar, lýðræði í réttarríki, góðum stjórnarháttum og jafnrétti í breiðri merkingu. Friður er ekki aðeins að átök liggi niðri eða séu engin. Friður er líka þátttaka þar sem hvatt er til samræðna. Átök leyst í anda gagnkvæms skilnings og samvinnu og fjölþjóðahyggju, segir á vef SÞ.
Mikilvæg málefni
Umræða um samfélagið
„Málefni sem tekin verða fyrir á næsta ári eru mikilvæg fyrir Ísland,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hún nefnir þar sérstaklega að 2025 sé alþjóðaár jökla og að 21. mars ár hvert verði helgaður jöklum. Hafin sé vitundarvakning um mikilvægi jökla, snævar og íss og hvernig það tengist sjálfbærri þróun. Margt verði líka gert á Íslandi á næsta ári til að vekja athygli á mikilvægi jökla.
„Umfjöllunin mun fela í sér fræðslu og vitundarvakningu. Þá stefnir félagið að því að hvetja til samtals á milli ólíkra aðila sem koma að málaflokknum,“ segir Vala Karen sem vekur einnig athygli á alþjóðaári samvinnufélaga. Mikilvægt sé að efla og samræma starfsemi stjórnvalda, opinbera geirans, hagsmunasamtaka og félagasamtaka svo allir geti tekið þátt í félagslegri þróun.
„Við þurfum í ríkari mæli að taka umræðu á breiðum grundvelli um hvernig samfélagi við viljum búa í. Víða eru brotalamir sem geta hindrað fólk í því að taka þátt. Flest erum við sammála mikilvægi þess að auka bæði gagnsæi og traust, svo að kerfin þjóni fólki sem best en vinni ekki gegn þeim. Alþjóðlegt ár friðar og trausts styður þetta sérstaklega,“ segir Vala Karen.