Kristrún Sigurðardóttir fæddist 24. september 1964 á fæðingarheimilinu á Eiríksgötu í Reykjavík. Hún bjó fyrstu æviárin í Hafnarfirði og Kópavogi.
Kristrún gekk í 5 og 6 ára bekk í Ísaksskóla. „Ég tók alltaf strætó frá Kópavogi ein og þurfti að ganga frá Öskjuhlíð að skólanum, nema stundum á laugardögum þá sóttu amma og afi mig. Mamma og fósturpabbi minn fluttu svo í Breiðholtið og þar er ég alin upp ásamt góðum hóp systkina. Byrjaði í 7 ára bekk í Fellaskóla og lauk grunnskólagöngu í Hólabrekkuskóla, svo ég er alveg beint úr Breiðholtinu, alvöru „villingur“. Þar var mjög gaman að alast upp á þessum tíma, nýlegt hverfi með helling af ungu fólki sem fljótt varð góðir vinir. Við fundum okkur alltaf eitthvað að gera, það var mikil uppbygging í bæði íþróttum og félagslífi á þessum tíma. Ég var mjög virk í félagsstarfi Fellahellis en það hét félagsheimilið í hverfinu. Við vorum alltaf þar að hlusta á tónlist og dansa. Eins var ég í skátunum og æfði handbolta með ÍR.“
Eftir það lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og Kristrún lauk þaðan stúdentsprófi 1984. „Pabbi og kona hans Inga ráku meðferðarheimili í Smáratúni í Fljótshlíð og þangað fór ég nokkur sumur og kynntist þar allskonar bústörfum, meðal annars heyskap með böggum, að mjólka kýr og reiðmennsku. Á unglingsárum vann ég líka í fiski, í mötuneyti, við þrif í heimahúsum og að sjálfsögðu að passa börn. Ég var svo aðeins að finna út úr háskólanámi og lífinu, vann í Verslunarbankanum á daginn og á kvöldin og nóttunni á Broadway á þessum tíma. Það var alltaf gaman hjá mér í vinnunni hvort sem var á daginn eða kvöldin. Það var líflegur hópur sem hélt saman á Broadway, eftir vinnu á nóttunni var farið í morgunmat á Loftleiðahótelið áður en heim var haldið til að leggja sig áður en næsta törn hófst.“
Kristrún prófaði tannlæknadeild Háskóla Íslands en fann svo sína hillu í tannfræði í Árósum í Danmörku. „Ég kynntist manninum mínum á þessum árum og dró hann með mér til Árósa þar sem við bjuggum í tvö geggjuð ár, ég að læra tannfræði en hann í rafmagnstæknifræði. Yndislegur tími þar sem maður kynntist hellingi af fólki og góðum vinum.“
Kristrún flutti síðan heim árið 1989 og hóf störf sem tannfræðingur meðal annars hjá Sigfúsi Þór Elíassyni prófessor. „Árið 1991 byrjaði ég að vinna í Fjölbrautaskólanum við Ármúla við að búa til námsbraut fyrir tanntækna, ásamt fleirum. Ég hef síðan kennt við tanntæknabraut frá því að það nám fór af stað í janúar 1992 ásamt því að vinna sem tannfræðingur hjá Sigfúsi Þór.“ Hún er núna kennslustjóri í heilbrigðisskóla FÁ.
Þau hjónin tóku uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands sem þau luku fyrir jól 1993. Árið 2010 hóf hún svo meistaranám hjá Háskólanum í Reykjavík í lýðheilsuvísindum, samhliða kennslu og tannfræðivinnunni, og lauk því námi árið 2011. „Það var mjög skemmtilegt og fjölbreytt nám. Þar kynntist ég einnig yndislegum samnemendum sem hittast enn. Eftir það sneri ég mér eingöngu að kennslu og kennslutengdum málefnum þó alltaf með munn- og tannheilsu í farteskinu. Við hjónin fórum í leyfi eina önn og ferðuðumst í fimm mánuði m.a. um Asíu og Evrópu árið 2016. Það var ævintýri frá upphafi til enda þótt það hafi staðið upp úr að upplifa ólíka menningarheima í Asíu. Þó ég hafi alltaf unnið mikið þá hefur alltaf verið tími fyrir fjölskyldu, vini og áhugamál. Enda er fólkið mitt það dýrmætasta sem ég á.“
Kistrún hefur verið í stjórn tannfræðinga í fjölda ára, í stjórn kennarafélags FÁ, setið í tannverndarráði, fulltrúi í starfsgreinaráði heilbrigðis-, félags- og uppeldisgreina og situr í Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu sem fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytis auk þess að stunda margskonar félags- og fræðslustö rf. „Föndurjaxlar eru félagsskapur frábærra kvenna sem hittast, gleðjast og fagna lífinu reglulega, þar hef ég verið í bráðum 30 ár.“
Á yngri árum í skátunum hafði Kristrún gaman af öllu útilegubrasi, eins og hún kallar það. „Eitt sinn skáti ávallt skáti stendur einhvers staðar, það er gott að alast upp í skátaumhverfi. Þegar börnin voru að vaxa fórum við fjölskyldan mikið í útilegur um landið og elskum enn að ferðast um okkar fallega land í góðum félagsskap vina. Í dag er það golfið sem kallar, því er golfsettið með í öllum ferðum. Það er svo frábær íþrótt fyrir alla, því maður er að keppa við sjálfan sig í frábærum félagsskap og fær útiveru í leiðinni.
Áhugamálin eru mörg og ég hef aldrei tíma til að leiðast enda í stórri fjölskyldu og er almennt mjög lífsglöð og jákvæð. Ég elska að vera með fjölskyldunni í allskonar ævintýrum, skíði á veturna og golf á sumrin, elska að lesa bækur, fara í leikhús, á tónleika, elda og borða góðan mat, púsla og prjóna svo eitthvað sé nefnt. Auk ýmissa málefna sem snúa að bættri tannheilsu þjóðarinnar. Að sjálfsögðu er nýjasta hlutverkið algjör draumur – ég er amma og elska það.“
Fjölskylda
Eiginmaður Kristrúnar er Heimir Jón Guðjónsson, f. 14.9. 1954, framhaldsskólakennari og rafverktaki. Þau hafa búið í Lindahverfinu frá því að börnin komust á skólaaldur. Foreldrar Heimis voru hjónin Dóra Friðleifsdóttir húsmóðir, f. 1930, d. 2018, og Guðjón Árni Ottósson rafvirki, f. 1928, d. 2017.
Börn Kristrúnar og Heimis eru 1) Hlynur Már Heimisson, f. 3.7. 1993, rafvirki, kærasta hans er Debóra Dögg Jóhannsdóttir, f. 25.6. 1996, mannfræðingur og viðburðastjóri, dóttir þeirra er óskírð Heimisdóttir, f. 13.8. 2024; 2) Sunna Rún Heimisdóttir, f. 26.8. 1996, nemi í Kaupmannahöfn. Börn Heimis af fyrra hjónabandi og stjúpbörn Kristrúnar eru 3) Sigrún Gréta Heimisdóttir, f. 20.5. 1978, innanhússhönnuður og 4) Halldór Heimisson, f. 16.8. 1980, rafvirki, börn Halldórs eru Elmar Blær, f. 13.7. 2006 og Auður Magnea, 1.8. 2014.
Systkini Kristrúnar sammæðra eru Aðalbjörg Guðjónsdóttir, f. 16.3. 1968, launafulltrúi; Benedikt Þór Leifsson, f. 26.8. 1970, bifvélavirki; Berglind Leifsdóttir, f. 13.1. 1973, rafvirki, og Jón Heiðar Leifsson, f. 14.9. 1976, diploma í tölvufræðum. Systkini samfeðra: Ragnar Ágúst Sigurðsson, f. 26.8. 1966, d. 30.7. 1989; Funi Sigurðsson, f. 18.4. 1979, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu; Dagur Sigurðsson, f. 3.8. 1983, tölvunarfræðingur; Logi Sigurðsson, 2.4. 1992, bóndi, og Máni Sigurðsson, f. 28.9. 1995, tölvunarfræðingur.
Foreldrar Kristrúnar eru Björk Jónsdóttir, f. 30.9. 1945, tanntæknir, gift Freddi B. Olsen, þau búa í Svíþjóð, og Sigurður Ragnarsson, f. 31.3. 1944, sálfræðingur giftur Ingu Stefánsdóttur. Þau búa í Steinahlíð í Lundarreykjadal.