Íslandsbanki spáir því að verðbólgan verði að meðaltali 6% í ár, 3,7% árið 2025 og 3,0% árið 2026.
Verðbólguálag hefur lækkað allnokkuð frá vaxtaákvörðuninni í ágúst þótt langtímaverðbólguvæntingar séu enn háar á flesta mælikvarða.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, sagði á Fjármálaþingi Íslandsbanka sem haldið var í gær að mikil seigla væri í íslensku hagkerfi um þessar mundir. Hann segir í samtali við ViðskiptaMoggann að eftir 5 ársfjórðunga af háum vöxtum sé einnig farið að draga úr útflutningsvexti og samdráttur sums staðar. Heimilin séu hins vegar að sýna talsverða seiglu í einkaneyslu.
„Við erum auk þess að sjá fyrirtækin halda dampi í fjárfestingu í býsna krefjandi vaxtaumhverfi. Vinnumarkaðurinn hefur verið sterkur og íbúðamarkaðurinn einnig miðað við hátt raunvaxtastig,“ segir Jón Bjarki.
Greining Íslandsbanka spáir auknu atvinnuleysi og að það muni mælast 3,7% á þessu ári. Kaupmáttur muni staðna í ár en aukast á því næsta.