Undrabrekka Bið verður á því að nýr leikskóli verði byggður á Nesinu.
Undrabrekka Bið verður á því að nýr leikskóli verði byggður á Nesinu. — Tölvumynd/Andrúm arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við verðum að sýna ráðdeild og ábyrgð. Ég get ekki bundið bæjarfélagið í 9,65% stýrivöxtum,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Greint var frá því í svari bæjarstjóra við fyrirspurn bæjarfulltrúa Samfylkingar á…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við verðum að sýna ráðdeild og ábyrgð. Ég get ekki bundið bæjarfélagið í 9,65% stýrivöxtum,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Greint var frá því í svari bæjarstjóra við fyrirspurn bæjarfulltrúa Samfylkingar á síðasta fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness að fyrirhuguðu útboði á byggingu nýs leikskóla í bænum hafi verið frestað. Sagði Þór að í núverandi hávaxtaumhverfi teldu fulltrúar meirihluta ekki heppilegt að bjóða út byggingu leikskóla á meðan lánsfé væri eins dýrt og raun ber vitni. „Við hyggjumst bjóða verkefnið út þegar vextir hafa lækkað og þegar yfirstandandi framkvæmdum við skólahúsnæði bæjarins er lokið,“ sagði Þór og vísar þar til kostnaðarsamra viðgerða í tveimur skólahúsum vegna myglu sem þar greindist.

„Mygluframkvæmdin setti stórt strik í reikninginn, annars værum við farin af stað með leikskólann,“ segir Þór við Morgunblaðið. Hann segir að kostnaður við viðgerðina sé þegar kominn í rúmar 700 milljónir króna.

Þór segir að óheppilegt sé að fara í útboð nú enda geti útboð bundið bæjarfélagið til að hefja framkvæmdir á tilgreindum tíma. Þegar vextir fari að lækka verði hins vegar ekkert að vanbúnaði. „Það er allt klárt fyrir útboð. Hönnun er klár og það er byrjað að funda með Ríkiskaupum. Næsta mál er bara að lánsfé verði ódýrara,“ segir bæjarstjórinn.

Ný leikskólabygging á að kallast Undrabrekka og verður um 1.600 fermetrar að stærð. Jafnframt á að nýta þær byggingar sem fyrir eru á svæðinu og tengja á milli eftir atvikum. Áætlað hafði verið að framkvæmdum við nýjan leikskóla myndi ljúka á seinni hluta næsta árs en nú er ljóst að svo verður ekki.