Ásgeir Björgvinsson fæddist á Djúpavogi 29. október 1927. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 11. september sl. eftir stutt veikindi.

Foreldrar hans voru: Steinunn Dagmar Snjólfsdóttir, f. 21. maí 1907, d. 6. febrúar 1994 og Björgvin Björnsson, f. 4. apríl 1904, d. 23. október 1993.

Ásgeir var elstur fimm systkina, þau eru: Svavar, f. 1931, d. 2016, Snjólfur, f. 1934, d. 2007, Óli, f. 1942, d 2005, Guðlaug, f. 1946.

Árið 1946 fór Ásgeir til náms við Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem húsasmiður og fékk meistararéttindi í greininni 1955.

Eiginkona Ásgeirs var Sjöfn Magnúsdóttir, f. 24. ágúst 1937, d. 12. febrúar 2024.

Börn Ásgeirs og Sjafnar eru: 1) Dagmar, f. 1954, eiginmaður hennar er Sveinbjörn Sigurður Tómasson, þau eiga 3 dætur og 6 barnabörn. 2) Margrét, f. 1955,sambýlismaður hennar er Tryggvi Gunnlaugsson, Margrét á 4 börn, 10 barnabörn og 3 langömmubörn. 3) Ásgeir, f. 1957, eiginkona hans er Jóna Guðjónsdóttir, þau eiga 3 börn og 6 barnabörn. 4) Ólöf, f. 1959, eiginmaður hennar er Haukur Hermannsson, þau eiga 4 börn, 7 barnabörn og 2 barnabarnabörn. 5) Björgvin, f. 1961, eiginkona hans er Hafdís Ósk Guðmundsdóttir, þau eiga 4 börn og 8 barnabörn. 6) Aðalheiður, f. 1962, eiginmaður hennar er Kristinn Grétar Harðarson og þau eiga 3 börn og 5 barnabörn. 7) Ásta Björg, f. 1965, eiginmaður hennar er Gunnar Marel Einarsson, þau eiga 3 börn og 6 barnabörn.

Ásgeir og Sjöfn bjuggu með börnum sínum á Djúpavogi til ársins 1967, en þá fluttist fjölskyldan til Hveragerðis og Ásgeir hóf störf hjá Trésmiðju Hveragerðis. Ásgeir og Sjöfn skildu árið 1977. Ásgeir var virkur í félagslífi í Hveragerði á þessum árum, söng í kirkjukórnum ásamt því að taka þátt í pólitísku starfi og sat nokkur ár í hreppsnefnd Hveragerðis og lét mikið að sér kveða, m.a. þegar íþróttahúsið var byggt. Hann var mikill verkalýðsmaður og var yfirleitt mættur fyrstur manna í 1. maí-gönguna, á þeim stöðum þar sem hann bjó hverju sinni.

Árið 1981 flutti Ásgeir til Reykjavíkur og hóf störf hjá byggingafyrirtækinu Ármannsfelli og starfaði þar til ársins 1997. Eftir það vann hann hjá Dvalarheimilinu Grund til ársins 2006 þegar hann fluttist aftur til Hveragerðis. Hann vann einnig í stuttan tíma hjá Ási í Hveragerði, en lét af störfum síðla árs 2006 þá kominn fast að áttræðu.

Í Hveragerði varð Ásgeir strax virkur í félagsstarfi eldri borgara, tók þátt í útivist, ferðalögum og var meðlimur í kór félagsins.

Samferðakona Ásgeirs og ástkær vinkona síðustu 14 árin er Ragnheiður Þorgilsdóttir og stunduðu þau eldriborgarastarfið saman af krafti. Þau höfðu yndi af ferðalögum, fóru í útilegur um landið, en nutu þess einnig að fara til hlýrri landa og fóru oft til Spánar og Kanaríeyja.

Afkomendur Ásgeirs eru 72, allir á lífi.

Útför Ásgeirs verður gerð frá Hveragerðiskirkju 24. september og hefst athöfnin klukkan 13.

Elskulegur faðir minn er látinn tæplega 97 ára gamall. Pabbi var hraustur og lífsglaður, skemmtilegur, strangur pabbi, fróður og góður maður sem gat verið hrókur alls fagnaðar á góðum stundum og hann naut lífsins nánast fram á síðustu stundu. Hann hélt sitt eigið heimili þangað til síðustu tvær vikurnar sem hann lifði.

Pabbi var harðduglegur, fór snemma að vinna eins og tíðkaðist á þeim tíma, hann lærði til smiðs og vann við það mest allan sinn starfsaldur. Hann kom upp stórum barnahópi ásamt konu sinni Sjöfn Magnúsdóttur sem lést fyrr á þessu ári. Afkomendur þeirra eru nú orðnir 72 og enn er von á fjölgun.

Pabbi var félagslyndur og tók þátt í alls konar félagslífi, áður fyrr tók hann m.a. þátt í pólitískum félagsskap, hann lét sig varða verkalýðsmál, hann var í kirkjukórum og karlakórum og svo síðast í eldri borgara kórnum, auk þess sem hann tók þátt í öðrum uppákomum hjá eldri borgara félaginu í Hveragerði. Pabbi var einnig sjálfboðaliði Rauða krossins á seinni árum, fór m.a. heim til fólks og veitti því félagsskap, eflaust hefur hann lesið upp nokkur ljóð fyrir það.

Pabbi hafði unun af bóklestri, grúskaði mikið í alls konar bókum og muna margir eftir honum á bókasafninu og fleiri stöðum að fletta bókum. Sérstaklega hafði hann gaman af ljóðum og kunni ógrynni af þeim, hann las þau upp blaðlaust á góðum stundum og hann las þau svo fallega að allir sem hlustuðu hrifust, með enda ekki annað hægt, og sumir felldu jafnvel tár.

Sundferðir voru daglegur partur af lífi pabba til margra ára og sagði hann oft að sundið og vatnsnuddið héldi í sér lífinu, hann var einnig mjög duglegur að ganga og gekk gjarnan upp í sundlaug, einnig hjólaði hann þangað stundum.

Ferðalög voru honum hugleikin og var hann búin að ferðast mikið. Áður fyrr voru ferðalögin mest innanlands en í seinni tíð urðu ferðirnar til útlanda tíðari með Ragnheiði vinkonu sinni til margra ára. Þau nutu lífsins svo sannarlega saman.

Nú er hann farinn í langa ferðalagið, það sem bíður okkar allra.

Hvíl í friði, elsku pabbi minn, og takk fyrir allt

Að lokum eftir langan, þungan dag,

er leið þín öll. Þú sest á stein við veginn,

og horfir skyggnum augum yfir sviðið,

eitt andartak.

Og þú munt minnast þess,

að eitt sinn, eitt sinn, endur fyrir löngu

lagðir þú upp frá þessum sama stað.

(Steinn Steinarr)

Dagmar (Dadda).

Margt fer í gegnum hugann nú þegar elsku pabbi hefur kvatt þessa jarðvist eftir stutt veikindi. Stutt veikindi voru samt löng fyrir svo lifandi og hraustan mann sem hann var svo lánsamur að vera öll sín tæp 97 ár.

Pabbi kenndi mér ungri að njóta ljóðlistar og var Steinn Steinarr í miklu uppáhaldi hjá okkur. Mér finnst við hæfi að kveðja hann með ljóði eftir þann meistara. Þetta ljóð flutti pabbi blaðlaust (að sjálfsögðu) þar sem hann stóð yfir leiði foreldra sinna með „barna“-skarann sinn þá 80 ára gamall.

Hér hvílast þeir, sem þreyttir göngu luku

í þagnar brag.

Ég minnist tveggja handa, er hár mitt
struku

einn horfinn dag.

Ó, guðir, þér, sem okkur örlög vefið

svo undarleg.

Það misstu allir allt, sem þeim var gefið,

og einnig ég.

Og ég sem drykklangt drúpi höfði yfir

dauðans ró,

hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir,

eða hinn, sem dó?

Farðu í friði, elsku pabbi minn, ég veit að það verður gaman í blómabrekkunni hjá ykkur mömmu.

Ólöf.

Nú er komið að leiðarlokum og erfitt að kveðja elsku pabba í hinsta sinn. Pabbi var að verða 97 ára en hann hafði lifað tímana tvenna og miklar breytingar á þjóðfélaginu. Hann unni landi og þjóð og kenndi okkur börnunum að virða náttúru landsins, lífið sjálft og réttlæti.

Líf pabba var innihaldsríkt, einfalt og gott. Lífsgæði einstaklega góð og það má segja að heilsa hans hafi enst út lífið, hann var trúlega með góð gen en hann var líka duglegur að rækta líkama og sál og einnig félagsleg tengsl við annað fólk, unga sem aldna. Pabbi stundaði reglulega hreyfingu alla tíð, eftir að hann hætti að vinna labbaði hann í sund klukkan 7 á morgnana og eignaðist þar góða sundlaugarvini. Á 90 ára afmælisdaginn komu þau honum á óvart og slógu upp afmælisveislu í Laugaskarði og gáfu honum innrammaða mynd þar sem allir pottavinirnir voru samankomnir, honum þótti vænt um þetta og hélt mikið upp á myndina.

Lengi vel hjólaði pabbi í sund en hætti því fyrir um ári en notaði alla tíð hjól sem hann hafði keypt fyrir mörgum áratugum á Grænlandi þar sem hann hafði verið að vinna, honum þótti engin ástæða til að endurnýja hjólið þar sem það gamla virkaði vel. Það var ómögulegt að fá hann til að nota hjálm og þegar við systkinin sögðum honum hversu nauðsynlegt það væri fyrir hann að vera með hjálm, ef hann skyldi nú detta, þá sagði hann bara: „Ég dett aldrei.“

Pabbi var húmoristi og laumaði oft skemmtilegum sögum inn í umræðuna og ekki síst fyndnum sögum eða setningum frægra Íslendinga eða sögupersóna. Það var oft hlegið. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á bókmenntum, var vel lesinn og hafði frá miklu að segja, það var eins og hann gleymdi aldrei neinu. Hafði einnig mikinn áhuga á ljóðalestri og kunni mikið af ljóðum og fór með þau við ýmis tækifæri.

Hann hafði unun af því að gróðursetja plöntur í landinu sínu uppi í Grímsnesi en þegar hann var um nírætt keypti hann sér Caddy-sendibíl þar sem hann var orðinn ragur við að vera með kerru aftan í bílnum. Þetta var bara tveggja manna bíll en hann sagði að það væri allt í lagi, það þyrði hvort sem er enginn með honum í bíl lengur nema Ragnheiður vinkona hans, í mesta lagi.

Þrátt fyrir háan aldur upplifði ég pabba aldrei sem gamlan mann, hann var bara þannig, léttur á sér og ern alla tíð eða þar til sl. vor þegar honum fór að hraka mjög hratt og fljótlega kom í ljós að hann var með fyrirferð í höfði sem hafði þessi áhrif á hann. Það voru mikil viðbrigði fyrir pabba að missa heilsuna og hann kunni því illa og sá enga ástæðu til að þrauka lengur ef engin lífsgæði væru fyrir hendi. Hann var þakklátur lífinu og góðri heilsu, hann var þakklátur fyrir fólkið sitt og hafði oft orð á því hve heppinn hann væri. Hann hafði aðeins einu sinni öll þessi tæplega 97 ár legið á sjúkrahúsi og þá í tvo eða þrjá daga fyrir utan vikudvöl á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þar sem hann naut góðrar umönnunar þar til hann lést að kvöldi 11. september sl. í faðmi ástvina sinna.

Hvíl í friði, elsku pabbi minn, og takk fyrir allt.

Þín dóttir,

Aðalheiður.