Á útleið Jóna Eðvalds á leið út úr Hornafjarðarhöfn í gær, eftir að hafa komið með 735 tonn af síld að landi. Góð síldveiði hefur verið á miðunum austan við land að undanförnu.
Á útleið Jóna Eðvalds á leið út úr Hornafjarðarhöfn í gær, eftir að hafa komið með 735 tonn af síld að landi. Góð síldveiði hefur verið á miðunum austan við land að undanförnu. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgrímur Halldórsson SF-250, uppsjávarskip Skinneyjar-Þinganess, landaði um 900 tonnum af síld í heimahöfn í Hornafirði í gær, en aflann sótti skipið á Litla dýpi sem er beint austur af Fáskrúðsfirði, að sögn Ásgeirs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra veiða hjá Skinney-Þinganesi

Ásgrímur Halldórsson SF-250, uppsjávarskip Skinneyjar-Þinganess, landaði um 900 tonnum af síld í heimahöfn í Hornafirði í gær, en aflann sótti skipið á Litla dýpi sem er beint austur af Fáskrúðsfirði, að sögn Ásgeirs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra veiða hjá Skinney-Þinganesi. Aflinn var blanda af íslenskri sumargotssíld og norsk-íslenskri síld og var aflinn 55% íslensk og 45% norsk-íslensk síld. Gert er ráð fyrir að löndun taki tvo daga.

Hann segir í samtali við Morgunblaðið að síldin sé mjög falleg og fari öll til manneldis, sé ýmist heilfryst eða flökuð.

„Við höfum verið að vinna nær allan síldaraflann í haust til manneldis. Þetta er mjög góð síld og það hefur verið gott að eiga við hana í haust,“ segir Ásgeir.

Þá lauk löndun úr Jónu Eðvalds SF-200 í gær, en hún fékk sinn 735 tonna afla nokkuð norðar en Ásgrímur og var hærra hlutfall af norsk-íslenskri síld í hennar afla.

„Það hefur blossað upp meira af íslenskri síld undanfarið,“ segir hann og nefnir að aflinn sé nú að fást nokkru sunnar en áður þegar skipunum var haldið úti á Héraðsflóa.