Líbanon Sprengjuregn í bænum Burj el-Shmali í gær þegar Ísraelsher gerði stærstu árás frá upphafi stríðsins við landamærin í suðurhluta Líbanon .
Líbanon Sprengjuregn í bænum Burj el-Shmali í gær þegar Ísraelsher gerði stærstu árás frá upphafi stríðsins við landamærin í suðurhluta Líbanon . — AFP/Bilal Kashmar
Loftárásir Ísraelshers á vígi Hisbollah í Líbanon í gær urðu 274 manns að bana, að sögn líbanska heilbrigðisráðuneytisins. Er það mesta mannfall á einum degi síðan stríð hófst á milli Ísraels og Hamas-hryðjuverkasamtakanna 7

Loftárásir Ísraelshers á vígi Hisbollah í Líbanon í gær urðu 274 manns að bana, að sögn líbanska heilbrigðisráðuneytisins. Er það mesta mannfall á einum degi síðan stríð hófst á milli Ísraels og Hamas-hryðjuverkasamtakanna 7. október 2023. Firass Abiad heilbrigðisráðherra Líbanon sagði að 21 barn og 39 konur hefðu fallið í árásunum en frá síðasta þriðjudegi hefðu 5.000 særst. Ísraelsher staðfesti að hann hefði gert árás á meira en 800 vígi Hisbollah í suður- og austurhluta Líbanon í gær.

Á sunnudagsmorgun flúðu hundruð þúsunda Ísraela í norðurhluta Ísraels í sprengjuskýli þegar Hisbollah skutu eldflaugum yfir landamærin.

„Ég lofaði að við myndum breyta öryggisjafnvæginu í norðri – og það er einmitt það sem við erum að gera,“ sagði Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels á öryggisfundi í gær og bætti við að stefna Ísraels væri að koma í veg fyrir ógnir frekar en að „bíða“ eftir þeim.

Friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna í Líbanon (UNIFIL) varaði við því í gær að frekari árásir á landamærum Ísraels og Líbanon gætu haft „hrikalegar“ afleiðingar, „ekki aðeins fyrir þá sem búa beggja vegna landamæranna heldur einnig fyrir allt þetta svæði“, kom fram í yfirlýsingu UNIFIL.

Daniel Hagari, talsmaður ísraelska hersins, sagði fólki í Líbanon að forðast hugsanleg skotmörk sem tengjast Hisbollah þar sem árásir myndu halda áfram á vígi hryðjuverkasamtakanna, sem væru víða um Líbanon. Því ættu óbreyttir borgarar að flýja þau svæði til að tryggja öryggi sitt. Fréttamenn AFP sáu raðir af bílum almennra borgara sem voru að flýja heimili sín, m.a. frá borginni Sidon og einhverjir leituðu athvarfs í skólum eða tjölduðu á götum úti.

Najib Mikati forsætisráðherra Líbanon hvatti Sameinuðu þjóðirnar og leiðtoga heimsins til að koma í veg fyrir það sem hann kallaði „áætlun Ísraelsstjórnar um að eyðileggja líbanska bæi og þorp“.

Mikil pressa er nú á Ísraelsstjórn á alþjóðavettvangi að draga úr árásum, en óttast er að brotist gæti út allsherjarstríð á svæðinu þar sem árásir Ísraelshers hafa færst frá suðurhluta Gasasvæðisins að norðurlandamærum Líbanon undanfarna daga.
doraosk@mbl.is