Breiðafjarðarferjan Baldur kom til landsins frá Noregi síðastliðið haust.
Breiðafjarðarferjan Baldur kom til landsins frá Noregi síðastliðið haust. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Vegagerðin hefur boðið út rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs árin 2025 til 2028. Um er að ræða sérleyfi til að annast fólks-, bifreiða- og vöruflutninga á milli Stykkishólms og Brjánslækjar á Barðaströnd með viðkomu í Flatey

Vegagerðin hefur boðið út rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs árin 2025 til 2028.

Um er að ræða sérleyfi til að annast fólks-, bifreiða- og vöruflutninga á milli Stykkishólms og Brjánslækjar á Barðaströnd með viðkomu í Flatey. Bjóðandi skal nota ms. Baldur, sem er í eigu Vegagerðarinnar.

Samningstími er þrú ár, frá 9. maí 2025 til og með 30. apríl 2028, með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum um eitt ár í senn.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og verða tilboð opnuð 19. nóvember nk. Sæferðir, dótturfélag Eimskips, sjá núna um rekstur Baldurs. Gengið var frá samningum í nóvember í fyrra. Samningsfjárhæðin er tæpar 612 milljónir króna á ársgrundvelli.

Ný Breiðafjarðarferja, Baldur, var keypt í Noregi í fyrra og kom skipið til landsins í september sl.

Baldur er rúmlega 30 ára gamalt skip, smíðað í Noregi 1991.

Það er 2.036 brúttótonn, tekur 235 farþega og 42 bíla í hverri ferð. Lengdin er 66 metrar og breiddin 13,4 metrar. sisi@mbl.is