Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Ein með öllu er þjóðarréttur Íslendinga og nánast veisla í huga margra. Ómögulegt er að spilla gleði þeirra og því höfum við haldið prísnum á pylsunum óbreyttum í sjö ár; 350 krónur, þær ódýrustu á Íslandi segja sumir og það eru frábær meðmæli,“ segir Jóhanna Eyrún Guðnadóttir kaupmaður á Tálknafirði. Þar í bæ reka þau Ásgeir Jónsson eiginmaður hennar matvöruverslunina Hjá Jóhönnu, þar sem fólk getur gengið að öllum helstu nauðsynjum vísum og raunar fleiru. Þar verður að halda til haga að við afgreiðsluborðið eru pottar tveir; í öðrum eru pylsurnar soðnar og hinn heldur brauðinu heitu.
Íslendingar vilja og velja
„Íslendingar vilja og velja pylsur,“ segir Ásgeir Jónsson. „Pylsusalan eru svo sem engin undirstaða í rekstrinum en mikilvægt að hafa þetta í boði. Samfélagsleg skylda gæti einhver sagt. Því seljum við þetta jafn ódýrt og mögulegt er og verðið hefur raunar verið hið sama alveg síðan við fórum út í þennan verslunarrekstur fyrir sjö árum. Ég veit svo sem ekki hve lengi við höldum út að bjóða pylsurnar svona ódýrar; að einhverju leyti er þetta til gamans gert.“
Á Íslandi mallar verðbólga og vextir eru í hæstu hæðum. Af þeim sökum gagnrýna margir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, til dæmis alnafni hans, kaupmaðurinn á Tálknafirði. „Hann nafni minn ætti að sýna þessari viðleitni okkar allan skilning. Ef kaupmenn í landinu héldu sig almennt á því róli í verðlagningu sem við gerum væri staða efnahagsmála á Íslandi betri,“ segir Ásgeir.
Mikilvæg matvörubúð
Matvörubúð er mikilvæg starfsemi í hverju samfélagi, svo sem á Tálknafirði þar sem búa um 250 manns. „Við hjónin fórum út í þessa starfsemi þegar kaupmaðurinn sem fyrir var ákvað að hætta og til stóð að loka búðinni. Okkur fannst ómögulegt að þurfa að aka í næstu þorp til þess að fá helstu nauðsynjar og tókum því við þessum rekstri, sem hefur gengið ljómandi vel. Vöruverð hjá okkur er vel samkeppnishæft við aðra, að ekki sé talað um pylsurnar ódýru sem Tálknfirðingar gera góð skil,“ segir Jóhanna Eyrún að síðustu.