Guðrún Guðlaugsdóttir
Mikið hefur að undanförnu verið rætt um uppeldi barna og upplýsingu þeirra vegna ýmissa hörmulegra atburða.
Fyrir skömmu gistu í stofunni hjá mér þrír 12 ára drengir úr barnabarnahópnum. Þeir komu sér ágætlega fyrir með teppum og koddum í sófum og á dýnum. Ég leit inn til þeirra og spurði hvort þeir ætluðu ekki að fara að sofa en þeir voru að horfa á mynd sem þeir reyndar settu á „stopp“ þegar ég kom. Ég spurði hvort við ættum ekki að fara með „faðirvorið“. Þeir tóku dræmt undir það en hlustuðu þolinmóðir á mig fara með bænina.
Morguninn eftir fengu strákarnir hafragraut og síðan fóru þeir aftur inn í stofu, horfandi hver á sinn síma. Ég hugsaði til umræðunnar og ákvað að spjalla aðeins við börnin. Fór inn til þeirra og sagði þeim í óspurðum fréttum að þegar þeir yrðu fermdir eftir ekki svo langan tíma yrðu þeir að kunna bænina; Faðir vor og meira að segja margt fleira.
Síðan spurði ég hvort ekki væri sniðugt að fara með faðirvorið aftur. Þeir voru til í það en í þetta skipti spurði ég þá út í hvað hver og ein setning merkti. Allt gekk ágætlega þar til kom að freistingunni. – Þeir sögðust ekki vita hvað freisting þýddi. Ég sagði þeim að ef til dæmis stór og flott kaka væri frammi í eldhúsi sem ætti að vera í veislu og þeir færu bara og tækju sér stóran bita áður en veislan hæfist þá hefðu þeir fallið fyrir freistingu.
„Átti kakan að vera í afmæli?“ sagði einn. Ég játti því, þá setti þá hljóða þar til einn sagði: „Úff – þetta væri hræðilegt!“
Áður höfðum við reyndar staldrað við orðið skuldunauta. Þeir vildu vita hvers konar naut það væru. Ég sagði þeim að skuldunautar merktu fólk sem kannski hefði gert þeim eitthvað og þeir yrðu að reyna að fyrirgefa. „Það er nú ekki alltaf hægt,“ sagði einn strákurinn eftir nokkra umhugsun. Sem og voru uppi vangaveltur um hafragrautinn, hvort hann væri „daglegt brauð“.
Að bænalestrinum lokunum sagði ég þeim frá lífsreglunum sem amma mín kenndi mér. Að ég skyldi vera heiðarleg, dugleg og reglusöm. Það síðasta væri mikilvægt því það væri sama hvað ég yrði heiðarleg og dugleg, ef ég drykki mig fulla aftur og aftur þá myndi ég á endanum lenda í vandræðum.
„Ein spurning?“ sagði einn drengjanna og rétti upp hönd. „Af hverju breytti þá Jesús vatni í vín?“ sagði hann svo.
Drengirnir horfðu allir á mig spurnaraugum. Þetta er líklega ein erfiðasta spurning sem ég hef fengið á ævinni. Eftir nokkra umhugsun sagði ég: „Kannski hafa þeir sem skrifuðu þessar frásagnir í guðspjöllunum sjálfir verið hrifnir af víni og sett þetta inn í textann“ (ekki veit ég hvað guðfræðingar segja um þessa útskýringu), en strákarnir kinkuðu allir kolli og sögðu að þannig hlyti þetta að vera því allir vissu að það væri mikið vesen út af bæði víni og dópi og fólk gerði allt mögulegt ljótt fullt eða dópað.
Að þessu loknu varð nokkur þögn. Svo spurði ég hvort þeir vissu hvað siðfræði væri.
Nei, þeir könnuðust ekki við það orð. En þeir kinkuðu hins vegar kolli þegar við ræddum um hvað margt væri sem hvergi væri skrifað en allir vissu að ekki mætti gera, – svo sem að vera vondir við minnimáttar og fleira í þeim dúr.
Þessum spaklegu umræðum lauk með því að ég sagði við þá: „Það kemur að því að þið verðið fullorðnir. Eftir nokkur ár verðið þið átján ára. Þá ráðið þið ykkur sjálfir og farið kannski að vinna. Þá verðið þið að borga skatta.“ Þeir höfðu ekki heyrt skatta nefnda og spurðu hvað það væri.
„Ef þið fáið kaup þá þurfið þið að borga hluta af því til þess að hafa vegi til að keyra á, skóla og spítala.“ Þetta fannst þeim ekki vitlaust.
Ég stóð upp og sagði: „Jæja, nú ætla ég ekki að predika lengur yfir ykkur.“ Þeir horfðu á mig spyrjandi. Orðið predikun höfðu þeir kannski heyrt en vissu ekki hvað þýddi. Eftir að hafa sagt þeim frá stólnum sem presturinn í kirkjunni stendur í og heldur ræðu yfir kirkjugestum þá skildu þeir hvað við var átt.
Síðan þökkuðu þeir mér kærlega fyrir þessar upplýsingar og fóru aftur að skoða símana sína en ég fór fram í eldhús og fékk mér kaffi. Jafnframt velti ég fyrir mér hvort fólk ætti ekki að ræða meira við börn sín um samsetningu samfélagsins og hvaða boð og bönn þar ríkja. Kannski myndi óöldin minnka ef meira væri spjallað um hvað samfélag er og hvernig heppilegast sé að lifa innan þess.
Höfundur er blaðamaður og rithöfundur.