Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri fór 26 sinnum til útlanda í embættiserindum á síðastliðnum tveimur árum. Ferðirnar tóku 90 daga og hefur Dagur því dvalið í tæpa þrjá mánuði í útlöndum af þeim 29 mánuðum sem liðnir eru af kjörtímabilinu

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri fór 26 sinnum til útlanda í embættiserindum á síðastliðnum tveimur árum. Ferðirnar tóku 90 daga og hefur Dagur því dvalið í tæpa þrjá mánuði í útlöndum af þeim 29 mánuðum sem liðnir eru af kjörtímabilinu.

Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Nýtti sér einn orlofsdag

Tíðni ferða borgarstjórans jókst verulega eftir myndun nýs meirihluta sumarið 2022, en á fyrra kjörtímabili fór hann 13 sinnum út og 26 sinnum á því rúma hálfa kjörtímabili sem liðið er.

Í tengslum við þessar ferðir tók Dagur út einn föstudag í orlof í febrúar 2020. Þrisvar framlengdi hann eða hóf ferð með því að bæta við dvöl einum eða tveimur dögum sem féllu á helgarfrí. Í þeim tilvikum greiddi hann sjálfur þann hluta ferðarinnar.

Gjaldfærður kostnaður vegna 26 ferða á tímabilinu júní 2022 til dagsins í dag er 5.661.248 kr. Gjaldfærður kostnaður vegna 13 ferða á tímabilinu júní 2018 til maí 2022 er 3.054.830 kr. Dagpeningar vegna 26 ferða frá júní 2022 til dagsins í dag eru 1.640.536 kr. Dagpeningar vegna 13 ferða frá júní 2018 til maí 2022 voru 1.009.559 kr. Samtals er þessi ferðakostnaður 11.366.173 krónur.

Fór til 25 landa í 39 ferðum

Þegar teknar eru saman ferðirnar fyrir bæði kjörtímabilin heimsótti borgarstjórinn 25 lönd í 39 ferðum.

Í svarinu kemur fram að erfitt hafi verið að finna út nákvæman dagafjölda, en gróft talið séu þetta 90 dagar frá 2022 til dagsins í dag og 55 dagar 2018 til 2022. Tekið er fram í svari borgarinnar um samanburð á ferðum milli kjörtímabila „að hafa beri í huga“ að covid var á fyrra kjörtímabilinu.

Utanlandsferðir

Ferðum borgarstjóra fjölgaði verulega eftir myndun nýs meirihluta.

2,6 milljónir í dagpeninga fyrir bæði kjörtímabilin.

Fór til 25 landa í 39 ferðum.

Tók út einn orlofsdag í tengslum við ferðirnar.

Höf.: Óskar Bergsson