Sigurður Mar Stefánsson fæddist 27. október 1950. Hann lést 17. júlí 2024.

Útför hans fór fram 5. september 2024.

Elsku tengdapabbi og afi.

Komið er að kveðjustund og þú hefur fengið hvíldina. Við munum sakna þín meira en við getum enn ímyndað okkur og ljóst er að við munum eiga svo margar skemmtilegar sögur að segja af þér sem munu skemmta allri fjölskyldunni um ókomna tíð. Þú varst alltaf hrókur alls fagnaðar, sprellandi og að fíflast og þá sérstaklega á mannamótum. Við vitum að Stebbi tekur á móti þér í sumarlandinu með breiða faðminn sinn og þið feðgar skálið saman í Stellu, leysið heimsmálin og hlæið hátt og dátt eins og ykkur var lagið.

Veikindi síðustu ára tóku á þig og þína nánustu og var erfitt að horfa á eftir þér hverfa smám saman. Alltaf var þó stutt í glensið og húmorinn sem og góðu ráðleggingarnar sem þér fannst gaman að veita okkur þó svo að þær meikuðu ekki alltaf sens í lokin. Sönginn dáðir þú meira en annað og munum við sakna þess að heyra þig bresta í söng við hin ýmsu tækifæri. Andrea Bocelli hafði ekki roð við þér!

Áður en heilinn fór að gefa sig varst þú skarpur og drífandi og uppfullur af hugmyndum, reynslu og þekkingu sem þér fannst gaman að deila með öllu þínu fólki. Þú varst stoltur af fólkinu þínu og hvattir okkur til dáða, hvert á sínu sviði, og studdir meira að segja tengdadótturina í gegnum nám og fagnaðir hennar sigrum því allir sigrar voru líka þínir sigrar. Þegar Stebbi vildi nefna einkasoninn í höfuðið á föður sínum þá var auðfengið að við myndum nefna hann sigurvegara í nafni afa síns og ber hann nafn sitt með stolti.

Elsku Siggi, takk fyrir að vera frábær tengdapabbi og prakkaraafi og skemmtilega lifandi karakter í lífi svo margra. PS. Þú knúsar Stebba frá okkur.

María (Maja), Tara
og Sigurður (Siggi).