Hjörtur J. Guðmundsson
Hjörtur J. Guðmundsson
Með fríverzlunarsamningnum við Bretland voru viðskiptahagsmunir Íslands tryggðir með óbreyttum hætti miðað við EES-samninginn.

Hjörtur J. Guðmundsson

„Ég á enn eftir að hitta þann aðila í viðskiptalífinu sem vildi frekar 29 tvíhliða viðskiptasamninga í stað eins,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á málþingi í tilefni af 30 ára afmæli EES-samningsins fyrr á árinu þar sem hún beindi spjótum sínum að þeim sem bent hafa á mikla og vaxandi ókosti aðildar Íslands að samningnum. Hins vegar er vandséð hvað ráðherrann átti við, enda virtist hún hafa verið að halda því fram að heyrði EES-samningurinn sögunni til þýddi það meðal annars endalok Evrópusambandsins.

Með orðum sínum var ráðherrann að vísa til þeirra 29 ríkja fyrir utan Ísland sem aðild eiga að EES-samningnum; 27 ríkja Evrópusambandsins auk Noregs og Liechtenstein sem eru eins og Ísland í EFTA. Kæmi til þess að Ísland skipti EES-samningnum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning, eins og gert var í tilfelli Bretlands, annars stærsta viðskiptalands okkar, án þess að nokkuð færi á hliðina, væri hins vegar einungis um einn samning að ræða við ríki sambandsins enda hafa þau framselt vald sitt til að semja um slíka samninga til stofnana þess.

Hvað hin EFTA-ríkin varðar gildir vitanlega EFTA-sáttmálinn á milli þeirra og Íslands. Þannig yrði í mesta lagi um tvo viðskiptasamninga að ræða, annars vegar við Evrópusambandið og hins vegar hin EFTA-ríkin. Kæmi til þess að EFTA-ríkin semdu saman við sambandið um fríverzlunarsamning yrði þó einungis um einn samning að ræða á milli Íslands og umræddra 29 Evrópuríkja. Fyrir vikið gæti sú mynd sem ráðherrann kaus að draga upp vart orðið að veruleika nema ekki einungis Evrópusambandið heldur einnig EFTA myndi líða undir lok.

Hengd á klafa hnignandi markaðar

Með fríverzlunarsamningnum við Bretland voru viðskiptahagsmunir Íslands tryggðir með óbreyttum hætti miðað við EES-samninginn. Ekki aðeins að mati utanríkisráðuneytisins heldur einnig hagsmunaaðila. Meira að segja formaður Viðreisnar gat ekki annað en viðurkennt það. Einungis var gagnrýnt að ekki hefðu náðst enn betri kjör. Á hinn bóginn felur samningurinn hvorki í sér framsal á valdi til viðsemjandans né upptöku á regluverki hans og kröfu um að það sé æðra innlendri lagasetningu (bókun 35) eins og í tilfelli EES-samningsins.

Mjög langur vegur er frá því að ríki standi í biðröð eftir því að fá aðild að EES-samningnum eða að gera samninga í anda hans við Evrópusambandið. Þvert á móti hafa þau kosið víðtæka fríverzlunarsamninga. Þá hafa til dæmis stjórnvöld bæði í Bretlandi og Sviss ítrekað afþakkað EES-samninginn og hliðstæða samninga. Yfirlýst markmið Evrópusambandsins í viðræðunum um útgöngu Breta úr röðum þess var að fá þá til þess að gangast undir sem mest af regluverki sambandsins til þess að tryggja að þeir yrðu ekki samkeppnishæfari en ríki þess.

Með aðildinni að EES-samningnum höfum við hengt okkur á klafa hnignandi markaðar miðað við aðra helztu markaði heimsins eins og er til dæmis áréttað í tveimur skýrslum sem birtar hafa verið á árinu og unnar fyrir Evrópusambandið, annars vegar af Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra þess, og hins vegar Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, þar sem dregin er upp afar dökk mynd af stöðu sambandsins og hvernig það hafi dregizt aftur úr öðrum mörkuðum. Ekki sízt þegar kemur að samkeppnishæfni fyrirtækja.

Hver er efnahagslegi ávinningurinn?

Vaxandi framsal valds til stofnana Evrópusambandsins, með bæði óbeinum og í vaxandi mæli beinum hætti, í gegnum aðildina að EES-samninginn hefur iðulega verið réttlætt með fullyrðingum um að hún skipti landsmenn gríðarlegu máli efnahagslega, eins ásættanlegt og það getur talizt að gera slíkt vald að verslunarvöru. Fullyrt hefur verið að ávinningurinn væri bæði ótvíræður og óumdeildur og jafnvel gengið svo langt að halda því fram að án hans myndi landið einangrast. Talsvert minna hefur þó farið fyrir haldbærum rökum í þeim efnum.

Frá því er skemmst að segja að ekkert er í raun hægt að fullyrða um ætlaðan efnahagslegan ávinning af aðildinni að EES-samningnum þar sem „hvorki almenn né sértæk hagfræðileg úttekt“ hefur verið gerð í þeim efnum, svo vitnað sé til svars forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar, þáverandi alþingismanns, í apríl 2009. Tiltekin var sú efnahagsþróun sem átt hefði sér stað frá gildistöku samningsins en tekið fram að erfitt væri að greina hvað mætti rekja til hans og hvað til almennrar þróunar efnahagsmála hér heima og erlendis.

Frá þeim tíma hefur aðeins ein slíkt rannsókn verið gerð, af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir ráðuneyti utanríkisráðherra sem skilað var 2018 en ekki birt af ráðuneytinu, en hún skilaði þó í raun engum afgerandi niðurstöðum. Þó var þess til að mynda getið að ekki væri að sjá að EES-samningurinn hefði leitt til aukinnar erlendrar fjárfestingar hér á landi. Skýrsla starfshóps undir forystu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, fyrir ráðuneytið haustið 2019 bætti í raun engu þar við frekar en í flestum öðrum efnum.

Höfum aldrei notið fulls tollfrelsis

Farin hefur einmitt gjarnan verið sú leið að eigna EES-samningnum nokkurn veginn alla jákvæða efnahagslega þróun bæði eftir og fyrir gildistöku hans. Til dæmis tollfrelsi í viðskiptum með iðnaðarvörur við ríki Evrópusambandsins, en komið var tollfrelsi á hérlendar iðnaðarvörur mörgum árum áður en EES-samningurinn kom til sögunnar með fríverzlunarsamningi Íslands við forvera sambandsins frá 1972 sem enn er í fullu gildi. Þá felur sá samningur í sér hagstæðari tollakjör en EES-samningurinn varðandi ýmsar sjávarafurðir.

Færa má raunar haldbær rök fyrir því, byggt á gögnum frá utanríkisráðuneytinu, að sjávarútvegshagsmunum þjóðarinnar væri mun betur borgið með víðtækum fríverzlunarsamningi en EES-samningnum, einkum þar sem við höfum aldrei notið fulls tollfrelsis í þeim efnum í gegnum aðildina að honum og tollar hafa einkum verið á unnum og þar með verðmætari afurðum. Á sama tíma hefur Evrópusambandið á liðnum árum samið um fullt tollfrelsi með sjávarafurðir í fríverzlunarsamningnum við ríki á borð við Kanada, Japan og Bretland.

Hægt væri að byggja viðtækan fríverzlunarsamning við Evrópusambandið á samningnum frá 1972, en sambandið hefur á liðnum árum verið að uppfæra eldri fríverzlunarsamninga sína með þeim hætti. Til þess að semja um slíkan samning þyrfti ekki að segja EES-samningnum fyrst upp. Það segir annars sitt um málstaðinn og trúna á hann að talin sé ekki aðeins þörf á því að skreyta samninginn óspart með stolnum fjöðrum heldur einnig að halda því fram að hér færi nánast allt á hliðina ef hans nyti ekki við. Þvert á staðreyndir málsins.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

Höf.: Hjörtur J. Guðmundsson