Guðný Björgvinsdóttir fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 29. júní 1953. Hún lést á heimili sínu í Hafnarfirði 9. september 2024.

Guðný var dóttir hjónanna Björgvins Sigurðar Sveinssonar, f. 17. október 1921, d. 24. júlí 2021, og Hólmfríðar Ásu Vigfúsdóttur, f. 17. október 1926, d. 8. júlí 2007.

Systkini Guðnýjar eru: Vigfús Jón, f. 19 mars 1948, Rúnar Berg, f. 23. október 1950, d. 2. október 1975, Eðvarð, f. 16. desember 1951, Ingibjörg E., f. 14. september 1955, d. 16. apríl 2022, Björgvin Hólm, f. 24. desember 1960, og Ásbjörg, f. 3. desember 1964.

Börn hennar eru: 1) Hólmfríður María, f. 11. júlí 1975, d. 1. mars 1982. 2) Berglind, f. 25. nóvember 1979. 3) Bergsveinn, f. 23. maí 1983, maki Gunnhildur Guðnýjardóttir, f. 27. mars 1984. Barnabörn Guðnýjar eru orðin sjö talsins.

Útför Guðnýjar fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 24. september 2024, klukkan 15.

Hve vanmáttug orð virðast vera þegar maður reynir að taka saman 45 ár af lífsreynslu með þér, elsku mamma. Engin orð virðast ná utan um þá gjöf sem þú gafst mér með því einu að vera móðir mín.

Þetta örlagaríka kvöld, þegar heimurinn varð að verri stað vegna þess að þú varst skyndilega ekki lengur hluti af honum, fékk ég að sitja ein með þér í stutta stund. Í miðri hringiðunni þegar engin hugsun náði að klárast og sorgaraldan sem barði á mér var við það að drekkja mér, þá náði ég draga andann og staldra við.

Ég hugsaði með mér hvernig ég vildi muna þessa stund og hvað ég vildi segja við þig. Það eina sem kom upp í huga minn var þakklæti. Þakklætið náði yfirhöndinni og í augnablik varð sorgaraldan að spegilsléttum sjó. Ég kyssti þig á ennið, strauk kinn þína og hvíslaði einfalt „takk“ í eyra þitt, ekkert annað… bara takk.

Ef það hefði ekki verið fyrir það hvernig þú lifðir lífi þínu og fyrir þann lærdóm sem þú miðlaðir til mín með öllum óeigingjörnu gjörðum þínum, þá hefði þakklætið eflaust ekki sigrað þetta kvöld.

Vegna fórnfýsi þinnar lærði ég að hjálpa náunganum. Vegna þrautseigju þinnar lærði ég að gefast aldrei upp. Vegna ástar þinnar lærði ég að elska. Vegna visku þinnar lærði ég muninn á réttu og röngu. Vegna sjálfstæðis þíns lærði ég að ekkert er ómögulegt. Vegna kraftsins þíns lærði ég hugrekki. Vegna auðmýktar þinnar lærði ég að dæma ekki og vegna lífsgleði þinnar lærði ég að hlæja upphátt.

Ég á eftir að sakna þín, elsku mamma, engin orð ná yfir þann söknuð og það tómarúm sem nú er í hjarta mínu.

Ég átti óteljandi dýrmætar samverustundir með þér og ég varðveiti þær allar en ég ætla ekki að rita þær hér. Núna vil ég bara segja takk fyrir hlýjuna, styrkinn, fórnfýsina, lærdóminn og takk fyrir að elska okkur án allra skilyrða. Þú ert og verður alltaf mín helsta fyrirmynd og ég mun leggja mig fram um það alla daga að lifa eins vel og mér er unnt, þér til heiðurs.

Ástar- og saknaðarkveðja.

Þín dóttir,

Berglind.

Elsku mamma mín.

Það er svo ólýsanlega sárt að missa þig svona skyndilega frá okkur. Það var ekkert sem gat undirbúið mann fyrir það að allt í einu varst þú bara búin að kveðja og maður fékk ekki einu sinni tækifæri til að segja einu sinni enn, ég elska þig og láta þig vita hversu mikils virði þú varst mér. Það mun taka alla ævi að sætta sig við það að þú sért farin og hversdagsleikinn verður aldrei samur hjá manni. Þú varst besta amma í öllum heiminum og þú sást ekki sólina fyrir barnabörnunum þínum og þau dýrkuðu þig og dáðu, elsku mamma. Það sem er sárast er að þú munt ekki sjá þau vaxa úr grasi og sjá þau þroskast og fullorðnast.

Það lýsir þér best hvernig þú brást við um daginn þegar ég bað þig um að keyra mig til Reykjavíkur þegar ég fór í Reykjavíkurmaraþonið. Þá stóð ekki á svörum hjá þér, það var sko lítið mál að gera það. Þú gerðir allt fyrir fólkið þitt og bónbetri manneskju er ekki hægt að finna. Þú varst einstök, elsku mamma, á allan hátt og fólk sem kynntist þér dýrkaði þig einfaldlega.

Þú og elsku Heiða Marí áttuð einstakt samband og ef hún svo mikið sem tók upp tólið og bað þig að sækja sig þá varstu mætt á núll einni. Það er sárt að Tristan Logi og Kristín Guðný muni ekki fá að njóta meiri tíma með þér og kynnast enn betur öllum þeim kostum sem þú hafðir. Þú varst mín helsta fyrirmynd í lífinu, elsku mamma, og ég veit satt best að segja ekki hvernig lífið án þín á að virka. Lífið verður tómlegra og fátæklegra án þín og ég ætla ekki einu sinni að reyna að setja í orð hversu mikið ég sakna þín.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, elsku mamma. Takk fyrir alla fórnfýsina. Takk fyrir allt sem þú lagðir á þig sem gerði það að verkum að ég er sú manneskja sem ég er í dag og takk fyrir allt það sem þú gerðir fyrir börnin mín sem munu sakna ömmu sinnar óendanlega mikið.

Ég vona að þér líði vel í sumarlandinu hjá elsku Fríðu þinni sem þú saknaðir svo afskaplega mikið. Þú munt alltaf lifa í hjarta mínu og þú verður ávallt hjá mér, elsku mamma.

Ég elska þig út fyrir endalok alheimsins.

Þinn sonur,

Bergsveinn.

Elsku Guðný.

Orð fá ekki lýst hversu sárt það er að hafa þig ekki lengur hjá okkur. Þú tókst mér opnum örmum þegar við Bergsveinn byrjuðum saman og varst mér alltaf svo góð. Þú varst líka yndisleg amma og dekraðir börnin mín endalaust. Það voru alltaf skemmtilegar stundir sem við áttum hérna þegar þú komst við hjá okkur og krökkunum fannst alltaf svo gaman þegar amma Guðný birtist allt í einu í dyrunum.

Ég man ennþá þegar ég hitti þig í fyrsta skiptið. Það var í árlega jólaboðinu þínu á annan í jólum árið 2018. Þú varst svo yndisleg og þetta var svo góð kvöldstund með allri fjölskyldunni og hálfgerð eldskírn fyrir mig inn í fjölskylduna. Mér fannst líka mjög fyndið þegar ég frétti að þú hefðir verið búin að njósna um mig í IKEA áður en ég hitti þig síðan í fyrsta skipti. Þú varst nefnilega fastagestur í IKEA og það var ósjaldan sem ég rakst á þig á veitingastaðnum þegar ég var í vinnunni.

Þú hefur verið alger klettur fyrir okkur í þeim áskorunum sem við höfum þurft að takast á við á síðustu árum og alltaf gert þitt besta til þess að hjálpa okkur eins mikið og þú hafðir tök á.

Þín verður sárt saknað alla tíð og ég vildi að þú hefðir ekki þurft að kveðja okkur svona snemma.

Ég elska þig og sakna þín.

Þín tengdadóttir,

Gunnhildur.

Amma Guðný var ekki bara amma mín heldur fyrirmynd mín og besti vinur. Hún var alltaf hress og fljót að fá mig til að hlæja.

Mér leið best heima hjá ömmu enda heimsótti ég hana vikulega. Ég mun sakna allra þeirra góðu stunda sem við áttum saman. Ég mun sakna þess að þurfa að laga sjónvarpið fyrir hana, allra bíltúranna okkar upp í Ikea, laukbuffsins sem þú eldaðir mjög oft fyrir mig því þú vissir að það var uppáhaldsmaturinn minn og alls nammisins sem þú áttir alltaf til og var úti um allt heima hjá þér.

Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og ég veit að það er stuð hjá þér í sumarlandinu.

Þinn stóri ömmustrákur,

Gísli Már.

Elsku besta amma.

Ég sakna þín meira en ég átti von á. Ég mun sakna leyniísbíltúranna, IKEA-ferðanna, heimsókna og matarboða. Þú lékst stórt hlutverk í lífi mínu og ég á erfitt með að sætta mig við að ég geti ekki hitt þig lengur. Ef mér leiddist þá gat ég alltaf hringt í þig. Þú gerðir meira fyrir mig en þú getur ímyndað þér. Ég mun alltaf sakna þín.

Heiða Marí
Bergsveinsdóttir.

Það er erfitt að setjast niður og reyna að koma tilfinningum í orð og minnast elsku Guðnýjar. Kallið kom svo skyndilega, öllum að óvörum. Hún var svo dugleg, ósérhlífin og hjálpsöm. Guðný var alltaf að, ein af þeim sem sló aldrei slöku við. Vann alla tíð mikið og þegar hún hætti að vinna í sinni vinnu vegna aldurs fann hún sér bara önnur störf. Hún var vinnuþjarkur og þurfti alltaf að hafa nóg fyrir stafni. Hún var ómissandi stuðningur og vinur barna sinna og barnabarna og afar stolt af þeim öllum og hafði gaman af að segja fréttir af þeim þegar við hittumst. Hún var mjög dugleg að vera í sambandi við vini og vandamenn, kom gjarnan við í heimsókn án fyrirvara eins og tíðkaðist alltaf hér áður og maður kunni svo vel að meta.

Guðnýju kynntist ég í byrjun árs 1982, á tíma sem var henni svo óskaplega erfiður. Ég held hún hafi stundum hrist hausinn yfir ungu stúlkunni sem bróðir hennar var í sambandi við. Hún kenndi mér margt og hjálpaði mér mikið í gegnum tíðina. Útvegaði vinnu í Bæjarútgerðinni, fannst líklega að ekki veitti af að skóla mig til og kenna mér aðeins að vinna. Við unnum saman í Hvalnum eitt sumarið og það var ótrúlegt að fylgjast með hvað hún var mikill dugnaðarforkur, ein með börnin sín tvö í erfiðri vaktavinnu. Hún hafði dyggan stuðning frá foreldrum sínum og það var unun að fylgjast með hvað þau voru samrýnd. Guðný var svaramaður þegar við Bjöggi giftum okkur hjá bæjarfógetanum í Hafnarfirði ásamt Ingu systur hennar, nú eru þær báðar farnar. Við minntumst þessarar stundar oft og göntuðumst með það að örfáir vissu af hjónabandinu á þeim tíma. Þegar ég hugsa um Guðnýju koma upp í hugann alls konar minningar. Hvað hún var alltaf hress og stöðugt að, líka fastir liðir eins og jólabúðingurinn frá henni sem hún færði bróður sínum alltaf á aðfangadag. Við hjónin eigum eftir að sakna hennar mikið. Mikill er missir Berglindar, Bergsveins og fjölskyldna og Guðnýjar verður sárt saknað. Það er huggun að trúa því að það verða margir til að taka á móti henni á nýjum stað. Elsku Guðný, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Ágústa Hauksdóttir.

Það kvöldið sem mér barst mér sú frétt að Guðný okkar væri látin helltust yfir mig þyngsli og sorg og sú hugsun að þetta gæti bara ekki verið satt. Guðný, þessi yndislega manneskja sem var svo kröftug, glöð, samviskusöm, hjartahlý og ávallt glettin í tilsvörum.

Það var alltaf svo notalegt að hitta Guðnýju. Hvort sem það var yfir kaffibolla í rólegheitum, í laufabrauðsgerð eða í golfskálanum úti á Kálfatjörn.

Guðný var alltaf með eitthvað á prjónunum, t.d. peysur, ungbarnasett eða vettlinga. Hún gat prjónað allt og fengu börnin hennar, barnabörn og aðrir heppnir að njóta afrakstursins. Hún elskaði börnin sín og barnabörn og sagði stolt frá þeim og mat hún samverustundirnar með þeim mikils.

Hin árlega laufabrauðsgerð hjá okkur verður aldrei eins. Hvort sem það er að grínast yfir mynstrinu eða ómynstrinu á kökunum eða tala um mikilvægi þess að pressa þær nógu fast eftir steikingu og svo auðvitað að salta þær passlega. Svo var ávallt metingur um það hver væri sérfræðingur í hvaða hlutverki en síðast en ekki síst glettni og hlátur yfir þessu öllu saman.

Fyrir nokkrum árum byrjaði Guðný að vinna í golfskálanum á Kálfatjörn. Því starfi sinnti hún strax af alúð og samviskusemi. Það var yndislegt að koma í skálann og fá hlýjar móttökurnar hjá Guðnýju og spjall jafnvel fyrir og eftir golfhring. Hún var alltaf svo hlý og umhyggjusöm og tók hún þátt í sorgum okkar og gleði. Brosið hennar, hláturinn og faðmlagið varð hjarta golfskálans. Hún hafði alltaf eitthvað gott fyrir okkur í skálanum og var þekkt fyrir rækjusalatið sitt. Hún gat allt nema að búa til súpu og það tísti í henni hláturinn á meðan hún lýsti því hvernig súpurnar hennar urðu. Hún hugsaði um okkur golffélagana eins og ungana sína. Á æfingakvöldum var Guðný alltaf með fulla skál af súkkulaði eða lakkrís sem við gerðum góð skil og svo var hlegið og gert grín að því að við skrifuðum aukakílóin og blóðþrýstingslyfin okkar á hana.

Elsku Guðný, það var yndislegt að eiga þig að. Ég á eftir að sakna þín mikið, hvíldu í friði.

Þín vinkona,

Ingibjörg.

Kær vinkona og fyrrverandi samstarfskona, Guðný Björgvinsdóttir, er látin. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 9. september síðastliðinn 71 árs að aldri.

Við Guðný kynntumst í álverinu Ísal og unnum þar saman í meira en 25 ár, þar af unnum við tvær saman í þvottahúsi Isal í tíu ár sem gekk vel því okkur þótti vænt um þvottahúsið. Við kölluðum það hjarta fyrirtækisins.

Guðný var skörungur til vinnu og bóngóð með eindæmum. Vildi allt fyrir alla gera. Hún var mikil prjónakona og bjó til allmargar stórglæsilegar flíkur, peysur, húfur og vettlinga, að ótöldum heimferðasettum sem hún gerði á barnabörnin sín og önnur börn sem hún gaf með gleði. Hún var mikil félagsvera. Fljótlega eftir að hún hefur störf hjá Ísal fór hún í starfsmannafélagið (STÍS), þar féll henni ekki verk úr hendi, vann á jólaböllum, þorrablótum og sá um þrif á sumarhúsum félagsins og gerði það vel.

Guðný var hress og kát að eðlisfari, var hnyttin í tilsvörum en vafðist stundum tunga um tönn eða heyrði illa og er mér minnisstætt þegar Hamborgarafabrikkan var opnuð, þá talaði hún alltaf um Hamborgarapaprikuna.

Samstarf okkar gekk með ágætum en af og til hvessti á milli okkar með gráti og hurðaskellum en það tók fljótt af. Þvottahúsið var sannkölluð félagsmiðstöð því þangað komu allir sem byrjuðu að vinna hjá fyrirtækinu til þess að fá föt, láta gera við föt og ýmislegt fleira. Þá var alltaf verið að kíkja á okkur í kaffi og spjall. Við settum saman smá kaffiklíku, hin fimm fræknu, og vildu margir komast í þá klíku en Guðný var ákveðin með að fleiri fengju ekki inngöngu.

Þegar mér bárust þessi sorgartíðindi kom yfir mig samviskubit að hafa ekki verið í meira sambandi, af hverju, en fátt um svör. Það er margs að minnast, elsku Guðný, en þangað til næst er við hittumst í Sumarlandinu með kók og nammiskál, takk fyrir allt.

Berglind og Bergsveinn sjá nú eftir yndislegri móður sinni og besta vini, sorg þeirra er mikil og hjartað í molum. Ég votta Berglindi, Bergsveini, Gunnhildi, barnabörnum og öðrum aðstandendum innilega samúð á þessari erfiðu stundu.

Ég kveð þig með einu af þínu uppáhaldslagi.

Er völlur grær og vetur flýr

og vermir sólin grund.

Kem ég heim og hitti þig,

verð hjá þér alla stund.

Við byggjum saman bæ í sveit

sem brosir móti sól.

Þar ungu lífi landið mitt

mun ljá og veita skjól.

Sól slær silfri á voga,

sjáðu jökulinn loga.

Allt er bjart fyrir okkur tveim,

því ég er kominn heim.

Að ferðalokum finn ég þig

sem mér fagnar höndum tveim.

Ég er kominn heim,

já, ég er kominn heim.

(Jón Sigurðsson)

Hjördís Sævarsdóttir.

Það er ótrúlegt hvað hlutirnir geta gerst hratt. Í firmamótinu á laugardeginum fyrir andlátið stóð Guðný vaktina í eldhúsinu í golfskálanum. Var þar líka á sunnudeginum en svo fáum við þær fréttir á mánudeginum að hún sé dáin. Elsku Guðný sem hafði staðið vaktina í eldhúsinu á golfvellinum okkar síðustu sumur var skyndilega farin.

Hennar hressa, hlýja og glaðlega viðmót heillaði alla sem komu að spila völlinn, svo eftir var tekið. Til að mynda þegar við héldum Íslandsmót golfklúbba í sumar mættu 50 miðaldra svangir golfarar í lok dags. Ekki leið á löngu þar til þeir voru allir farnir að kalla Guðnýju mömmu. Hún sagði þeim að skila diskunum á sína staði og ganga frá eftir sig, þetta væri ekkert flókið og ekkert múður. Allt gekk þetta eins og best varð á kosið. Fannst strákunum þetta allt hið besta mál og frábært fyrirkomulag, að sjálfsögðu.

Guðný var alltaf að, ef það var rólegt í eldhúsinu þá þreif hún og þegar allt var hreint þá settist hún niður og prjónaði. Alltaf eitthvað að gera, þannig var hún. Svo kallaði hún öðru hvoru að tölvan væri biluð og var þá kveikt á tölvunni eða hún endurræst og var þá hlegið innilega að þessu. Guðný var alsæl með, og minntist reglulega á, að geta séð Snæfellsjökulinn sinn yfir Faxaflóann, leyft huganum að reika á ættarslóðir sínar í Ólafsvík þar sem hún dvaldi oft sem barn og unglingur.

Fyrir hönd stjórnar, félagsmanna og allra þeirra sem komu á Kálfatjarnarvöll og áttu samskipti við þessa einstöku konu viljum við koma á framfæri innilegustu samúðarkveðjum til fjölskyldu hennar og vina. Erfitt verður að fylla það skarð sem fráfall Guðnýjar skilur eftir sig, en minning um einstaka konu lifir með okkur.

Fyrir hönd stjórnar Golfklúbbs Vatnsleysustrandar,

Hilmar Egill
Sveinbjörnsson
formaður og
Húbert Ágústsson
framkvæmdastjóri.