Kaplakrikinn Aron Pálmarsson stöðvar Þráin Orra Jónsson.
Kaplakrikinn Aron Pálmarsson stöðvar Þráin Orra Jónsson. — Morgunblaðið/Eyþór
Haukar urðu síðast liða til að tapa stigum í úrvalsdeild karla í handknattleik á nýju tímabili þegar FH-ingar lögðu þá að velli, 30:29, í æsispennandi Hafnarfjarðarslag í Kaplakrika í gærkvöld. Grannliðin eru þar með jöfn á toppi deildarinnar með…

Haukar urðu síðast liða til að tapa stigum í úrvalsdeild karla í handknattleik á nýju tímabili þegar FH-ingar lögðu þá að velli, 30:29, í æsispennandi Hafnarfjarðarslag í Kaplakrika í gærkvöld.

Grannliðin eru þar með jöfn á toppi deildarinnar með sex stig hvort eftir fjóra leiki en þessi leikur tilheyrði áttundu umferð og var flýtt vegna Evrópuleiks hjá FH. Liðin spila aftur á föstudag í fjórðu umferðinni, FH gegn Stjörnunni og Haukar gegn Fram. Aðrir leikir í umferðinni eru spilaðir á miðvikudag og fimmtudag.

Haukar voru yfir í hálfleik, 17:16, og eftir jafnan síðari hálfleik voru þeir í vænlegri stöðu, yfir 29:27, þegar fimm mínútur voru eftir.

Daníel og Birgir mikilvægir

En þeir skoruðu ekki mark á lokakaflanum, Aron Pálmarsson skoraði fyrir FH, Daníel Freyr Andrésson í marki FH varði vítakast, og síðan var það Birgir Már Birgisson sem gerði útslagið með því að skora tvö síðustu mörkin. Ekkert var skorað á lokamínútunni og Daníel varði tvö síðustu skot Haukamanna sem voru nærri því að jafna metin.

Daníel varði alls 15 skot í leiknum, þar af tvö vítaköst. Jóhannes Berg Andrason var markahæstur FH-inga með 8 mörk, Símon Michael Guðjónsson og Ásbjörn Friðriksson skoruðu 5 mörk hvor og Aron Pálmarsson 4.

Össur Haraldsson, Skarphéðinn Ívar Einarsson og Ólafur Ægir Ólafsson skoruðu sex mörk hver fyrir Hauka og Hergeir Grímsson fimm.