Baksvið
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Hugbúnaðarfyrirtækið Justikal, sem þróar stafrænt réttarkerfi, hefur fengið samþykki frá tveimur erlendum ríkjum fyrir innleiðingu lausnarinnar. Annað samþykkið snýr að landsréttarkerfi en hitt að gerðardómstól.
Samþykkið er forsenda fyrir því að hægt sé að selja og markaðssetja lausnir fyrirtækisins á viðkomandi mörkuðum.
Mikið samkeppnisforskot
Engin sambærileg kerfi eru í boði erlendis, sem veitir fyrirtækinu mikið samkeppnisforskot að sögn Margrétar Önnu Einarsdóttur, framkvæmdastjóra og stofnanda félagsins.
„Við munum tilkynna hver þessi lönd eru með haustinu. Við höfum á síðustu misserum verið í sambandi við margar þjóðir um innleiðingu Justikal-lausnarinnar,“ útskýrir Margrét Anna Einarsdóttir í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir að samþykkið þýði aukið aðgengi félagsins að mörkuðum. „Það verður virkilega gaman að fara með hugvitið út, sem hefur alltaf verið okkar markmið. Við höfum sýnt og sannað hvernig lausnin nýtist á Íslandi og höfum sinnt heimamarkaðnum vel. Það er gott veganesti fyrir erlenda markaði. Ég mun verða talsvert á ferðinni á næstu vikum og mánuðum til að hitta þessi erlendu ríki og ræða um Justikal á ráðstefnum,“ bætir Margrét Anna við.
Öruggar gagnasendingar
Um helstu viðbætur við Justikal á síðustu misserum segir Margrét Anna að þar beri hæst að nú er boðið upp á öruggar rekjanlegar gagnasendingar. „Nú er einnig hægt að nota lausnina m.a. til að birta stefnur í dómsmálum og kröfulýsingar í þrotabú með stafrænum hætti. Þetta er m.a. mögulegt vegna lagabreytinga sem gerðar voru síðastliðið vor.“
Hún segir að hægt og sígandi verði réttarkerfið meira og meira stafrænt og pappírinn sé á undanhaldi. „Það er stefnt að pappírsleysi hjá ríkinu. Stafræna leiðin þýðir hraðari málsmeðferð og aukna skilvirkni. Við höfum barist fyrir þessu mjög lengi.“
Almenn mál
Annað sem hefur breyst í Justikal-lausninni er að orðin er til önnur tegund af málum en dómsmál. Þau kallast „almenn mál“. „90% af málum enda ekki fyrir dómstólum. Þau leysast gjarnan á milli lögmanna og málsaðila. Í þeim tilfellum er hægt að nýta þessa nýju virkni.“
Annað sem breyst hefur á síðustu misserum hjá fyrirtækinu er að það er komið með tvær ISO-gæðavottanir, ISO 27001 og 27701. „Þetta er stórmál sem kostaði mikla vinnu, en við erum rosalega ánægð með hvernig til tókst. Við fengum hrós frá úttektaraðila sem sagði að við værum nú tilbúin með ferli sem dygði fyrir 500 manna félag. Við vildum með þessu sýna hvernig við ynnum og hvernig við ætlum okkur að starfa. Nú erum við tilbúin fyrir framtíðina.“
Spennandi tími
Margrét Anna á von á því að starfsmannafjöldinn aukist jafnt og þétt á næstu misserum samhliða aukinni sókn á erlenda markaði.
„Þú þarft að hafa hjartað í þessu og trúa á málstaðinn, þá raðast tækifærin upp. Þetta er mest spennandi tími í sögu félagsins,“ segir Margrét Anna Einarsdóttir að lokum.
Hugbúnaður
Fyrirtækið hefur á síðustu misserum verið í sambandi við margar þjóðir um innleiðingu Justikal-lausnarinnar.
Fékk 400 milljóna króna fjárfestingu frá Eyri Vexti árið 2022.
Hafa barist mjög lengi fyrir stafrænu leiðinni sem þýðir hraðari málsmeðferð og aukna skilvirkni.
Margrét verður talsvert á ferðinni á næstu vikum og mánuðum til að hitta erlendu ríkin sem samþykkt hafa lausnina og til að ræða um forritið á ráðstefnum.