Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra skrifaði grein í Morgunblaðið í gær, þar sem hún lagði áherslu á að Íslendingar næðu tökum á útlendingamálum; þó þau hefðu „farið úr böndunum“ hefðu stór skref verið stigin til batnaðar.
Undir það má taka, en betur má ef duga skal.
Fyrir meira en fimm árum sendi greiningardeild ríkislögreglustjóra frá sér „svarta skýrslu“ um skipulagða glæpastarfsemi. Þá sem oftar var bent á hve mikilvægt skilvirkt landamæraeftirlit væri í þeirri baráttu, þar á meðal að farið væri yfir farþegaskrár áður en flugvélar að utan lentu hér.
Fimm árum síðar skila enn ekki allir flugrekendur, sem hingað fljúga, af sér farþegaskrám áður en lagt er í hann yfir hafið. Þorri þeirra gerir það vissulega, svo unnt er að skima yfir nöfn um 93% farþega á leið hingað, en það er ekki nóg.
Hingað til lands komu í fyrra um 2,2 milljónir erlendra farþega, en 7% þeirra eru 154.000 manns, sem stjórnvöld vita engin deili á við komuna. Við blasir að liðsmenn skipulagðra glæpasamtaka, innlendra sem erlendra, taka sér frekar far með þeim félögum sem ekki afhenda farþegaskrár en hinum.
Þetta kom skýrt fram í viðtali við Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, í viðtali við Morgunblaðið á dögunum.
„Hvað innri [landamæri Schengen] á Íslandi varðar þarf það í fyrsta lagi að gerast að öll flugfélög skili inn upplýsingum um flugfarþega,“ sagði hann og minnti á að samkvæmt íslenskum lögum – lögunum sem hér gilda – beri öllum flugfélögum að afhenda farþegaskrár umyrðalaust.
Hið einkennilega er þó það, að þetta er nákvæmlega hið sama og Úlfar sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir ári. En staðan er enn sú sama.
Fyrirsláttur um að Ísland eigi eftir að fullnægja einhverjum formsatriðum úti í Evrópu til þess að krefja flugfélög um tæmandi farþegaskrár er nákvæmlega það, fyrirsláttur.
Ráðuneytismönnum ætti að hafa enst árið til þess, að ekki sé minnst á árin fimm, en umfram allt ætti hitt þó að vera enn skýrara, að íslensk lög ganga öðru framar á Íslandi.
Veitist flugrekendum örðugt að skilja það, er einfalt að koma þeim í skilning um það með því að neita þeim, sem ekki hafa staðið skil á farþegaskrám í tíma, um afgreiðslu farþega til landsins. Lögfræðingar farþeganna, sem snúið er við með þeim hætti, munu koma þeim lærdómi hratt og örugglega til skila, fyrst lögfræðingum hins opinbera er það ofviða.