Samkennd „Við vitum vel að því fleirum sem við getum greitt leiðina, því betra samfélag,“ segir í rýni um Taktu flugið, beibí!
Samkennd „Við vitum vel að því fleirum sem við getum greitt leiðina, því betra samfélag,“ segir í rýni um Taktu flugið, beibí! — Ljósmynd/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúsið Taktu flugið, beibí! ★★★½· Eftir Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur. Leikstjórn og leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Sviðshreyfingar: Ernesto Camilo Aldazábal Valdés. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Tónlist: Salka Valsdóttir. Lýsing: Ásta Jónína Arnardóttir. Hljóðhönnun: Brett Smith og Salka Valsdóttir. Leikendur: Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Frumsýnt á Litla sviði Þjóðleikhússins fimmtudaginn 12. september 2024.

Leiklist

Þorgeir

Tryggvason

Ung og kraftmikil stúlka reimar á sig strigaskó vinkonu sinnar til að taka þátt í skólahlaupinu. Og helst vinna það. Þá duga ekki þungu klossarnir með innleggjunum sem hún þarf að vera með til að vinna gegn meðfæddum einkennum sem eiga eftir að draga smátt og smátt úr getu hennar til að keppa við samferðafólk sitt á þeirra forsendum.

Ekki síst þar sem umhverfið og viðhorfin skilgreina jafningjagrundvöll á sjálfselskan og ranglátan hátt. Hluti af lífsbaráttunni verður réttindabarátta. Í grunninn eru samt keppikeflin þau sömu hjá henni og okkur öllum: ást, velgengni, fjölskylda. Hamingja. Að finna og skapa sér stað í heiminum og sess í mannlífinu.

Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir vann ekki skólahlaupið, en komst engu að síður í mark. Hlaupið myndar einn af þremur uppistöðuþráðum í vefnaði handritsins sem liggur Taktu flugið, beibí! til grundvallar. Hinir tveir eru hin skáldlega hugmynd um minningar sem sápukúlur, sem birtast stjórnlausar og glitrandi og hverfa svo aftur, og svo draumurinn um að verða leikkona. Nánar tiltekið söngleikjastjarna. Nánar tiltekið Edda Heiðrún Backman. Sem sjálf yfirvann sínar hörðu hindranir og endurskóp sig sem hreyfihamlaða listakonu, löngu eftir að Kolbrún Dögg heillaðist af henni í Litlu hryllingsbúðinni.

Sjálf fann Kolbrún Dögg sína leið að listinni. Með starfi í Halaleikhópnum og síðar námi á sviðshöfundabraut Listaháskólans og ritlist í Háskóla Íslands. Nám sem engum stóð til boða á árunum þegar hún var að leita að sinni leið, og hefði að öllum líkindum verið óaðgengilegt ungri konu með fötlun hvort eð er.

Handritið er ákaflega vel unnin smíð. Lipurlega skrifað, grunnhugmyndirnar vel nýttar í þjónustu söguefnisins. Öryggi í meðförum framvindu, tímalínu og hvernig leikararnir þrír: Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Kolbrún Dögg sjálf og Þuríður Blær Jóhannsdóttir, vinna saman í að segja söguna, bregða sér í ólík hlutverk og víxla þeim fumlaust. Þuríður Blær ber vissulega hitann og þungann af mynd aðalpersónunnar og gerir það mjög vel, með sjarma og krafti, en nýtur líka prýðilegs stuðnings af meðleikurum sínum.

Áherslan er mjög á að rekja þráðinn, bæði viðburði og persónulegan þroska aðalpersónunnar. Margt þarf að nefna til að koma okkur í mark í lífshlaupinu, sem verður nokkuð á kostnað dýptar. Vel hefði mátt hugsa sér áhrifin af að dvelja frekar lengur við og greina einstök atriði: sambandið við vinkonurnar kemur upp í hugann. Eða fjölskylduna, þar standa áskoranir söguhetjunnar í raun í skugganum af glímu móðurinnar við þunglyndi og endurteknar sjálfsvígstilraunir. Faðirinn verður ansi dauf persóna, sérstaklega þegar fram í sækir, og systkinin nánast alveg fjarverandi.

Að því sögðu er það auðvitað sýningin sem við fáum sem við viljum fyrst og fremst tala um. Það eru kannski tveir þættir sem þar vega þyngst.

Annars vegar innsýnin í sinnuleysi og afleita frammistöðu samfélagsins við að gera sig aðgengilegt öllum, sem það í orði vill svo gjarnan vera. Hvernig það er þrepaskipt í bæði víðum og þröngum skilningi þess orðs. Sláandi er sagan um heimsókn Kolbrúnar í Alþingi í námi sínu, þar sem hún á á hættu að lækka í einkunnum ef hún lætur ekki bjóða sér að vera borin upp á þingpalla. Og hvernig aðgengismálum er snarlega kippt í liðinn þegar forseti Alþingis slasast og er bundinn við hjólastól í skamman tíma.

Hins vegar er það sú sterka tilfinning sem sýningin skilur eftir að áskoranir, hindranir og takmarkanir eru eitthvað sem við glímum öll við á leiðinni að markmiðum okkar. Þetta er nefnilega saga af algerlega venjulegri stelpu, sem eins og við öll er í sínum sérstöku aðstæðum, sem við þó getum alveg lifað okkur inn í.

Við getum svo auðveldlega samsamað okkur Kolbrúnu þar sem hún kemur að of bröttum stiga, lokuðum dyrum, og líka þegar hún finnur ástina og finnur hana kulna, þegar hún mátar sig við hlutverk og metur hvort þau séu raunhæf. Við höfum öll látið okkur dreyma ómögulega drauma, við höfum öll horft upp ókleifa stiga. Við vitum vel að því fleirum sem við getum greitt leiðina, því betra samfélag.

Ilmur Stefánsdóttir mótar sýninguna á mjög lipran og skýran hátt, í eigin vel heppnaðri umgjörð þar sem einlitur bakgrunnur, tröppur og rampar kallast á við litríkar blöðrur og skrautlega og skemmtilega búninga Filippíu I. Elísdóttur. Tónlist Sölku Valsdóttur er smekkleg og gaman að sjá leikaratríóið berja þrjá rafmagnsbassa í kostulegu tilbrigði við Þursalagið fræga um örvæntingarfullu leitina að ástinni á miðjum aldri. Að vera í stúku og safna þjóðbúningadúkkum er vissulega ekki samskonar hindrun og líkamleg fötlun sem bindur viðkomandi við hjólastól. En við skiljum þau bæði. Þökk sé listinni og mannlegu eðli.