Snilldartilþrif Gylfi Þór Sigurðsson skorar eitt af fallegri mörkum tímabilsins og jafnar metin fyrir Val gegn Stjörnunni á Hlíðarenda.
Snilldartilþrif Gylfi Þór Sigurðsson skorar eitt af fallegri mörkum tímabilsins og jafnar metin fyrir Val gegn Stjörnunni á Hlíðarenda. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðablik setti enn á ný pressu á Víking í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta með því að sigra Skagamenn, 2:0, á Kópavogsvelli, og Valsmenn björguðu mikilvægu stigi í Evrópubaráttunni eftir að hafa lent tveimur mörkum undir gegn Stjörnunni á Hlíðarenda

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Breiðablik setti enn á ný pressu á Víking í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta með því að sigra Skagamenn, 2:0, á Kópavogsvelli, og Valsmenn björguðu mikilvægu stigi í Evrópubaráttunni eftir að hafa lent tveimur mörkum undir gegn Stjörnunni á Hlíðarenda.

Blikar eru þremur stigum á undan Víkingum sem mæta FH-ingum í Fossvogi annað kvöld og geta þar með jafnað metin á nýjan leik.

Blikar þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum en komust yfir á sjálfsmarki eftir fyrirgjöf Davíðs Ingvarssonar. Síðan gulltryggði Ísak Snær Þorvaldsson sigurinn með glæsilegu skoti frá vítateig á lokamínútu uppbótartímans, eftir sendingu frá Höskuldi Gunnlaugssyni.

Með þessu hafa Blikar nú unnið sex leiki í röð í deildinni og eru ósigraðir í síðustu tíu leikjum. Þeir fara næst í Kaplakrika á sunnudaginn.

Fjögur slást um eitt sæti

Eftir sigur KA í bikarúrslitaleiknum gegn Víkingi á laugardaginn lá fyrir að fjórða sætið í deildinni myndi ekki gefa keppnisrétt í Sambandsdeildinni næsta sumar.

Þetta þrengdi verulega möguleika Stjörnunnar, ÍA og FH á að komast í Evrópukeppni og Valsmenn hófu lokasprettinn í gær með fjögurra stiga forskot í keppni fjögurra liða um þriðja sæti deildarinnar.

Stjörnumenn virtust þó á góðri leið með að galopna þessa baráttu því þeir voru með verðskuldaða forystu í hálfleik gegn Val, 2:0.

Hilmar Árni Halldórsson skoraði með góðu skoti frá vítateig og Adolf Daði Birgisson fylgdi á eftir og skoraði þegar skalli Emils Atlasonar var varinn.

Glæsilegt mark Gylfa

Valsmenn tóku hins vegar völdin í síðari hálfleik. Albin Skoglund skoraði sitt fyrsta mark fyrir Val eftir undirbúning Patricks Pedersens, og síðan skoraði Gylfi Þór Sigurðsson stórglæsilegt jöfnunarmark á 75. mínútu þegar hann lék utan af hægra kanti og inn á vítateigslínu þar sem hann skaut með vinstri fæti upp í samskeytin fjær, 2:2.

Tíunda mark Gylfa í deildinni fyrir Val og gríðarlega mikilvægt í slagnum um Evrópusætið.

Valsmenn þurftu á því að halda því þeir eiga í höggi við Víking í næstu umferð á meðan Stjarnan og ÍA mætast innbyrðis og sigurliðið þar getur væntanlega áfram gert sér ágætar vonir um að ná þriðja sætinu af Val.

Fyrstu umferð lokasprettsins lýkur á morgun þegar KA mætir HK í neðri hlutanum á Akureyri og Víkingar mæta FH á Víkingsvellinum.

Höf.: Víðir Sigurðsson