Utanlandsferðir Tilefni ferðanna var margbreytilegt og beiðnir um aðkomu borgarstjóra í alþjóðamálum margar.
Utanlandsferðir Tilefni ferðanna var margbreytilegt og beiðnir um aðkomu borgarstjóra í alþjóðamálum margar. — Morgunblaðið/Hari
Óskar Bergsson oskar@mbl.is

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri fór 26 sinnum til útlanda í embættiserindum á síðastliðnum tveimur árum. Áætlað er að ferðirnar hafi tekið samtals 90 daga og hefur Dagur því dvalið í tæpa þrjá mánuði í útlöndum af þeim 29 mánuðum sem liðnir eru af kjörtímabilinu.

Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Tíðni ferða borgarstjórans jókst verulega eftir myndun nýs meirihluta sumarið 2022, en á fyrra kjörtímabili fór hann 13 sinnum út og 26 sinnum á því rúma hálfa kjörtímabili sem liðið er.

Einni ferð var frestað en kostnaður bókaður og segir í svari borgarinnar að á þessu tímabili hafi verið heimsfaraldur og fundir og ráðstefnur fallið niður eða flust á netið af þeim sökum.

Einn orlofsdagur tekinn út

Í tengslum við þessar ferðir tók Dagur út einn föstudag í orlof í febrúar 2020. Þrisvar framlengdi hann eða hóf ferð með því að lengja dvöl um einn eða tvo daga sem féllu á helgarfrí. Í þeim tilvikum greiddi hann sjálfur þann hluta ferðarinnar.

Í svari við spurningu um tilefni ferðanna kemur fram að þau hafi verið margbreytileg og beiðnir um aðkomu borgarstjóra í alþjóðamálum séu margar og umfangsmiklar.

„Borgarstjóri forgangsraðaði alþjóðastarfi sínu í þágu málaflokka og verkefna þar sem Reykjavíkurborg hefur margt fram að færa og hagsmuna að gæta og lagði áherslu á að afla þekkingar, stuðnings og fjárhagslegra styrkja við verkefni sem nýtast borginni. Alþjóðastarf hefur skilað borginni um fimm hundruð milljónum íslenskra króna í beinum fjárhagslegum styrkjum sem leitt hafa af þessu alþjóðastarfi á undanförnum árum. Stórir styrkir hafa til að mynda fengist í gegnum samstarf við Bloomberg-stofnunina og vegna aðildar Reykjavíkurborgar að verkefni Evrópusambandsins um kolefnishlutlausar borgir,“ segir í svari borgarinnar.

Leiddi eitt helsta samstarfsnet borgarstjóra heimsins

„Fyrrverandi borgarstjóri leiddi eitt af helstu samstarfsnetum borgarstjóra heimsins með formennsku í samstarfsverkefni OECD, Champion Mayors for Inclusive Growth, og meðal annarra áherslusviða í alþjóðlegu starfi hafa verið forvarnarstarf og lýðheilsa, húsnæðismál og borgarþróun. Þá hafi innrás Rússa í Úkraínu og viðbrögð við henni sett svip á alþjóðastarf borgarstjóra, með heimsókn til Lviv og höfuðborga Eystrasaltsríkjanna auk þess sem nefna má að Reykjavík tókst að ná samningum um að halda Evrópsku kvikmyndaverðlaunin sem fóru fram í Reykjavík og kallaði það á mikla samvinnu,“ segir jafnframt í svari Reykjavíkurborgar.

Jólatrésgjöf til Færeyja hluti af rökstuðningi

Í svarinu er einnig tekið fram að dregið hafi úr staðfundum vegna rótgróins samstarfs við höfuðborgir á Norðurlöndum, í Grænlandi og Færeyjum en aukning á fjarfundum á vettvangi norrænna borga varð í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

„Þetta samstarf er áfram áhersluatriði og árlega færir Reykjavík til að mynda Þórshöfn jólatré til að undirstrika góð tengsl.“

Í svari borgarinnar er tekið fram að upplýsingar um ferðir borgarstjóra séu opinber gögn. „Upplýsingar um hverja og eina ferð eru lagðar fyrir borgarráð áður en ferðin er farin og má nálgast í fundargerðum borgarráðs.“

Kostnaður rúmlega 11 milljónir

Gjaldfærður kostnaður vegna 26 ferða á tímabilinu júní 2022 til dagsins í dag er 5.661.248 kr. Gjaldfærður kostnaður vegna 13 ferða á tímabilinu júní 2018 til maí 2022 er 3.054.830 kr. Dagpeningar vegna 26 ferða frá júní 2022 til dagsins í dag eru 1.640.536 kr. Dagpeningar vegna 13 ferða frá júní 2018 til maí 2022 voru 1.009.559 kr. Samtals er þessi ferðakostnaður 11.366.173 krónur.

Þegar teknar eru saman ferðirnar fyrir bæði kjörtímabilin heimsótti borgarstjórinn 25 lönd í 39 ferðum. Þau eru Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Færeyjar, Eistland, Lettland, Litáen, Frakkland, Spánn, Sviss, Þýskaland, Holland, Ítalía, Belgía, Slóvenía, Úkraína, Pólland, Írland, Bretland, Grikkland, Japan, Sameinuðu arabísku furstadæmin. Bandaríkin og Mexíkó.

Í svarinu kemur fram að erfitt hafi verið að finna út nákvæman dagafjölda, en gróft talið eru þetta 90 dagar frá 2022 til dagsins í dag og 55 dagar 2018-2022. Samantektin miðar við brottfarardaga og komudaga og er þá ekki tekið tillit til hvort dagar hafi verið skertir. Tekið er fram í svari borgarinnar um samanburð á ferðum milli kjörtímabila „að hafa beri í huga“ að heimsfaraldur covid-19 hafi verið á fyrra kjörtímabilinu.

Forgangsröðun borgarstjórans í alþjóðasamstarfi

Rökstuðningur fyrir ferðunum

•Fyrrverandi borgarstjóri leiddi eitt af helstu samstarfsnetum borgarstjóra heimsins með formennsku í samstarfsverkefni OECD, Champion Mayors for Inclusive Growth.

•Innrás Rússa í Úkraínu og viðbrögð við henni settu svip á alþjóðastarf borgarstjóra, með heimsókn til Lvív og höfuðborga Eystrasaltsríkjanna.

•Reykjavík tókst að ná samningum um að halda Evrópsku kvikmyndaverðlaunin sem fóru fram í Reykjavík sem kallaði á mikla samvinnu.

•Alþjóðastarf hefur skilað borginni um fimm hundruð milljónum íslenskra króna í beinum fjárhagslegum styrkjum sem leitt hafa af þessu alþjóðastarfi á undanförnum árum.

•Stórir styrkir hafa til að mynda fengist í gegnum samstarf við Bloomberg-stofnunina og vegna aðildar Reykjavíkurborgar að verkefni Evrópusambandsins um kolefnishlutlausar borgir.

•Áhersla í alþjóðlegu starfi hefur verið á forvarnarstarf, lýðheilsu, húsnæðismál og borgarþróun.

•„Þetta samstarf er áfram áhersluatriði og árlega færir Reykjavík til að mynda Þórshöfn jólatré til að undirstrika góð tengsl.“

Höf.: Óskar Bergsson