Guðrún S. Sæmundsen
Javier Bardem er bókstaflega sturlaður í hlutverki fjölskylduföðurins Joses Menendez í þáttaröðinni Monsters: The Lyle and Erik Menendez Story, á Netflix. Siðblindingi sem hefur lagt ofbeldishegðun gagnvart fjölskyldunni í vana, sér ekkert rangt við það og jaðrar við að hann hafi unun af því. Eða hvað?
Þættirnir eru eftir sömu framleiðendur og gerðu þættina Dahmer, sem ljósvaki hafði nú aldrei kjark í að klára en voru sagðir mjög góðir af þeim allra hugrökkustu.
Þættirnir um Menendez-fjölskylduna eru byggðir á raunverulegum atburðum sem skóku Bandaríkin í kringum 1990. Það er allt flott við Monsters; tónlistin, senurnar, leikurinn og klæðnaðurinn, þrátt fyrir að undirtónn myndarinnar sé afar þungur. Söguþræðinum vindur vel fram og aðdraganda þess að Menendez-bræðurnir, Lyle og Erik, skutu foreldra sína gerð góð skil. Fjölskylduharmleikurinn og ofbeldið er afhjúpað, svo að svíður, eða er það blekking? Það er á sama tíma sorglegt og áhugavert að sjá hvernig ofbeldi færist milli kynslóða. Hvenær verður vendipunkturinn? Verður hann kannski þegar ein kynslóðin tekur völdin í sínar hendur og stútar þeim sem beitt hafa ofbeldinu?