Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um þinglega meðferð EES-mála, nánar tiltekið um svokallaða gullhúðun. Málið var einnig lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu þá. Vonandi rætist
úr að þessu sinni því að full ástæða er til að þingið taki á því ófremdarástandi sem ríkt hefur í innleiðingu EES-gerða, þar sem þingið hefur verið lítið annað en stimpilpúði fyrir EES-gerðir sem að auki hafa iðulega verið gullhúðaðar í meðförum ráðuneytis. Gullhúðun felur sem kunnugt er í sér að við regluverkið frá Brussel, sem er nógu íþyngjandi fyrir, er bætt séríslenskum reglum sem eru enn þungbærari og gera þannig til dæmis samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja lakari en ella.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að í reglum um þinglega meðferð EES-mála, sem forsætisnefnd þingsins hafi sett, komi fram að innleiðingarfrumvörp skuli að meginstefnu aðeins fela í sér breytingar sem nauðsynlegar séu vegna EES-skuldbindinga. Varði frumvarpið önnur atriði skuli greina frá því sérstaklega.
Þrátt fyrir þetta telja flutningsmenn víða pott brotinn í þessum efnum, og eru ekki einir um það. Þeir segja íslensk stjórnvöld „hafa ríka tilhneigingu til að herða á íþyngjandi EES-gerðum við innleiðingu þeirra, auk þess sem upplýsingagjöf til þingsins varðandi þetta er oft ábótavant.“
Þetta er auðvitað verulega ámælisvert og rétt sem flutningsmenn benda á að með þessu sé þinginu ekki sýnd tilhlýðileg virðing. En ef aðrir bregðast þá er það þingmanna að gæta að virðingu Alþingis og um leið að hagsmunum almennings og fyrirtækja hér á landi.