Bráðnar hann? Skaflinn sem eftir stendur í hlíðum Esjunnar.
Bráðnar hann? Skaflinn sem eftir stendur í hlíðum Esjunnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Enn er snjór í hlíðum Esjunnar og óvíst hvort hann bráðni í sumar.

Þegar blaðamaður kannaði aðstæður í Gunnlaugsskarði seinnipartinn síðasta sunnudag var ekki að finna neinn snjó í skarðinu. Því má staðfesta það sem áður var haldið fram að snjórinn í skarðinu hefði bráðnað í sumar.

Áhugamenn um veðurfar hafa í gegnum tíðina fylgst með skaflinum í Gunnlaugsskarði en afkoma hans þykir gefa góðar vísbendingar um tíðarfar hvers tíma. Var Páll Bergþórsson veðurfræðingur manna fróðastur um efnið.

Ganga þarf upp í skarðið

Ganga þarf upp í Gunnlaugsskarð til að staðfesta að allur snjór sé bráðnaður. Nánar tiltekið að ísinn sem eftir stendur af snjóskaflinum sé bráðnaður en ekki er sjálfgefið að hann sjáist úr fjarlægð.

Snjóskaflinn sem enn lifir í hlíðum Esjunnar er vestan megin í gili fyrir neðan Gunnlaugsskarð. Skaflinn er á að giska á stærð við fólksbíl en myndir af honum má sjá hér til hliðar og hér fyrir neðan.

Misjafnt milli ára

Misjafnt er milli ára hversu hratt snjórinn bráðnar í giljunum fyrir neðan Gunnlaugsskarð. Sum sumur hefur hann bráðnað nokkuð hratt en þetta sumarið hefur hann staðið af sér töluverða úrkomu.

Þokkalegt gönguveður var á Esjunni í fyrradag. Sólríkt og hlýtt en nokkur vindur.

Eftir veturinn er jafnan samfelldur snjóskafl frá Gunnlaugsskarði og þaðan til vesturs og í giljunum fyrir neðan. Með hækkandi sól byrjar samfellan að rofna og smám saman standa eftir nokkrir skaflar. Haustið 2011 sagði Morgunblaðið frá því að skaflinn myndi hafa það af það árið. Þótti það fréttnæmt enda hefði hann horfið á hverju ári frá 2001.