Ólafur Sigurðsson húsgagnasmiður og kennari fæddist 7. ágúst 1936 í Keflavík. Hann lést á heimili sínu í Keflavík 8. september 2024.

Foreldrar Ólafs voru Sigurður Breiðfjörð Ólafsson skipstjóri, f. 8. mars 1911, d. 15. des. 1998, og Jónína Helga Einarsdóttir húsmóðir, f. 23. jan. 1909, d. 27. jan. 2004.

Eftirlifandi eiginkona er Steinunn Erlingsdóttir, f. 28. des. 1941. Börn Ólafs og Steinunnar eru: 1) Ester, f. 1. des. 1962, maki Elías Theodórsson, f. 15. mars 1961. Börn þeirra Elísa, f. 1. mars 1993, maki Kristján Ari Sigurðsson, f. 25. des 1990. Barn þeirra er Ester Lilja, f. 14. okt. 2022. Esra, f. 19. feb. 1995, maki Alisa Elíasson, f. 8. ágúst 1995, barn Elías Samúel, f. 16. júní 2023. 2) Guðrún, f. 6. des. 1963. Barn Agnes Grétarsdóttir, f. 18. jan. 1995, maki Seth Sutherland, f. 4. okt. 1992. Börn þeirra eru Stella Nótt, f. 30. jan. 2022, og Amelía Rós, f. 18. maí 2024. 3) Davíð, f. 30. jan. 1969, maki Hrönn Helgadóttir, f. 27. mars 1970. Börn: Steinunn, f. 4. nóv. 2009, Davíð Erling, f. 4. nóv. 2009, Stefanía, f. 30. sept. 2013.

Ólafur fæddist í Keflavík. Hann var sem barn í sveit á bænum Útey við Laugarvatn. 15 ára gamall hóf hann nám í húsgagnasmíði og lauk í þeirri iðn meistaraprófi. Hann byrjaði aðeins 16 ára gamall ásamt bróður sínum að byggja húsið sem var hans heimili lengstan hluta ævinnar við Skólaveg í Keflavík. Hann vann ýmis smíðastörf og var yfirverkstjóri í glugga- og hurðasmiðjunni Ramma í mörg ár. Hann lauk kennaraprófi og kenndi smíðar við Myllubakkaskóla í Keflavík. Ólafur var með húsgagnaviðgerðir og skiltagerði í bílskúrnum við Skólaveg. Hann var félagi í mörgum kórum og var virkur meðlimur í kirkju aðventista á Íslandi.

Útförin verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag, 24. september 2024, klukkan 13.

Jarðvist á enda,

lífsgöngu lokið,

ljósið þitt slokknað,

fölnuð brá.

Virðing og þökk,

vegferðin öll

vel í huga geymd.

Hljóðnuð er röddin,

hæglátur blærinn,

helguð þín brottför

Drottins náð.

Virðing og þökk

vegferðin öll

vel í huga geymd.

Syrgjendur kveðja,

söknuðinn finna,

sárasta harminn,

tregans tár.

Virðing og þökk

vegferðin öll

vel í huga geymd.

(Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Þín eiginkona,

Steinunn.

Faðir okkar, Ólafur Sigurðsson húsgagnasmiður, lést á heimili sínu 8. september síðastliðinn. Þegar við minnumst hans er okkur efst í huga þakklæti. Hann var mildur faðir og tók mikinn þátt í lífi okkar. Hann kenndi okkur að þykja vænt um landið okkar. Ótal ferðalög um landið, útilegur og fjöruferðir og ekki má gleyma bryggjuferðunum að skoða bátana.

Pabbi sótti sjóinn um tíma á trillu sem hann átti með bróður sínum, einnig starfaði hann í glugga- og hurðaverksmiðjunni Ramma og síðar var hann smíðakennari í Myllubakkaskóla. Hann var einstaklega handlaginn og mikill verkfræðingur frá náttúrunnar hendi. Hann hugsaði í lausnum og gat gert allt. Hann kenndi okkur að meðhöndla verkfæri. Meðan hann gerði við húsgögn í bílskúrnum í aukaverkum fengum við að dunda okkur við að smíða hluti, renna kertastjaka og margt fleira. Eftir að hann fór á eftirlaun stofnaði hann skiltagerð í bílskúrnum.

Hann sinnti okkur ákaflega vel. Hann hugsaði líka vel um mömmu. Hann byrjaði að byggja hús aðeins 16 ára gamall sem varð okkar heimili. Allt fram á síðustu stundu var hann að sinna heimilinu, dytta að og það síðasta var að það þyrfti að mála þvottahúsið, sem hefur nú verið gert eftir að hann lést. Þrátt fyrir heilsubrest síðari ára fór hann á hverjum morgni út í bílskúr að vinna og vann fram á síðasta dag.

Pabbi var mjög örlátur maður og hjálpsamur maður. Hann taldi ekki eftir sér að hjálpa okkur systkinunum við að koma okkar heimilum í stand og hjálpaði mörgum öðrum.

Hann hafði gaman af söng og söng bæði í kór Útskála- og Hvalsneskirkju í mörg ár og einnig í Karlakór Keflavíkur.

Pabbi var trúrækinn og ólumst við upp á kristnu heimili. Alltaf voru hafðar borðbænir og kvöldbænir og farið í kirkju. Þegar eitthvert okkar var að fara til útlanda eða erlendis í nám vorum við kvödd með ferðabæn. Þetta er það veganesti sem við fengum út í lífið.

Við trúum því að dauðinn sé aðeins svefn og að Guð muni reisa hann upp á efsta degi
(1. Þess. 4.13-18). Guð blessi minninguna um föður okkar, Ólaf Sigurðsson.

Ester og Guðrún.

Elsku afi okkar er sofnaður eftir langt og gjöfult líf. Afi Óli var sterkur og traustur maður. Líkamlega var hann sterkbyggður, hann gerði styrktaræfingar fram á síðasta dag og handabandið var þétt og innilegt. Hann sýndi líka andlegan styrk. Hann lét ekki stjórnast af straumum og stefnum heldur fylgdi sinni sannfæringu og trú.

Afi var einstaklega iðinn, vandvirkur og handlaginn húsgagnasmiður en hann var líka kennari af Guðs náð. Hann sýndi barnabörnunum mikla þolinmæði, kenndi okkur á smíðaverkfærin og gaf okkur verkefni í bílskúrnum sem við dunduðum okkur við á meðan hann vann. Það var gott að vera í kringum afa. Hann sýndi okkur áhuga, gaf sér tíma, hringdi reglulega, var alltaf glaður að sjá fjölskyldumeðlimi og hvatti okkur áfram í lífi og leik.

Afi hvatti okkur áfram í námi. Tónlistarnámi barna og barnabarna sýndi hann sérstakan áhuga. Sjálfur söng hann í kór í áratugi og hefði viljað læra að spila á hljóðfæri ef tækifærin hefðu gefist.

Afi eignaðist fjögur barnabarnabörn á síðustu þremur árum, þau eru börnin okkar. Þessir nýju afkomendur veittu honum bersýnilega mikla gleði.

Afa Óla verður sárt saknað og það er enginn sem kemur í hans stað. Hann sofnaði í þeirri fullvissu um að frelsari hans og vinur, Jesú Kristur, kemur bráðum aftur. Þá munu hinir dauðu upp rísa og dauðinn verður ekki framar til.

Elísa Elíasdóttir,
Esra Elíasson og
Agnes Grétarsdóttir.

Ólafur var Keflvíkingur með rætur á Suðurnesjum og við Breiðafjörð. Það var gæfuspor er Steinunn frænka mín og Óli hófu samstiga lífsdans. Frá því var hann Óli Steinunnar hjá okkur. Verðmætt er að fara gegnum lífið með það eitt að leiðarljósi að láta gott af sér leiða. Óli fór gegnum sitt lífsferli með þá sýn að byggja upp, búa í haginn fyrir þá sem voru honum samferða og tókst það.

Heimili þeirra var alla tíð opinn miðpunktur stórfjölskyldunnar. Hlýja og gleði í viðmóti, góðgerðir á borðum. Tillitssöm, trú á hið góða ræktuð, jákvæð þátttaka og fagurt viðmót. Óli var brosmildur og gamansamur. Hann var sístarfandi, mikilvirkur smiður, spurður ráða og veitti. Óli og Steinunn bjuggu sér, börnum sínum og afkomendum fagurt heimili. Löng og farsæl ævi er nú að baki. Þótt heilsan gæfi eftir er á leið, þá starfaði Óli við hugverk og handverk sín til síðasta dags.

Góður maður er fallinn frá, megi minning hans vera okkur leiðarljós.

Hörður Gíslason.

Við Óli Sig kynntumst þegar ég var unglingur. Hann varð snemma leiðandi í safnaðarlífi okkar auk þess að hafa átt stóran þátt ásamt nokkrum öðrum í að reisa safnaðarheimilið að Blikabraut 2 í Keflavík. Að ekki sé minnst á alla vinnu hans í áratugi við umsjón og viðhald á húsinu. Þjónustulund hans var mikil og til blessunar enda var Óli fyrirmyndarverkmaður, vandvirkur, útsjónarsamur og greiðvikinn.

Snemma fór Óli að sjá lífið og tilveruna í víðu samhengi, var hugsandi, las mikið og gerði trúna að leiðarljósi lífs síns.

Síðustu ár Óla voru mörkuð heilsuvandamálum en sem fyrr lét hann ekki deigan síga, gerði langt fram yfir það sem gat talist eðlilegt, sinnti vinnunni í bílskúrnum þó hann gæti það varla, gerði svo daglega æfingar í heimasmíðuðu tækjunum við húsið!

Og nú er Óli Sig allur. Honum séu þakkir fyrir allt það góða sem frá honum kom. Guð blessi og huggi Steinunni og aðra ástvini hans.

Einar Valgeir.