Gunnar Hrafn Birgisson
Gunnar Hrafn Birgisson
Nú er engu líkara en að beðið sé eftir því að vandamál barna á biðlistum verði þyngri í vöfum. Það gengur ekki. Við getum gert betur.

Gunnar Hrafn Birgisson

Á Íslandi tíðkast að setja börn á biðlista sem eiga í vanda vegna þroska, hegðunar eða vanlíðunar. Þeir listar geta seinkað nauðsynlegri hjálp jafnvel árum saman þannig að vandinn hjá börnum og fjölskyldum fari með tímanum versnandi. Umboðsmaður barna og fleiri hafa ötullega gagnrýnt ástandið með biðlistana og lagt til úrræði (sjá heimildir 1-4), en fengið fá svör og lítið gerist. Þetta er auðvitað óásættanlegt, sérstaklega þegar afleiðingar eru alvarlegar og skjót inngrip gætu í mörgum tilfellum leyst úr málum. Greiðar úrlausnir svona mála hafa mikilvæg jákvæð áhrif á líf fólks og geta hamlað gegn því að síðar komi fram stærri vandi, t.d. sjálfsskaði, ofbeldi eða fíknir.

Biðlistar eru ekki hlutlaust ástand heldur hafa þeir streituáhrif. Foreldra óar við þeim. Bið upp á von og óvon er erfið. Við slíka óvissu dvína vonir. Sumir grípa til misgóðra ráða. Aðrir eru að gefast upp. Það er samfélagsins að koma til móts við erfiðleika þessara fjölskyldna. Biðlistar eru manngerðir og breytanlegir. Þeir reddast ekki af sjálfu sér. Það dugir skammt að ræða þá bara og skoða. Átaks er þörf og breytinga á vinnubrögðum. Auglýst er eftir metnaði og framtaki stjórnvalda í þessu efni.

Á meðal þess sem tefur úrvinnslu mála þessara barna eru stífar kröfur um að veita þeim ekki hjálp fyrr en komin sé formleg, „full“ eða „rétt“ greining. Þetta er grundvallarvilla sem tengist notkun greiningarkerfa (þ.e. DSM-5 og ICD-11) á geðröskunum. Út frá þeim kerfum er beinlínis talið hvort einkenni barna séu nógu mörg til að flokkast sem heilkenni, röskun eða sjúkdómur. Þessi ónákvæmu greiningarkerfi hafa frá byrjun verið umdeild. Þrátt fyrir löng og víðtæk áhrif þeirra í gegnum tíðina vex stöðugt samstaða sérfræðinga um að þau þjóni ekki hlutverki sínu og gagnist lítið hvort sem er við rannsóknir eða klíníska meðferð (sjá heimild 5).

Hundruð barna bíða nú eftir formlegum greiningum án þess að fá viðeigandi hjálp. Það ríkir engin kyrrstaða hjá þeim á meðan. Þau halda áfram að þroskast, breytast og athafna sig. Vandamál þeirra taka líka breytingum og geta hæglega versnað ef ekkert er að gert. Varasamt er að líta fram hjá því og tímabært að taka upp skjótvirkari vinnubrögð.

Undanfarin ár hefur fylgi aukist verulega við svonefnda transdiagnostic nálgun sem gæti kallast ferlisgreining (sí- eða framvindugreining) á íslensku (sjá heimild 5). Ferlisgreining er sveigjanleg og í samræmi við þroska, hegðun og líðan sérhvers barns. Þær greiningar ganga þvert á stífar formlegar greiningar eða hreinlega setja þær alveg til hliðar. Þær gefa kvika innsýn í stöðu barna á hverjum tíma og dýpka skilning við meðferð á vanda þeirra. Ferlisgreiningar eru fínlegar og liprar miðað við hinar hefðbundnu, stirðu og þunglamalegu. Þar fer greining og meðferð saman líkt og tvær hliðar á sama peningi. Mál fá vinnslu án tafar og mörg klárast fljótt. Erfiðustu málin skiljast frá og fara í ýtarlegri athugun og úrvinnslu.

Þegar börn sýna einkenni um vanda, svo sem ofvirkni eða einhverfu, er óþarft að setja þau á bið eftir formlegri, „fullri“ eða „réttri“ greiningu áður en hjálp fæst. Það er vel hægt að byrja að veita sálfræðimeðferð, fjölskyldumeðferð og félagslega aðstoð við sumu strax, þó að beðið sé með ákvarðanir um möguleg önnur inngrip, til dæmis lyfjagjöf eða vistanir.

Nú er engu líkara en að beðið sé eftir því að vandamál barna á biðlistum verði þyngri í vöfum. Það gengur ekki. Við getum gert betur. Snemmtæk íhlutun stuðlar að velferð barna og fjölskyldna. Einnig að minni líkum á því að vandi þeirra fari versnandi. Slík vinna sparar líka fjármuni. Tjón af aðgerðaleysi eða trassaskap er allt of mikið. Það bitnar sárt á börnum og fjölskyldum en líka á samfélaginu í heild. Börn geta nýtt sér fljótt og vel gagnreynda þekkingu og hjálplegar aðferðir sem þau læra. Það þarf enga bið á því.

Heimildir:

1. https://www.barn.is/umbodsmadur-barna/utgefid-efni/skyrslur/nr/2339

2. https://sjonarholl.is/born-a-bidlistum/

3. https://www.throskahjalp.is/is/samtokin/frettir/born-a-bidlistum

4. https://www.visir.is/g/20242615796d/af-hverju-bidur-barnid-

5. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC7027356/

Höfundur er sérfræðingur í

klínískri sálfræði.

Höf.: Gunnar Hrafn Birgisson