Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði knattspyrnuliðs Stjörnunnar, hefur framlengt samning sinn við félagið til tveggja ára. Guðmundur, sem er 35 ára, er að ljúka öðru tímabili sínu með Stjörnunni en hann hefur leikið 224 leiki í efstu deild og alls 378 …

Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði knattspyrnuliðs Stjörnunnar, hefur framlengt samning sinn við félagið til tveggja ára. Guðmundur, sem er 35 ára, er að ljúka öðru tímabili sínu með Stjörnunni en hann hefur leikið 224 leiki í efstu deild og alls 378 deildaleiki á ferlinum, heima og erlendis.

Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði knattspyrnuliðs FH, hefur framlengt samning sinn við félagið til eins árs. Björn, sem er 34 ára, er fjórði leikjahæstur í sögu FH í efstu deild með 233 leiki og hefur leikið 338 deildaleiki á ferlinum, heima og erlendis.

Þriðji fyrirliðinn í Bestu deild karla 2025 framlengdi samning sinn í gær en Alex Freyr Hilmarsson hjá ÍBV, sem hefur tryggt sér sæti í deildinni fyrir næsta tímabil, hefur samið við Eyjamenn til næstu þriggja ára. Alex, sem er 31 árs, hefur leikið 153 leiki í efstu deild og 275 deildaleiki á ferlinum.

Stjarnan hefur fengið til sín Shaquille Rombley, 27 ára hollenskan körfuboltamann sem varð austurrískur meistari með Gunners Oberwart síðasta vetur en hann er 2,03 metra hár miðherji. Jase Febres, 25 ára bandarískur bakvörður, er einnig kominn í Stjörnuna frá Santeros de Aguada í Púertó Ríkó. Þá er hinn efnilegi Viktor Jónas Lúðvíksson kominn aftur til Stjörnunnar eftir eins árs dvöl hjá Münster í Þýskalandi.

Knattspyrnumaðurinn Viðar Ari Jónsson meiddist illa í leik með HamKam í norsku úrvalsdeildinni um helgina. Viðar fékk þungt höfuðhögg, er með fjórbrotinn kjálka og missti tönn, og leikur væntanlega ekki meira á tímabilinu.

Brynjólfur Willumsson er kominn í tveggja leikja bann í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að hafa fengið rautt spjald í leik með Groningen um helgina. Þriðji leikurinn er skilorðsbundinn og Brynjólfur fær því þyngri refsingu ef hann verður aftur rekinn af velli í vetur.

Hætta er á að þýski knattspyrnumarkvörðurinn Marc-Andre ter Stegen spili ekki meira með Barcelona á þessu tímabili. Ter Stegen var borinn af velli, í leik liðsins gegn Villarreal á sunnudaginn og líkur eru á að um alvarleg hnjámeiðsli sé að ræða.

Nora Mörk frá Noregi, ein besta handknattleikskona heims, er komin í frí frá félagi sínu, Esbjerg í Danmörku, vegna meiðsla og álags. Óvíst er hvort hún geti leikið með Norðmönnum á EM í nóvember og desember, þegar Þórir Hergeirsson stýrir norska liðinu í síðasta sinn.