Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Ekkert hefur frést af sjónvarpsverðlaunum Eddunnar sem boðað var að veitt yrðu nú á haustmánuðum. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins gætir nokkurrar óþreyju meðal sjónvarpsfólks sem vill fá sína uppgjörshátíð eins og kollegar þeirra í kvikmyndabransanum.
Í lok árs 2023 sendi stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar frá sér tilkynningu þar sem fram kom að breytingar yrðu gerðar á Eddunni í ár. Stærstu breytingarnar voru að kvikmyndaverðlaun og sjónvarpsverðlaun yrðu frá og með 2024 afhent hvor í sínu lagi.
Boðað var að fyrirkomulag sjónvarpsverðlauna yrði „kynnt innan tíðar“ en síðar hefur ekkert af þeim frést. Kvikmyndaverðlaunin voru aftur á móti afhent með hefðbundnum hætti í apríl síðastliðnum.
Stöðvarnar í skipulagningu
Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, segir að von sé á tíðindum af fyrirkomulagi sjónvarpsverðlaunanna innan skamms. „Sjónvarpsstöðvarnar ákváðu að vinna sjálfar að sjónvarpsverðlaununum og bíðum við eftir staðfestingu frá þeim varðandi hvenær og hvernig þær ætla að standa að þeim,“ segir hún.