Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Loksins fáum við spennu í efri hluta Bestu deildar karla í fótbolta eftir skiptingu. Víkingur og Breiðablik tóku bæði með sér 49 stig eftir 22 umferðir og vonandi ráðast úrslitin í lokaumferðinni. Þau eiga eftir að mæta bestu liðum deildarinnar á næstu vikum.
Breiðablik vann deildina með tíu stiga mun árið 2022 og Víkingur gerði gott betur og vann hana með ellefu stigum á síðasta ári. Fyrir vikið urðu lokaumferðirnar í efri hlutanum frekar bragðdaufar, þrátt fyrir Evrópubaráttu allt til loka.
Gagnrýnendur kenndu skiptingunni og lengra tímabili um skort á spennu og að lokaumferðirnar væru tilgangslausar. Það er af og frá.
Lið gátu líka unnið Íslandsmótið sannfærandi þegar einungis var leikin tvöföld umferð. KR vann t.a.m. með 14 stiga mun árið 2019, þrátt fyrir að leika „aðeins“ 22 leiki.
Mikil spenna hefur verið í neðri hlutanum í Bestu deild karla eftir að fyrirkomulaginu var breytt. Árið 2022 féll ÍA t.d. með 25 stig og FH hélt sér uppi með sama stigafjölda. Í fyrra gat ÍBV bjargað sér með sigri á Keflavík í lokaumferðinni, en jafntefli nægði ekki til.
Kvennamegin er mikil spenna á toppnum þegar tvær umferðir eru eftir. Breiðablik og Valur gætu spilað hreinan úrslitaleik í lokaumferðinni. Það þarf hins vegar að skoða skiptinguna því liðin í neðri hlutanum fá aðeins þrjá leiki til að bjarga sér frá falli. Það er ekki nóg. Ein lausn væri að fjölga liðum úr tíu í tólf, eins og karlamegin.
Umspilið í 1. deild karla hefur svo reynst góð viðbót við tímabilið og er deildin skemmtilegri fyrir vikið. Nú þurfum við umspil í deildirnar fyrir neðan, sem og í 1. og 2. deild kvenna.