Hilmar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 28. ágúst 1947. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 12. september 2024.

Foreldrar Hilmars voru Sigurður Ágústsson, verkamaður í Reykjavík, f. 23.6. 1925, d. 16.11. 1994, og Ragnhildur Jósafatsdóttir, f. 1.7. 1909, d. 29.5. 1973. Systkini Hilmars eru: 1) Sigríður MacClintock, f. 27.5. 1929, d. 30.6. 2005, maki: Jack MacClintock, f. 26.9. 1924, d. 16.2. 2011, börn: Tom og Susan. 2) Esther 25. 12. 1948, d. 24.4. 2020, börn: Arnar og Helena.

Hilmar giftist Hallgunni Skaptason, f. 13.9. 1948. Börn þeirra eru: 1) Sigurður Hilmarsson, f. 9.7. 1970, eiginkona hans er Tinna Björk Hjartardóttir, f. 24.11. 1980, og eiga þau Óliver Darra, f. 2012. Sigurður á þrjú börn úr fyrra hjónabandi, Móniku Sól, f. 1996, Veróniku Sif, f. 1998, og Kassöndru Líf, f. 1991. 2) Eva Úlla Hilmarsdóttir, f. 15.7. 1974, eiginmaður hennar er Jón Erlendsson, f. 29.7. 1973. Börn þeirra eru Ísak, f. 1999, Kristófer, f. 2003, Viktor, f. 2004, Karen, f. 2011. 3) Ragnar Hilmarsson, f. 6. 9. 1976, sambýliskona hans er Guðrún Bjarnadóttir, f. 2.10. 1976. Börn Ragnars úr fyrra hjónabandi eru Alex Viktor, f. 1994, og Birta Steinunn, f. 1999. 4) Linda Björk Hilmarsdóttir, f. 11.9. 1985, eiginmaður hennar er Baldur Már Jónsson, f. 28.5. 1984. Börn þeirra eru Birkir Már, f. 2008, Arnór Máni, f. 2011, og Emil Orri, f. 2017. Seinni eiginkona Hilmars er Kristín Guðmundsdóttir, f. 19.12. 1957, d. 2.8. 2018. Börn þeirra eru: 1) Heiðar Már, f. 26.2. 1991, sambýliskona hans er Rannveig Lind Bjargardóttir, f. 15.2. 1994. 2) Heimir Daði, f. 25.5. 1994, eiginkona hans er Sara Stefánsdóttir, f. 22.11. 1994. Börn þeirra eru Aron Daði, f. 2012, Emilía Diljá, f. 2017, og Stefán Dagur, f. 2022.

Hilmar lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands. Hilmar starfaði að námi loknu hjá Viðlagasjóði og Útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Þá starfaði Hilmar sem fjármálastjóri hjá Freyju sælgætisgerð og Arnarflugi. Hann var aðstoðarbankastjóri hjá Alþýðubankanum, fjármálastjóri hjá Sjóvá-Almennum og gegndi síðast starfi aðalbókara hjá Garðabæ. Hilmar spilaði handbolta með Val á yngri árum og hafði gaman af alls kyns íþróttum sem hann fylgist grannt með auk þess sem hann var í kór í mörg ár.

Útför Hilmars fer fram í dag, 24. september 2024, frá Garðakirkju klukkan 13.

Það er svo margs að minnast, elsku pabbi, og á þessari stundu geymi ég góðu stundirnar okkar sem ég er svo þakklát fyrir að hafa átt.

Takk fyrir allar sundferðirnar í gegnum tíðina. Manstu hvað þú varst svekktur þegar starfsmaðurinn ætlaði að senda mig með þér í karlaklefann af því að ég var stuttklippt? „Sjáið þið ekki hvað hún er falleg stelpa?“ sagðir þú við starfsfólkið.

Takk fyrir allar skíðaferðirnar. Manstu, við sungum oft á leiðinni upp í stólnum og fengum okkur Ópal eða Tópas, þurftum líka alltaf að stoppa einu sinni á leiðinni niður, bara til að taka stöðuna á okkur og njóta þess.

Takk fyrir stuðninginn í fimleikunum. Manstu þegar ég var veik á einu Íslandsmótinu og þú ákvaðst að vera með mér í salnum með heitt kakó á brúsa?

Takk fyrir að koma til baka fyrir tveimur árum og vera á hliðarlínunni í lífi okkar. Þú fylgdist svo vel með og varst inni í öllu því sem barnabörnin voru að fást við og varst svo stoltur af þeim.

Takk fyrir alla bíltúrana og „snattið“ undanfarið, þar sem þú vildir alltaf að við enduðum á ferð í bakaríið og fengjum okkur birkirúnstykki og sérbakað vínabrauð.

Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Þín dóttir

Eva Úlla.

Í dag kveð ég pabba minn og mig langar að minnast hans með nokkrum orðum, sérstaklega síðustu tveggja ára okkar saman. Þessi ár hafa veitt mér tækifæri til að rifja upp æsku mína og læra að meta hana upp á nýtt. Þú varst alltaf duglegur að hvetja mig þegar ég var barn og ég ákvað að æfa á skíðum, sem varð okkar íþrótt og á ég margar góðar minningar í kringum það. Ferðir í Kerlingarfjöll, endalausar ferðir í Bláfjöll og í minningunni þá vorum við þar allar helgar. Þú lagðir mikið upp úr því að hafa gott nesti og eftir að Kristín kom í þitt líf þá seldi ég stundum nestið mitt fyrir súkkulaðistykki frá félögum mínum sem öfunduðu mig af túnfisksamlokunum. Ég var kannski ekki auðveldasta barnið en ég trúi því að þú hafir innst inni notið allra þeirra uppátækja og della sem ég fékk sem barn og við höfum haft tækifæri undanfarin tvö ár til að rifja þær upp. En lífið með þér var því miður ekki alltaf dans á rósum og veikindi þín og baráttan við alkahólisma tók stóran toll af lífi þínu. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að fara til Spánar og fylgja þér heim en þú varst orðinn talsvert veikur. Þetta var lífsreynsla sem ég hefði ekki viljað missa af því hún hjálpaði mér að skilja sjúkdóm þinn betur. Þennan síðasta glugga til betra lífs finnst mér þú hafa nýtt þér afar vel og hafa okkar síðustu tvö ár verið betri en mörg þar á undan. Að fá þig heim til okkar og verða hluti af okkar daglega lífi aftur er ómetanlegt. Þú sagðir mjög oft að þú værir þakklátur fyrir að hafa fengið það tækifæri. Ég hefði viljað fá lengri tíma með þér en lífið ákvað að þinn tími væri kominn og við því er ekkert að gera. Okkar síðustu dagar voru góðir en helgina áður en þú fórst þína síðustu ferð á spítalann fórum við saman í Smáralind til að „dressa kallinn upp“, eins og þú orðaðir það, og það var gaman að gera það, þótt ég hafi ekki alltaf haft þolinmæði fyrir smámunasemi þinni.

Það sem er mér efst í huga þessa dagana eftir andlátt þitt er þakklæti fyrir að eiga ekki neitt óuppgert eða ósagt. Við fáum mörg tækifæri í lífinu og þú notaðir þitt síðasta tækifæri eins vel og þér var unnt. Ég mun nýta þá reynslu sem samskipti okkar hafa gefið mér til að reyna mitt besta til að sjá tækifæri mín í lífinu. Minning þín mun lifa með mér og halda áfram að kenna mér.

Hvíl í friði, elsku pabbi minn.

Lifum og leyfum öðrum að lifa og megi það byrja hjá mér.

Þinn sonur,

Ragnar.

Elsku pabbi, þú veist ekki hversu oft ég hef í gegnum árin skrifað minningargrein um þig í huganum og velt því fyrir mér hvað ég myndi skrifa í hana. Ég hafði oft talið að ég væri að sjá þig í hinsta sinn. Lífið er nefnilega ekki alltaf dans á rósum og það á sko sannarlega við um þitt líf. Ég var aðeins tveggja ára þegar þið mamma skilduð. Þá var ég langyngst fjögurra systkina, grunlaus um allt sem á undan hafði gengið. Þú kynntist síðan góðri konu og þið gáfuð mér tvo litla bræður sem ég er svo þakklát fyrir í dag. Ég kom til ykkar aðra hverja helgi eins og tíðkaðist þá. Ég átti góðar stundir í Klukkubergi og eignaðist marga góða vini. Við fórum í sund og á skíði og ekki skal gleyma þeim stundum þegar við hlustuðum saman á Ríó tríó. Þú varst svo stoltur af því að hafa kennt okkur öllum á skíði og varst enn stoltari þegar við kenndum okkar börnum að skíða. Íþróttir voru þér alltaf ofarlega i huga og þú varst einkar duglegur að fylgjast með íþróttaviðburðum, bæði hjá okkur systkinum og barnabörnum þínum.

Húmorinn þinn féll ekki alltaf í kramið og þú komst þér reglulega í vandræði með honum. Ég hafði samt oft og tíðum gaman að „pabbabröndurunum“ og gat alveg hlegið stundum yfir þeim. Að auki varst þú oft glettinn í svörum. Ef ég spurði þig hvort þú nenntir að rétta mér diskinn, þá svaraðir þú „nei, ég nenni því ekki en ég get rétt þér hann”. Eins þegar þú grínaðist með það að við værum bæði í Hafnarfirði og Garðabæ á sama tíma þegar við stóðum við skiltið sem afmarkaði bæina.

Elsku pabbi, ég er þakklát fyrir allt sem þú kenndir mér og allan þann stuðning sem þú sýndir mér þegar þú hafðir tækifæri til, hvort sem það var í íþróttum eða í daglegu lífi. Þú sagðir alltaf að aukaæfingin skapi meistarann og vildir að við legðum hart að okkur, sýndum dugnað og seiglu í því sem við tækjum okkur fyrir hendur. Ég tel að þú hefðir skrifað annað handrit að lífi þínu hefðir þú haft tækifæri til þess en því miður er sjúkdómurinn þannig að hann spyr hvorki um handrit né uppskrift að fullkomnu lífi. Þó samband okkar hafi verið slitrótt á stundum, þá leið ekki sá dagur að ég hugsaði hvernig þú hefðir það eða hvort þú værir hreinlega á lífi. Elsku pabbi, ég elska þig. Og ég lofa, ég er hætt að krumpa hornið á blaðinu þegar ég skrifa.

Þín dóttir,

Linda.