Samantha Smith, bandaríski framherjinn hjá Breiðabliki, var besti leikmaðurinn í 21. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.
Það ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem Samantha var í miklum ham á sunnudaginn þegar Breiðablik vann Þór/KA 6:1 á Kópavogsvelli. Samantha skoraði þrennu á fyrstu 14 mínútum leiksins og lagði svo eitt mark upp að auki. Hún fékk hæstu einkunnina, 3 M, fyrir frammistöðu sína.
Samantha hefur hreinlega farið á kostum eftir að hún kom til Breiðabliks frá FHL um miðjan ágúst. Þá var hún búin að taka drjúgan þátt í að koma Austfjarðaliðinu upp í Bestu deildina með því að skora 15 mörk.
Tíu M í fimm leikjum
Nú hefur Samantha skorað sjö mörk í fyrstu fimm leikjum sínum með Breiðabliki. Hún er leikmaður umferðarinnar í annað skipti og hún var valin besti leikmaður ágústmánaðar í deildinni hjá Morgunblaðinu.
Samantha hefur fengið samtals 10 M í einkunnir fyrir leikina fimm með Breiðabliki í Bestu deildinni, eða að jafnaði tvö í leik. Þrátt fyrir að hafa leikið aðeins fimm af 21 leik Breiðabliks á tímabilinu er Samantha þegar orðin þriðji hæsti leikmaður liðsins í M-gjöfinni á þessu ári.
Agla María Albertsdóttir, Andrea Rut Bjarnadóttir, Nadía Atladóttir og Saorla Miller fengu allar tvö M fyrir sína leiki í 21. umferðinni og eru í liði umferðarinnar.