Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir
Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Velsæld okkar og heilbrigð náttúra eru dýrmæt verðmæti sem ekki er réttilega tekið tillit til í samfélaginu í dag.

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, Gísli Sigurgeirsson og Auður Önnu Magnúsdóttir

Mikil verðmæti liggja í ósnortnum firði og dýrmæt verðmæti eru í líffræðilegum fjölbreytileika sem ekki er hægt að mæla í peningum. Velsæld okkar og heilbrigð náttúra eru dýrmæt verðmæti sem ekki er réttilega tekið tillit til í samfélaginu í dag.

Innleiða þarf aðra vísa varðandi verðmætasköpun en hagvöxt í peningum, eins og er gert til dæmis í velsældarhagkerfinu.

Áherslan á áframhaldandi fjárhagslegan vöxt er hættuleg vistfræðilegu jafnvægi á jörðinni. Líf manna á jörðinni er komið í ójafnvægi, losunin og neyslan er ekki sjálfbær, of hratt er gengið á allar auðlindir jarðar og þær eru ekki aðeins komnar að þolmörkum heldur langt yfir þolmörk. Loftslagsbreytingar eru komnar á rauða viðvörun.

Hægja verður á samfélaginu og leggja meiri áherslu á lífsgæði og lýðheilsu. Raunveruleg lífsgæði sem ekki tengjast ofneyslu, offramleiðslu, sóun, óhóflegu vinnuálagi og aftengingu við náttúruna og við okkur sjálf. Með breyttum áherslum samfélagsins, þar sem meiri áhersla er lögð á lífsgæði eins og samkennd, samveru, heilsusamt mataræði, meiri hreyfingu og útivist í náttúrunni, er lagður raunverulegur grunnur að loftslagsvænna, sjálfbærara og hamingjusamara samfélagi.

Í heildina er uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum ekki líkleg til þess að ná þeim árangri sem nauðsynlegur er. Hún gengur út frá þeirri forsendu að samfélagið þurfi ekki að breytast á kerfisbundinn hátt, sem við teljum forsendubrest.

Mikinn kjark þarf til að breyta samfélagshegðun og núverandi hagkerfi okkar. En það er hægt og það er nauðsynlegt. Aðgerðaáætlun í loftslagmálum þarf að þora að taka markviss skref í þá átt, þora að byrja að koma á raunverulegum hagkerfis- og samfélagsbreytingum. Líta þarf á breytt verðmætamat sem mikilvægustu loftslagsaðgerðina. Áhersla á áframhaldandi fjárhagslegan vöxt þarf að víkja fyrir æðri verðmætum samfélagsins.

Þórhildur er orku- og umhverfisverkfræðingur, Gísli er rafeindavirki og Auður er lífefnafræðingur.