Ísland mun gefa kost á sér til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á næsta ári.
Ísland hefur einu sinni áður verið kjörið í mannréttindaráðið og gustaði þó nokkuð um setu landsins þar meðan á henni stóð. Mannréttindaráðið hefur oft og tíðum verið gagnrýnt fyrir það hversu margar þjóðir eiga þar aðild sem traðka þó á mannréttindum fólks heima fyrir.
„Meginástæðan fyrir því að við sækjumst eftir sæti er sannfæring okkar um að við getum gert gagn fyrir borgara í löndum þar sem mannréttindi eru ekki virt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Hún er bjartsýn á að Ísland hljóti kjör en kosið verður 9. október og kjörtímabilið er frá árinu 2025 til 2027.
Ísland fékk í fyrsta sinn kjörinn fulltrúa í mannréttindaráðið 13. júlí 2018 og lauk kjörtímabilinu 31. desember 2019. Kjörtímabilið var stutt en Ísland kom inn á miðju kjörtímabili af því að Bandaríkjamenn drógu sig úr ráðinu.
„Þá sáum við það, fundum fyrir því og fengum að heyra það mjög skýrt að þessi vinna skiptir máli. Við erum auðvitað smá og það þýðir að við þurfum að vera með skýrar áherslur. En það þýðir líka að smáríki eins og Ísland – sem leggur höfuðáherslu á mannréttindi og það er auðvitað kjarninn í okkar utanríkisstefnu – að við getum sett mál á dagskrá sem er erfiðara og flóknara fyrir stærri þjóðir að gera. Við getum sagt hluti sem er stundum of flókið fyrir stærri ríki að gera,“ segir Þórdís.
Hún segir bakslag vera í mannréttindamálum víða um heim og því af nógu að taka.