Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Ég er elsta dóttir mömmu, en hún átti þegar þrjár dætur þegar hún var aðeins 25 ára gömul og átti mig 19 ára,“ segir Sigrún Vala Valgeirsdóttir sem er orðin langamma þrátt fyrir að vera rétt rúmlega sextug. „Ég er síðan 18 ára þegar ég á dóttur mína Elísu og hún átti dóttur sína, Sigurlaugu Sunnu, á svipuðum aldri. Síðan á Sigurlaug dóttur sína 24 ára gömul á þessu ári. Þegar ég heyrði af því að fimmti ættliðurinn væri á leiðinni sagði ég: „Nú þarf að taka fram skotthúfuna, og mæta með hana í öll fjölskylduboð,“ segir hún og hlær.
„Það er mjög gaman að þessu og ekki síst að báðir foreldrar mínir eru á lífi og pabbi var rosalega ánægður með að verða langalangafi,“ segir hún og hlær. Foreldrar Sigrúnar, Lovísa Ágústsdóttir og Valgeir Gestsson, eru bæði á níræðisaldri, en á þeim aldri eru flestir jafnaldrar þeirra langömmur og langafar. Sigrún fæddist í Reykjavík en ólst upp á Varmalandi í Borgarfirði þar sem faðir hennar var skólastjóri.
„Það er sterk kvenorka í ættinni,“ segir Sigrún og segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á sögu kvenna, en hún nam sagnfræði á sínum tíma og fannst saga kvenna oft týnast í fræðunum.
Heklaði mottur úr plastpokum
„Í minni móðurætt eru nokkrir frumkvöðlar aftur í ættir en ömmusystkini mín í Eyjafirði byggðu upp Lystigarðinn á Akureyri og fóru þeir Jón og Kristján Rögnvaldssynir á fjöll og til útlanda til að safna jurtum. Systir þeirra Sólveig var bóndakona og stundaði skrúðgarðyrkju, kartöflu- og skógrækt. Hún heklaði mottur úr plastpokum, sem enn eru til í fjölskyldunni, og var mjög myndarleg og bakaði mjög margar sortir. Það kom enginn að tómum kofunum hjá henni og hún var alltaf jákvæð í allri lífsbaráttunni. Við eigum öll einstakar minningar um hana og heimsóknir í Eyjafjörðinn,“ segir Sigrún Vala, en nýverið gerði Helgi Gíslason myndhöggvari koparmynd af henni sem verður höfð á góðum stað í sveitinni hennar.
Sigrún Vala hefur sjálf ekki vílað fyrir sér að prófa nýja hluti og hún rak um tíma tehús í Reykjavík, fór í frumkvöðlanám og á miðjum aldri ákvað hún að læra kvikmyndagerð í Prag. Hún frumsýndi fyrstu heimildarmynd sína, Konur, draumar og brauð, á þessu ári, en tónlistin í myndinni hefur m.a. verið tilnefnd til verðlauna í Glasgow. Myndin er í anda töfraraunsæis þar sem kaffihús á landsbyggðinni eru heimsótt og er óður hennar til Íslands og íslenskra kvenna. Myndin var valin inn á Nordisk Panorama market í eitt ár. „Við erum á hringferð með myndina og sýnum á þeim stöðum sem við komum á.“