Kjartan Jarlsson fæddist 17. september 1952. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 20. september 2024.
Foreldrar Kjartans voru Kristín M. Bjarnadóttir og Jarl Sigurðsson, bæði látin. Kjartan var næstyngstur af fimm systkinum. Hin eru: Þröstur, f. 1944, Bjarni, f. 1949, Sigurður, f. 1950, og Kolbrún, f. 1955.
Kjartan giftist eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Jónsdóttur kennara, þann 17. september 1982. Saman eignuðust þau tvær dætur. Þær eru Íris Ósk, f. 11. apríl 1984, og Lilja Guðrún, f. 24. janúar 1986. Barn Írisar er Emil Kári, f. 2. nóvember 2018. Börn Lilju Guðrúnar eru Alexander Freyr og Kristinn Jarl, f. 5. desember 2016. Sambýlismaður Lilju er Karl Víðir Magnússon og á hann tvö börn úr fyrra sambandi, Eirík Þór, f. 28. maí 2009, og S. Unni, f. 24. september 2011.
Kjartan starfaði lengst af hjá Rafveitu Hafnarfjarðar sem síðar varð Hitaveita Suðurnesja. Hann var virkur í félagsstarfi, má þar nefna hjá Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar, siglingaklúbbnum Ými, Skátagildinu í Kópavogi, Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði og fleira.
Útför hans verður frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 30. september 2024, klukkan 13.
Minningarnar flæddu um þegar við fregnuðum að okkar gamli skipsfélagi og vinur, Kjartan Jarlsson, hefði lokið jarðvist sinni. Við vorum allir ungir strákar þegar leiðir okkar fóru að liggja saman. Allir vorum við sjómannssynir sem vildum ekkert nema sjómennsku sem okkar framtíðarvettvang. Gullfoss var skipið sem við allir þrír sigldum á en ekki samskipa nema Kjartan og Hilmar. Þá var það Reykjafoss þar sem hann og Magnús sigldu saman um lengri tíma. Leiðir okkar þriggja áttu síðan eftir sameinast á bandaríska bor- og rannsóknarskipinu Glomar Challenger árið 1976. Þarna vorum við þrír íslenskir hásetar komnir um borð í bandarískt skip og voru því allar sjóvaktir þann tíma sem við vorum á skipinu skipaðar íslenskum sjómönnum. Áhöfninni þótti mikið um að hafa þrjá víkinga um borð hjá sér enda vorum við með önnur vinnusjónarmið en okkar skipsfélagar. Við vorum vanir að drífa hluti af en það þótti ekki alveg passa í okkar nýja umhverfi. Það var okkar að aðlagast þeim en ekki þeir okkar vinnulagi. Við vorum þó fljótir að átta okkur á að samvinna allra um borð var það skipti mestu máli og þar eignuðumst við vini fyrir lífstíð. Þótt sjómennskan hafi verið leið okkar þriggja fór Kjartan þó frá þeirri grein og lærði rafvirkjun og haslaði sér völl á þeim vettvangi en við hinir tveir héldum sjómennskudraumnum áfram. Leiðir okkar og Kjartans lágu því ekki lengur saman en við fylgdumst vel með velgengni hver annars í gegnum árin. Það var okkur, sem fleirum, áfall þegar við fregnuðum af skyndilegum veikindum sem leiddu til þess að okkar kröftugi skipsfélagi varð á einni viku bundinn við hjólastól til hinsta dags. Nú hefur hann fengið hvíldina en í hvert sinn sem leiðir lágu saman var alltaf hans innilega og hlýja bros til staðar. Þannig munum við hugsa til þín, okkar kæri gamli skipsfélagi, þegar þú nú leggur upp í sjóferðina þar sem engar brælur er að finna. Takk fyrir ferðalagið okkar þriggja saman í gegnum árin. Eiginkonu, börnum og barnabörnum vottum við okkar dýpstu samúð.
Hilmar Snorrason og Magnús Harðarson.
Kjartan Jarlsson er farinn heim.
Hugurinn leitar nokkra áratugi aftur í tímann til fyrstu kynna sem fljótt leiddu til djúprar vináttu.
Vinur, félagi, samverustundir í blíðu og stríðu, mörg ferðalög innan lands og utan, flest skátatengd, samvinna í landsgildisstjórn Skátagildanna á Íslandi um árabil.
Sláturgerð á hverju hausti og áfram mætti telja.
Kjartan var stór og sterkur maður sem elskaði útivist og ferðalög. Hlutskipti hans þegar hann veiktist og lamaðist fyrir rúmum sex árum var ekki auðvelt. Að vera upp á aðra kominn með alla hluti reyndist honum oft erfitt en samt naut hann ávallt samvista við fjölskyldu og góða vini. Hlýr og glettinn og ávallt stutt í græskulausa stríðni.
Minningarnar eru margar, Inga, Kjartan, Íris og Lilja eru samfléttuð okkar fjölskyldu um svo margt og oft höfum við gengið í takt til ýmissa verka og aldrei borið þar skugga á.
Líðandi ár var Kjartani erfitt og ljóst að hverju stefndi. Hann var tilbúinn að kveðja og hafði undirbúið flesta hluti. Tilbúinn að fara heim.
Hafðu þökk fyrir samfylgdina.
Elsku Inga, Íris, Lilja og fjölskyldur sem hafið staðið sem klettar gegnum allar þrautir, gleymið ekki að hugsa um ykkur sjálf.
Innilegar samúðarkveðjur hafa borist frá fjölmörgum gildisskátum á Norðurlöndunum.
Elín og Þorvaldur
(Ella og Doddi).