Jóhann Jakobsson fæddist í Reykjavík 14. júní 1938. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavík 23. september 2024.

Foreldrar hans voru Jakob Þorsteinn Jóhannsson, f. 29. janúar 1908 á Jöfra, Víðidal, Austur-Húnavatnssýslu, d. 12. mars 1993, og Ingibjörg Hjartardóttir, f. 28. júní 1908 í Grafarkoti, Vestur-Húnavatnssýslu, d. 4. mars 1998. Systkini Jóhanns voru: Björgvin, f. 23. október 1932, d. 29. mars 2017, Elsa, f. 14. mars 1934, d. 13. nóvember 2014, Bára, f. 14. janúar 1936, d. 3. júlí 2014, Hjörtur, f. 20. maí 1944, d. 27. apríl 2016, og Guðmundur, f. 30. september 1948, d. 13. febrúar 2017.

Eiginkona Jóhanns var Unnur Ólafsdóttir, fædd í Reykjavík 21. júní 1936. Hún lést 20. mars 2022. Foreldrar hennar voru Ólafur Sigurjón Dagfinnsson, f. 21. september 1900 í Reykjavík, d. 24. febrúar 1975, og Þórlaug Valdimarsdóttir, f. 24. júní 1903 á Sóleyjarbakka, Hrunamannahreppi í Árnessýslu, d. 9. mars 1972.

Fósturdætur Jóhanns og dætur Unnar eru Þórlaug og Kristín. Þórlaug, f. 20. desember 1953, maki Þorvarður Gunnarsson, f. 14. maí 1954. Börn þeirra eru Garðar Örn, Gissur Páll, Gunnar, Ragnar og Jóhann. Barnabörnin eru níu. Kristín, f. 10. mars 1964, maki Lárus Kristinn Jónsson, f. 20. maí 1964. Börn þeirra eru Sverrir, Unnur, Karen og Andrea Kristín. Barnabörnin eru þrjú.

Jóhann, sem var alltaf kallaður Jói, ólst upp á Bala í Reykjavík en átta ára fór hann í sveit að Fremri Fitjum í Fitjárdal í Vestur-Húnavatnssýslu þar sem hann gekk í skóla á Hvammstanga. Hann ólst upp hjá Tryggva Jóhannessyni á Fremri Fitjum til 15 ára aldurs. Á 16. aldursári, eftir gagnfræðapróf, gerðist Jói sjómaður á ýmsum togurum sem lönduðu afla sínum ýmist hér á landi eða erlendis. Lengstan hluta starfsævi sinnar starfaði hann á Vörubílastöðinni Þrótti í Reykjavík sem vörubifreiðastjóri, ásamt föður sínum og bræðrum. Þau Unnur og Jói ferðuðust mikið um heiminn og voru ferðir þeirra til Kanarí ófáar og í sérstöku uppáhaldi. Síðustu jól og áramót fór Jói á gamlar slóðir þeirra hjóna og náði að njóta Kanarí enn einu sinni, honum til mikillar gleði. Jói var mjög handlaginn og fór honum allt vel úr hendi, sama hvort það var í bílaviðgerðum eða öðru. Þá naut hann sín best í náttúrunni og hafði sérstaka ánægju af stangveiði í ám og vötnum.

Útför fer fram frá Áskirkju í dag, 30. september 2024, klukkan 13.

Elsku afi Jói okkar.

Nú eruð þið amma sameinuð á ný. Síðustu dagar hafa verið okkur afar þungbærir, enda ekkert sem hefði getað undirbúið okkur fyrir að kveðja einn okkar besta vin, en þú varst einmitt það, besti vinur og afi sem barnabarn getur óskað sér.

Það sem einkenndi afa var hjartahlýja og hjálpsemi en hann var stuðningsríkur og alltaf mikið glens og grín sem honum fylgdi. Hann kenndi okkur hvað skiptir raunverulega máli í lífinu, fólkið manns, ást og umhyggja ásamt því að líta ávallt á björtu hliðarnar í lífinu.

Þegar við systur rifjum upp æskuárin eru minningarnar úr Efstasundinu ófáar og ylja okkur um hjartarætur. Minningar okkar einkennast af gleði, notalegheitum og hlýju. Það var oftast auðvelt að sannfæra afa til þess að taka þátt í okkar ólíku ævintýrum, hvort sem það var að gera snjóhús á veturna og fá kakó og ristað brauð í kjölfarið, eða brasa með honum í bílskúrnum og gefa fuglunum að borða úti í garði. Við suðuðum oft í mömmu og pabba að fá að gista um helgar hjá ömmu og afa en þá fengum við gjarnan saltkjöt, fylgdumst með kvöldrútínunni hans afa og horfðum saman á Gettu betur.

Í seinni tíð eru það samtöl okkar við afa um ástina, fortíðina, uppeldið hans í litla húsinu Bala og í sveitinni, ásamt ferðum hans á sjó og vinnu hjá Þrótti, sem við minnumst. Afi var góður í að segja sögur og sátum við oft tímunum saman á Brúnavegi, Hrafnistu eða Sunnuveginum og hlustuðum á endurminningar hans. Þá má einnig nefna lætin sem fylgdu afa, hvort sem það var í útvarpinu í bílnum eða hávaðinn í sjónvarpinu, þá gátum við alltaf hlegið yfir þeim.

Undir lok síðasta árs vorum við svo heppnar að fá að fara með afa til Kanarí en þar áttu amma og afi ótal stundir saman. Ferðin og minningarnar sem við þar sköpuðum eru okkur mikilvægari en orð fá lýst og munum við minnast þeirra um ókomna tíð.

Elsku afi, takk fyrir að vera afi okkar. Takk fyrir að elska svona djúpt, styðja okkur og kenna okkur hvað felst í skilyrðislausri ást, sem þú sýndir ömmu og okkur á degi hverjum. Ljúfari mann er erfitt að finna og munum við gera okkar besta til þess að lifa í samræmi við þín gildi og sýna fólkinu okkar álíka ást og stuðning og þú ávallt gerðir.

Þar til næst, bæjó bæjó,

Þínar afastelpur,

Unnur, Karen og Andrea.

Elsku besti afi minn.

Það sem ég var heppin að fá að hafa þig í lífinu mínu. Þú varst maður sem hafði að geyma besta hjartað sem var gert úr eintómu gulli, sem allt gott vildi láta af sér leiða til þeirra sem voru svo heppin að fá þig að þekkja.

Ég veit ekki hvernig við vorum svo lánsöm að fá þig í líf okkar en þið amma duttuð svo sannarlega í lukkupottinn að hafa fundið hvort annað og ég þar með að hafa fengið að eiga þig sem afa.

Þú varst einn minn besti vinur alveg frá því að ég man eftir mér. Þegar ég skoða myndir frá yngri árum sést að ég var mesta afastelpan og vildi helst vera límd við þig hefði ég fengið því ráðið. Ég man ekki mikið úr æsku en þú ert það sem stendur þar helst upp úr og fyrir það er ég svo þakklát.

Minningarnar úr Efstasundinu, þegar ég kom í pössun, þegar við tókum okkur blund og ég hlustaði á hroturnar þínar og ömmu, öll snjóhúsin sem þú byggðir fyrir okkur systurnar og hugmyndaflugið þitt til að gera allt svo einstakt og eftirminnilegt, gefa fuglunum að borða, setja loft í dekkin á hjólinu mínu, ófáu matarboðin, gingerale og Gettu betur um helgar, ferðirnar í Rangá að fá okkur blómaís, bakarísferðirnar okkar eftir skóla á föstudögum og svo allar minningarnar okkar síðustu ár á Brúnaveginum, heima á Sunnuveginum, samveran með Hugo okkar og síðasta Kanaríferðin þín sem við áttum saman síðustu jól.

Ég er svo þakklát fyrir sambandið okkar á mínum eldri árum. Tímarnir okkar saman, samtölin og minningarnar eru eitthvað sem ég held fast í á þessum erfiðu tímum og mun koma til með að gera alla ævi.

Ég er svo óendanlega þakklát fyrir þig elsku afi minn, ég kem því ekki í orð, sama hvað ég reyni. Stolt mun ég halda minningu þinni lifandi hvert sem ég fer og einn góðan veðurdag fæ ég vonandi að segja börnunum mínum frá þér og öllum þeim frábæru kostum sem þú hafðir að geyma og ég get hreinlega ekki beðið eftir því. Ef mér tekst nokkurn tímann að verða jafn frábær og þú eða eitthvað í líkingu við þig, þá get ég verið meira en sátt.

Takk fyrir allt fallegi engillinn minn. Takk fyrir að vera allt sem ég hefði getað óskað mér og meira en það. Takk fyrir að leyfa mér að fylgja þér síðasta spölinn í þessu lífi þrátt fyrir að það hafi verið það erfiðasta sem ég hef þurft að gera. Ég veit að þú ert nú sameinaður aftur elsku ömmu og þið passið hvort upp á annað þarna hinum megin. Ég er handviss um að þið skálið í vodka og sódavatni líka við fyrsta tækifæri.

Elska þig, elsku afi Jói minn – þangað til við hittumst næst og ég heyri hláturinn þinn aftur.

„Bæjóbæjó“ – eins og þú myndir segja.

Þín afastelpa,

Andrea Kristín.