Haustþing Viðreisnar fór fram um helgina undir yfirskriftinni: Léttum róðurinn. Við ræddum stöðuna hjá fjölskyldufólki, ungu fólki og eldri borgunum í skugga verðbólgu og vaxtasturlunar. Við fórum yfir stöðuna hjá fyrirtækjum landsins, hjá sveitarfélögum og hjá ríkissjóði.
Það var hugur í fólki því þó að áskoranirnar séu nægar, þá liggja lausnirnar fyrir. Viðreisn vill alvöru umbætur á hagstjórn landsins. Það þarf rækilega tiltekt í rekstri ríkissjóðs með skýrri forgangsröðun í þágu almennings. Þar er af nægu að taka. Heiðarleg umræða um kosti og galla íslensku krónunnar og þátt hennar í þeirri vaxtasturlun sem er að sliga heimili landsins er nauðsynleg. Vaxtasturlun sem ekki eingöngu ógnar velferð heimila og stöðu fyrirtækja heldur kostar ríki og sveitarfélög hundruð milljarða króna á ári hverju. Þetta eru fjárhæðir sem færi betur á að nýta í þágu almennings; í heilbrigðismál, samgöngur, löggæslu eða menntamál svo dæmi séu tekin. Þá væri staðan sannarlega önnur og betri en hún er. Samhliða þarf íslensk þjóð að fá að greiða atkvæði um áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.
Þetta er staðan á kosningavetri. Á meðan Viðreisn vinnur að nánari útfærslu á lausnum fyrir fólk rífast fulltrúar stjórnarflokkanna í fjölmiðlum um tímasetningu kosninga. Listinn yfir opinber ágreiningsefni Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna á sjö ára stjórnartíð þeirra er sennilega orðinn lengri en listinn yfir þau verkefni sem flokkarnir hafa leyst sameiginlega í þágu lands og þjóðar.
Í stjórnmálaályktun Viðreisnar sem samþykkt var á haustþinginu er enda bent á hið augljósa: Erindi núverandi ríkisstjórnar er löngu lokið. Sundrungin í þessu sérkennilega stjórnarbandalagi hefur leitt til erfiðrar stöðu í íslensku samfélagi. Staðan í heilbrigðismálum er skýr birtingarmynd þeirrar sundrungar. Í stað þess að birtast þjóðinni sem samhent afl sem vinnur saman að þeim fjölmörgu áskorunum sem við blasa er hver höndin uppi á móti annarri. Á meðan börn bíða árum saman eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu rífst ríkisstjórnin opinberlega um netsölu áfengis til fullorðins fólks.
Þetta sinnuleysi gengur ekki lengur. Viðreisn leggur áherslu á að stjórnvöld móti skýra og raunhæfa stefnu, einfaldi þung og svifasein kerfi og forgangsraði fjármunum. Það þarf að taka biðlistavandann alvarlega. Íslendingar eiga ekki að þurfa að vera biðlistaþjóð í heilbrigðismálum. Á þeirri vegferð er ekki hjá því komist að leggja til aukið fjármagn í ákveðna þætti, sérstaklega þá sem varða heilsu og velferð barna og ungmenna. Það kostar að reka gott heilbrigðiskerfi en það kostar meira til lengri tíma að vanrækja kerfin okkar.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is