Draumahögg Ríkharður sækir golfboltann í holuna á Víkurvelli.
Draumahögg Ríkharður sækir golfboltann í holuna á Víkurvelli.
Ríkharður Hrafnkelsson úr Stykkishólmi fór á dögunum holu í höggi á heimavelli sínum Víkurvelli í Hólminum. Það eitt og sér væri kannski ekki umfjöllunarefni en það sem er öllu merkilegra er að Ríkharður hefur afrekað að fara fimm sinnum holu í höggi

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ríkharður Hrafnkelsson úr Stykkishólmi fór á dögunum holu í höggi á heimavelli sínum Víkurvelli í Hólminum. Það eitt og sér væri kannski ekki umfjöllunarefni en það sem er öllu merkilegra er að Ríkharður hefur afrekað að fara fimm sinnum holu í höggi.

Á meðan sumir kylfingar bíða alla ævi eftir draumahögginu hefur Ríkharður náð því ítrekað og alls á þremur golfvöllum. Fyrst á 8. holu á Fróðárvelli í Ólafsvík árið 2001, þá á 12. í Vestmannaeyjum árið 2012 og aftur í Vestmannaeyjum ári síðar. Þá á 7. holunni en Ríkharður bjó í Eyjum í sex ár. Eftir að hann flutti aftur í Hólminn fór hann holu í höggi á 6. braut á Víkurvelli árið 2016 og á dögunum endurtók hann leikinn á sömu holu.

„6. holan á Víkurvelli er mjög falleg. Hún er ekki löng og er um 100 metrar. Hún nær yfir vog eða vík. Teigurinn stendur hátt uppi og þessi braut er mjög falleg,“ segir Ríkharður sem var að leika golfhring með eiginkonunni Karín Hertu Hafsteinsdóttur þegar hann fór holu í höggi í fimmta sinn. Hún er ekki eina vitnið því ráshópurinn á undan þeim hjónum hleypti þeim fram úr, sem þekkt er í golfinu ef fleiri eru í ráshópnum á undan.

40 ára starf í hreyfingunni

„Við fórum upp á 6. teig og flýttum okkur svolítið eins og maður gerir þegar manni er hleypt fram úr. Frúin sló á undan og átti mjög fínt högg sem endaði um þrjá metra frá holunni. Ég sló í framhaldinu og fann að ég hitti boltann vel. Ég byrjaði að ganga í burtu en sneri mér svo við til að sjá hvar boltinn myndi enda. Ég rétt náði að sjá hann lenda á gríninu og rúlla í holuna. Konurnar þrjár sem hleyptu okkur fram úr urðu því vitni að þessu og fannst þetta nokkuð merkilegt.“

Ríkharður er vel kynntur í golfhreyfingunni eftir þrotlaust starf fyrir golfklúbbinn í Stykkishólmi en einnig fyrir klúbbinn í Vestmannaeyjum. Formennsku sinnti hann hjá Mostra í Hólminum í aldarfjórðung svo eitthvað sé nefnt.

„Ég byrjaði að spila golf rétt fyrir 1980. Pabbi konunnar hafði spilað golf síðan 1952 og bróðir hennar var landsliðsmaður í golfi. Ekki varð hjá því komist að maður væri dreginn út á golfvöll en fram að því fannst mér golf vera það vitlausasta sem til væri. Ég smitaðist mjög fljótt enda frábær íþrótt. Ég hafði forgöngu um að stofna klúbbinn í Hólminum árið 1984 og frá þeim tíma er einungis tæpt ár samtals sem ég hef ekki verið í stjórn eða nefnd á vegum golfklúbbs.“

Ríkharður varð Íslands-og bikarmeistari í körfuknattleik með frægu liði Vals árið 1983 og þótti skytta góð en hann skoraði þá 17 stig að meðaltali í deildinni. Hvort er hann skotvissari í körfunni eða í golfinu fyrst hann hefur fimm sinnum farið holu í höggi?

Íslandsmeistari í körfunni

„Jaaa ég var ágætlega skotviss í körfunni og hef líklega verið öllu betri þar. Þegar maður fer holu í höggi þá þarf höggið auðvitað að vera gott en heppnin þarf að fylgja með. Ef maður er þokkalega góður í golfi þá hjálpar það en ég þekki kylfinga sem eru miklu betri en ég en hafa ekki farið holu í höggi,“ segir Ríkharður sem er nú með rúmlega 13 í forgjöf en fór niður í 5 þegar best lét.

Til fróðleiks má hér fylgja með að Björgvin heitinn Þorsteinsson frá Akureyri fór ellefu sinnum holu í höggi og á Íslandsmetið eftir því sem blaðið kemst næst.

Höf.: Kristján Jónsson