Ein þeirra 150 loftslagsaðgerða sem stjórnvöld hafa kynnt er að draga úr ræktun á lífrænum jarðvegi.
Í samráðsgátt má sjá uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og þar kemur fram að markmið aðgerðarinnar sé „að fækka hekturum sem ræktaðir eru á lífrænum jarðvegi um 10% árið 2030 miðað við árið 2022.“
Þessi tiltekna aðgerð er á ábyrgð matvælaráðherra, að því er segir í aðgerðapakkanum.
„Með aðgerðinni eru bændur hvattir til að bæta meðferð ræktarlands. Ákvæði verða sett í samninga og reglugerðir til að koma í veg fyrir að bændur fari í verkefni sem hafa neikvæð áhrif m.t.t. loftslagsmála og stuðningskerfi jafnframt nýtt til að ýta undir góða meðferð ræktarlands í loftslagslegum skilningi,“ segir m.a. í lýsingu á aðgerðinni.
Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins vakti athygli á málinu í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í síðustu viku.
„Mig langar til að spyrja hæstvirtan landbúnaðarráðherra: Er ráðherra þeirrar skoðunar að þetta séu skilaboðin sem bændur landsins þurfi á að halda nú um stundir?“ spurði hann.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra sagði í andsvari þetta málefni ekki hafa verið sérstaklega borið undir matvælaráðuneytið að hennar viti.
„Ég myndi halda því til haga að ég er ekki sammála því, ef ég hef skilið háttvirtan þingmann rétt, að um sé að ræða skerðingu á landi til lífrænnar ræktunar sem ég er ekki viss um að ég sé alveg sammála um að eigi að gera,“ sagði Bjarkey.
Hún kvaðst myndu skoða málið nánar og tók fram að hún kannaðist ekki við að fækka ætti hekturum sem ræktaðir eru á lífrænum jarðvegi.