[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Benedikt Sveinsson hæstaréttarlögmaður fæddist í Reykjavík 31. júlí 1938. Hann lést 17. september 2024.

Foreldrar Benedikts voru Sveinn Benediktsson framkvæmdastjóri, f. í Reykjavík 12. maí 1905, d. 12. febrúar 1979, og Helga Ingimundardóttir, f. 23. desember 1914, d. 22. janúar 2008.

Systkini Benedikts eru Ingimundur, f. 21. apríl 1942, Guðrún, f. 25. október 1944, og Einar, f. 3. apríl 1948.

Benedikt ólst upp í Reykjavík. Hann gekk í Ísaksskóla, var í Æfingadeild KÍ, síðan Austurbæjarbarnaskólanum og lauk stúdentsprófi frá MR 1958. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1964, stundaði viðskiptafræðinám við Minnesota-háskóla 1964-65 og öðlaðist hrl.-réttindi 1969. Benedikt stundaði lögmennsku ásamt skipasölu um árabil. Hann sat í stjórn ýmissa fyrirtækja og var stjórnarformaður hjá Nesskipum, Sjóvá, Marel, SR mjöli og Eimskip. Benedikt sat einnig í stjórn Flugleiða, Granda, Burðaráss og Kögunar. Hann bjó í Garðabæ frá 1966 og var formaður Sjálfstæðisfélags Garða- og Bessastaðahrepps 1973-75, sat í skólanefnd Garðabæjar 1974-86, þar af formaður 1982-86. Hann var bæjarfulltrúi í Garðabæ 1986-98, þar af oddviti meirihlutans og formaður bæjarráðs í tíu ár.

Benedikt giftist 17. desember 1960 Guðríði Jónsdóttur, f. 19. september 1938 á Siglufirði. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Gunnarsson, verkfræðingur og forstjóri SH, f. 15.2. 1900, d. 4.6. 1973, og Hólmfríður Sigurlína Björnsdóttir húsmóðir, f. 3.6. 1904, d. 23.5. 1996.

Synir Benedikts og Guðríðar eru: 1) Sveinn tölvunarfræðingur, f. 16.1. 1962, eiginkona Helga Kristjánsdóttir hagfræðingur, f. 24.6. 1969, dóttir þeirra er Benedikta Sigurlína, f. 21.9. 2023. Sonur Helgu er Kristján Helgi Sigurðarson, f. 2.11. 2008. Fyrri eiginkona Sveins var Unnur Fadila Vilhelmsdóttir píanóleikari, f. 22.1. 1962, d. 27.1. 2008, sonur hennar er Gunnar Már Óttarsson, f. 20.8. 1986. 2) Jón rafmagnsverkfræðingur, f. 16.10. 1964, eiginkona Ágústa Arna Grétarsdóttir lyfjafræðingur, f. 20.8. 1964. Börn þeirra eru Kristín, f. 22.8. 1989, gift Rúti Erni Birgissyni, f. 2. júní 1985, Benedikt, f. 27.8. 1991, í sambúð með Sólrúnu Díu Friðriksdóttur, f. 23.7. 1992, og Þorsteinn, f. 22.8. 1994, í sambúð með Ásdísi Lilju Ólafsdóttur. 3) Bjarni forsætisráðherra, f. 26.1. 1970, eiginkona Þóra Margrét Baldvinsdóttir, f. 1.3. 1971. Börn þeirra eru Margrét, f. 19.7. 1991, í sambúð með Ísaki Erni Kristinssyni, f. 22.7. 1993, Benedikt, f. 11.2. 1998, í sambúð með Sunnevu Eiri Einarsdóttur, f. 7.9. 1996, Helga Þóra, f. 18.8. 2004, og Guðríður Lína, f. 30.9. 2011.

Barnabarnabörnin eru fjögur.

Útför Benedikts fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 30. september 2024, klukkan 15.

Það er erfitt að komið sé að kveðjustund en auðvelt að rifja upp góðar minningar um góðan mann. Veikindi settu mark á Benedikt undir það síðasta, sem hann tók af æðruleysi. Hann var kærleiksríkur maður sem sýndi öðrum tillit og samferðafólki sínu umhyggju. Hann var höfðingi heim að sækja og tók vel á móti öllum, var víðsýnn og jákvæður. Alltaf var hægt að leita til hans og stutt var í húmorinn. Hann var hlýr fjölskyldumaður, var barngóður, hjálpsamur og hafði sérstakt lag á að tala við fólk og hlusta á það. Mér er minnisstætt þegar hann var með seinni mönnum út af jólatónleikum við Tónlistarskólann í Garðabæ, því hann þurfti að spjalla við flesta sem þar voru staddir. Benedikt var laus við sjálfhælni og veitti gjarna öðrum liðsinni. Margar skemmtilegar sögur kunni Benedikt og var endalaust tilbúinn að deila þeim með öðrum, einnig að segja brandara sem yngri kynslóðin kunni ekki síst að meta. Þegar við hjónakornin komum fyrst til fundar við þau hjónin, hafði Benedikt mjög gaman af því að við værum með sömu nöfn og foreldrar hans. Mér þótti vænt um hve hann tók vel á móti mér í fjölskylduna og Kristjáni syni mínum. Að lokum er dýrmætt hve einlægan áhuga hann sýndi Benediktu.

Innilegar þakkir fyrir ánægjuleg kynni.

Þín tengdadóttir,

Helga.

Bráðum eru 40 ár liðin frá því ég fyrst fór að venja komur mínar á Lindarflötina til Guðríðar og Benedikts. Á þeim tíma var verðandi tengdafaðir minn í miðri hringiðu viðskiptalífsins á Íslandi og varð á fáum árum einn helsti forystumaður í viðskiptalífinu og um leið oddviti og leiðtogi í okkar heimabæ.

Frá fyrstu kynnum fann ég velvild og hlýhug í minn garð. Það var auðfundið að Benedikt tryggði með hlýrri nærveru sinni afslappað og notalegt andrúmsloft á heimilinu. Þau hjónin héldu fallegt heimili þar sem ró og hlýja einkenndi heimilislífið.

Mesta ánægju fannst mér hann hafa haft af því þegar hann gat komið góðu til leiðar. Gilti það í stóru sem smáu. Hann var einstaklega bóngóður og mikið til hans leitað með ráð og stuðning af ýmsu tagi. Alla tíð hef ég dáðst að því hve hógvær og lítillátur Benedikt var en það var aldrei í hans anda að berast á eða hreykja sér. Breytti engu hve margt hann hafði á sinni könnu, Benedikt var eins og klettur, sama hvað gekk á.

Benedikt var einstaklega jákvæður og skemmtilegur maður og óvenju hnyttinn í svörum. Þeir sem Benedikt þekktu vissu að hann gat verið uppátækjasamur. Ekki síst í kringum barnabörnin, því þau voru hans sérstaka dálæti. Með fjölskyldunni hafði hann gaman af því setja upp gleraugu með stóru kartöflunefi, um hátíðirnar kom jólasveinaskegg og fyrir golfið í útlöndum átti hann skrautlegar golfbuxur sem vöktu athygli. Í veiðinni setti hann upp derhúfu þar sem sporður stóð aftan úr húfunni og fiskhaus kom út að framan.

Alltaf gat Benedikt gefið sér tíma fyrir það sem án vafa skipti hann mestu í lífinu, fjölskylduna, og allt gerði hann til að tryggja að öllum liði vel. Hann fylgdist alla tíð með fréttum, bæði hér heima og erlendis, las mikið og hafði sérstakan áhuga á málefnum Stjörnunnar. Fyrir kom að ég las upp fyrir hann íþróttafréttir úr blöðunum þegar hann var erlendis og ef mikið lá við man ég að Morgunblaðið var klippt niður og íþróttasíðurnar sendar með telefaxi beint á hótelið til hans.

Sumarbústaðurinn við Þingvallavatn var griðastaður í sveitinni. Benedikt var sérstaklega áhugasamur um veiði í Þingvallavatni og voru allir veiðimenn rukkaðir um fréttir af aflabrögðum.

Eftir að þau Guðríður keyptu sér hús á Flórída hófst nýr kafli hjá fjölskyldunni allri. Þaðan eigum við dásamlegar og dýrmætar minningar um samverustundir með tengdaforeldrunum sem lifa með okkur um ókomna tíð. Hann var einstaklega skemmtilegur ferðafélagi, örlátur og rausnarlegur.

Við Benedikt áttum einstaklega gott samband sem var mér afar dýrmætt og veitti mér mikinn stuðning í lífinu. Samgangurinn var mikil, símtölin mörg, oft mörg á dag. Tilveran verður ekki söm eftir fráfall hans. Í hvert sinn sem við ræddum saman spurði hann frétta af fjölskyldunni. Velferð og hamingja hennar var honum allt. Hann var sönn fyrirmynd og hans verður lengi minnst fyrir góðmennsku og hans hlýja hjartalag.

Elskulegs tengdaföður míns er sárt saknað.

Guð geymi elskulegan tengdaföður minn.

Þóra Margrét Baldvinsdóttir.

Það var fyrir 43 árum að ég hringdi á Lindarflöt til að ná tali af Nonna, það hringdi nokkrum sinnum og svo var svarað „lögreglustöðin“. Ég flýtti mér að biðjast afsökunar á því að hafa valið rangt númer, lagði á og hringdi aftur. Aftur var svarað en nú „elliheimilið Grund“, þá áttaði ég mig á því að tengdapabbi væri á línunni. Það var aldrei langt í húmorinn hjá Bensa, þrátt fyrir erfið veikindi undir lokin og háan aldur.

Ég hafði ekki þekkt hann lengi þegar mér varð ljóst að þar fór ljúfmenni, með mikið jafnaðargeð en gat þó verið fastur fyrir þegar þurfti. Hann var skarpgreindur og stálminnugur, traustur og bóngóður með afbrigðum.

Bensi hafði brennandi áhuga á íþróttum, keppti með yngri flokkum Vals í knattspyrnu og var öflugur stuðningsmaður Stjörnunnar. Hann var mikill fjölskyldumaður og sóttist eftir því hafa alla strákana sína og tengdadætur ásamt barnabörnum í kringum sig.

Hann hafði sterkar taugar til Þingvallavatns og naut þess að kasta fyrir silung og leggja net. Bensi og Guðríður áttu sér athvarf í Sarasota og þar átti fjölskyldan margar góðar og eftirminnilegar samverustundir. Hann kunni vel við sig í hitanum og úti á golfvellinum kom í ljós keppnisskap sem hann fór þó vel með. Nokkur jólin dvöldum við öll fjölskyldan á skíðum í Austurríki, það voru dýrðardagar. Ég á Bensa margt að þakka og er óendanlega þakklát fyrir samfylgdina, ég var einstaklega heppin með tengdaföður. Blessuð sé minning þín.

Ágústa Arna Grétarsdóttir.

Húmor og léttleiki, hógværð og ótæmandi góðmennska eru orðin sem fyrst koma upp í hugann þegar ég reyni að lýsa því sem helst einkenndi afa Bensa.

Ég finn fyrir djúpu þakklæti fyrir okkar frábæru tíma saman og mun sakna þess að hlusta á afa þylja upp kímnar vísur, sitja í stofunni á Lindarflöt að spjalla um allt og ekkert á meðan við fengum okkur ís eða súkkulaði. Afi gerði engar kröfur um að diet-kókið væri kalt, það mátti vera ylvolgt, því aðalatriðið var að sitja saman og spjalla. Nú eða heyrast í síma oft í viku – stundum oft á dag, bara til að heyrast, sem endaði oftar en ekki með því að við komum saman og pöntuðum mat á Lindarflötina.

Það er stórt skarð skilið eftir þegar afi verður ekki lengur með í hversdagsleikanum. Stórar stundir fjölskyldunnar verða ekki þær sömu án hans því hann var ávallt miðjan.

Ógleymanlegar minningar tengjast ferðalögum með afa og ömmu. Ekki var hægt að hugsa sér betri ferðafélaga. Afi var alltaf léttur í lund og ef eitthvað kom upp á var hann ávallt með húmorinn og góðmennskuna að vopni. Gestrisni ömmu og afa og einstök umhyggja fyrir heilsu og hamingju barnabarnanna einkenndi allt viðmót og samskipti. Afi naut sín vel í sólinni á Flórída og sá til þess að engan vanhagaði um neitt og að öllum liði vel þegar komið var í heimsókn. Við nýttum tímann okkar saman svo sannarlega vel, vonandi verð ég svo heppin að fá að ferðast með mínum barnabörnum seinna í lífinu og segja þeim frá okkar ævintýrum.

Eitt sinn þegar ég kom á Lindarflötina hafði afi komið saumaðri ermi upp á handlegginn með húðflúrum. Þarna hafði hið ómögulega gerst að afi birtist með húðflúr. Skælbrosandi tók hann á móti mér og spurði hvort ég héldi ekki að vinir sínir yrðu hissa þegar þeir mættu á spilakvöldið á Lindarflötinni, sem var við það að byrja.

Alltaf fann afi leiðir til að koma öðrum til að brosa í bland við að gefa heilræði og veita stuðning í lífsins ólgusjó. Alla tíð var gott að geta leitað til afa sem ávallt af einlægum áhuga vildi hjálpa og styðja mann í lífinu. Það var eins og að hafa forgjöf út í lífið að eiga afa Bensa að. Hann var ástríkur, traustur og sönn fyrirmynd sem hafði mikil áhrif á alla sem honum kynntust.

Greinilegt var að ekkert veitti honum meiri gleði en að sjá fjölskylduna stækka.

Golfið og aðrar íþróttir, ekki síst velgengni Stjörnunnar í handbolta og fótbolta, áttu hug og hjarta afa alla tíð. Ég minnist þess að vera lítil stelpa í fanginu á honum í Ásgarði eftir góðan sigur Stjörnunnar. Áhangendur flykktust út á völlinn og mikill fögnuður braust út. Mitt í öllum látunum hrópaði einhver: „Hverjir eru bestir?“ Það vafðist ekki fyrir mér að svara hátt og snjallt: „Afi!“

Elsku afi, þú varst einfaldlega bestur.

Síðan fyrst ég sá þig hér

sólskin þarf ég minna;

gegnum lífið lýsir mér

ljósið augna þinna.

(Káinn)

Margrét Bjarnadóttir.

Afi Bensi var enginn venjulegur maður. Hann var í senn djúpvitur höfðingi og mikið góðmenni, blíður og umhyggjusamur. Ávallt með opinn faðminn, vildi fylgjast vel með lífi manns og verða að liði. Við fráfall hans streyma fram góðar minningar allt frá því ég man fyrst eftir mér. Þær eru allar um ráðagóðan, hlýjan, gjafmildan, góðhjartaðan og velviljaðan afa.

Það var hluti af daglegum veruleika uppvaxtarárin í Garðabænum að heyra stuttlega í afa, enda lagði hann alla tíð mikið upp úr því að vera í góðu sambandi við okkur barnabörnin og vildi gjarnan fá heimsókn á Lindarflötina, þar sem þau amma bjuggu saman í tæp 60 ár. Undantekningarlaust sló hann á létta strengi. Skipti engu um hvað við ræddum, alltaf gat afi notað húmorinn til að krydda samtalið og gera það áhugaverðara. Hann vildi fylgjast með hvernig gengi í skólanum eða vinnunni.

Eftir því sem árin færðust yfir hafði afi Bensi æ oftar samband til að fá lausn á smávægilegum tæknivandamálum. Stundum var það sjónvarpið, aðra daga tölvan eða síminn. Alltaf varð slík heimsókn um leið tilefni til að taka upp spjall um heima og geima. Afi var mikill fróðleiksbrunnur og gott að leita til hans með hvers kyns hugðarefni.

Á uppvaxtarárunum mínum fórum við oft saman í sumarbústaðinn til að leggja net eða veiða á stöng. Á leiðinni í sveitina var spurt um nöfn á trjám, fuglum og fjöllum. Aldrei þreyttist afi á að kenna og deila þekkingu, þótt ég hafi ekki alltaf sýnt sama áhugann og hann hafði á öllu því sem fyrir augu bar. Hann vildi örva áhuga á alls kyns málum og ögra manni til að spyrja spurninga um lífið.

Þolinmæði var afa í blóð borin og hann var á móti hvers kyns sóun. Þegar netin flæktust kenndi hann mér að taka mér tíma til að leysa hnútana, því annars kæmu göt í þau og maður á líka að fara vel með alla sína hluti. Í golfinu sýndi hann keppnisskap og skemmtilegan áhuga á að ná tökum á ólíkum höggum. Vipp og pútt voru hans sterka hlið. Við áttum draumastundir saman á golfvellinum, ekki síst á Flórída.

Þegar afi Bensi er nú horfinn yfir móðuna miklu finn ég fyrir djúpu þakklæti fyrir að hafa átt hann að og geta leitað til hans. Hann sem náði að kenna mér svo margt, jafnvel þótt mér tækist aldrei að kenna honum á sjónvarpið. Upp úr stendur hlý nærvera hans og umhyggja fyrir velferð og hamingju allra sem hann átti að. Það var ómetanlegt og mun fylgja mér alla tíð.

Hvíl í friði. Blessuð sé minning þín.

Benedikt Bjarnason.

Það er sárt og erfitt að kveðja afa Bensa. Elsku besti afi minn. Mér finnst mig vanta orðin til að lýsa því hversu mikilvægur og kær hann var mér. Hann var afar góður maður og frábær afi. Brosmildur og hlýr. Fyndinn og skemmtilegur. Örlátur, vitur og hógvær. Þegar ég hugsa um afa þá sé ég hann alltaf fyrir mér sitjandi í stólnum sínum á Lindarflötinni, við heimasímann að hringja í fólkið sitt, fjölskyldu og vini. Hann hringdi yfirleitt vikulega, ef ekki oftar, til að kanna hvernig ég hefði það, og sagði oftast: „Segðu mér eitthvað skemmtilegt“ Það gat hins vegar reynst þrautin þyngri að ná í hann símleiðis því það var alltaf á tali. Þegar ég náði loksins í gegn var yfirleitt svarað: „Elliheimilið, ertu að hringja til að sækja um pláss?“

Afi og amma áttu hlýlegt og fallegt heimili á Lindarflötinni. Ég hlakkaði alltaf til að heimsækja þau sem barn og líka á fullorðinsárum, því það var ekkert betra en að fara til þeirra, fá koss á kinn og spjalla um daginn og veginn. Ekki skemmdi fyrir að það var alltaf hægt að treysta á að það væri til eitthvað gott, súkkulaðimolar, bláber með rjóma og sykri, snúður eða eitthvert sætabrauð.

Afi hafði mikinn áhuga á þjóðlífinu og vildi sjá því ganga vel. Hann sat lengi í bæjarstjórn Garðabæjar og var virkur í félagsstörfum. Fótbolti, veiði, skíði og golf voru hans íþróttir. Ég hef alltaf litið upp til afa, dugnaðar hans og afreka. Hann hvatti mann ávallt áfram, í öllu sem maður tók sér fyrir hendur. Hann kenndi mér svo margt. Allt frá því að leggja net á Þingvallavatni og þekkja fugla þess yfir í að samgleðjast öðrum en ekki öfunda.

Það er erfitt að hugsa til þess að samtölin við afa verði ekki fleiri, að ég geti ekki notið samveru hans lengur. Á sama tíma hlýja ég mér við minninguna um allar gæðastundirnar með honum. Að tína jarðarber í garðinum á Lindarflöt, bláber á Þingvöllum. Horfa á fiskana vaka í vatninu. Sumarbústaðurinn, paradísin. Ferðast og sjá heiminn saman.

Vonandi er sumarlandið þitt fullt af hvítum og hlýjum ströndum eins og í Sarasota, en með sömu dýrðlegu kyrrð og við Þingvallavatn. Og nóg af rjómaís og bláberjum.

Þín afastelpa,

Kristín Jónsdóttir.

Ég kynntist Benedikt, eða Bensa, árið 2015 þegar ég og elsta barnabarn hans, Kristín Jónsdóttir, fórum að stinga saman nefjum. Hann átti reyndar innkomu inn í okkar fyrsta stefnumót en í miðjum hjólatúr á Ægisíðunni hringdi hann í Kristínu, sem eðlilega snarhemlaði til þess að svara símtalinu. Efni símtalsins var eitthvað á þá leið að Bensi hafði heyrt skemmtilegan brandara fyrr um daginn og taldi rétt að leggja hann inn í brandarasafnið með því að koma honum áleiðis til hennar. Brandarinn sjálfur er líklegast fallinn í gleymsku en framangreint lýsti Bensa ágætlega, hann lagði mikið upp úr því að halda góðum, einlægum og þéttum samskiptum við fjölskyldu sína, sem maður fann strax að var honum allt. Tveimur árum síðar þegar við Kristín áttum von á okkar fyrsta barni og hans fyrsta barnabarnabarni var um áramót sá siður að gestir í fjölskylduboði skrifuðu niður markmið sín og væntingar fyrir næsta ár. Það er mér minnisstætt að öll svör Bensa lutu að næsta hlutverki hans, langafi. „Ég hlakka til: að verða langafi“, „Ég ætla að vera betri: langafi“ o.s.frv. Honum auðnaðist svo að eignast fleiri langafabörn í kjölfarið og væntumþykjan og ástin á þeim var áberandi. Hann hafði ávallt gaman að því að bregða á leik með þeim litlu, með skemmtilegum orðaleikjum og kímni. Bensi var einmitt afar hnyttinn og það var aldrei langt í gamanmálið, allt fram á síðasta dag. Ég sjálfur öðlaðist aldrei þau forréttindi að fá að kynnast mínum öfum en þegar ég hugsa til baka síðastliðin 10 ár þá fékk ég vissulega að kynnast einum sem var alveg ekta. Traustur, hjálpsamur, úrræðagóður og forvitinn. Takk fyrir allar skemmtilegu samverustundirnar. Takk fyrir öll skemmtilegu samtölin og ráðleggingarnar. Takk fyrir allar súkkulaðirúsínurnar. Takk fyrir allt „afi Bensi“.

Rútur Örn Birgisson.

Benedikt Sveinsson frændi minn og góðvinur er til moldar borinn í dag. Það er mér nær óbærileg tilhugsun. Við vorum jafnaldrar, einungis 24 dagar skildu á milli okkar.

Við fæddumst og ólumst upp á Laugaveginum, gengum í Grænuborg, vorum saman í Litlu-Sandvík drengir og þótti gott og skemmtilegt að heimsækja gamlar frænkur okkar og fá pönnukökur. Þannig lærðum við og spiluðum bridds við Ragnhildi Pétursdóttur á Háteigi og Halldóru Bjarnadóttur. Það var leikur okkar að fylgjast með þegar hærri bílnúmer sáust á götum bæjarins.

Svo er mér það minnisstætt frá Litlu-Sandvík að Lýður bóndi sendi okkur að sækja kýrnar. Þar var ein kýr með horn, Murta. Við töldum að hún væri naut, reyndum að skilja hana frá og skilja hana eftir, en það gekk erfiðlega, því hún var forystukýrin. Og ekki bætti úr skák að hún var ættuð frá Háteigi.

Milli okkar var miklu meira en frændskapur. Það var djúp vinátta. Þannig að þegar mikið lá við, þá þótti mér gott að hringja í Benedikt og ræða málin við hann. Hann var jafnan tillögugóður, jákvæður og gagnkunnugur íslensku þjóðlífi. Það er mikils virði fyrir stjórnmálamann að eiga slíkan mann að trúnaðarvini.

Benedikt var hamingjumaður í sínu einkalífi. Hann barst ekki á og var ráðagóður að hverju sem hann gekk. Af þessum sökum var hann vinmargur og naut hvarvetna trausts. Hann var framsýnn og ræktarsamur í öllum þeim hlutverkum sem lífið fól honum, hvort sem það var í eigin fjölskyldugarði, bæjarfélaginu eða með því að beita sér í viðskiptalífinu. Lífið er fátæklegra eftir að hann er genginn og einmanalegt.

Þessar línur lýsa djúpri samúð með fjölskyldu Benedikts, Guðríði og afkomendum þeirra hjóna.

Halldór Blöndal.

Benedikt frændi minn er látinn. Ég hef þekkt hann alla mína ævi, stillilegan með glimt í auga, hjartahlýjan, hógværan, íhugulan, hollráðan og stríðinn. Aðrir verða til þess að fjalla um stórhug hans og umsvif í íslensku atvinnulífi, farsæla uppbyggingu sveitarfélags og þróun skóla- og íþróttamála þess. Og hann fær hlýjar kveðjur frá sínum góðu afkomendum og stóra frænd- og vinagarði.

Ég vil hins vegar þakka fyrir mig. Benedikt var einhver örlátasti maður sem ég hef þekkt. Ég er ein margra sem ítrekað báðu hann um stuðning við bæði menn og málefni. Hann hlustaði vel, spurði fáeinna spurninga og svo var málið afgreitt, stundum öðruvísi en ég hafði átt von á – en alltaf vel. Frá honum fór ég aldrei bónleið til búðar. „Er ekki best að skipta verkum,“ sagði hann, „ég afla fjárins og þú eyðir því.“ Þakka þér kæri velviljaði, launfyndni, heilsteypti og heiðarlegi frændi minn.

Guðrún Pétursdóttir.

Benedikt Sveinsson móðurbróðir minn er látinn. Bensi frændi hefur ávallt verið mér mjög kær og margar ljúfar æskuminningar tengjast samveru með Bensa og fjölskyldu hans. Ég minnist fjölskylduboðanna hjá Helgu ömmu og Sveini afa á Miklubrautinni, ferða í sumarbústað fjölskyldunnar við Þingvallavatn, silungsveiði með frændum mínum og síðast en ekki síst heimsókna til Bensa og Guðríðar í Garðabæ. Þegar foreldrar mínir brugðu sér af bæ fór ég gjarnan í pössun til Bensa og Guðríðar þar sem dekrað var við mig, ég fékk að ráða matseðlinum og lék mér við frændur mína. Þau Bensi og Guðríður tóku mér sem dóttur og vistin hjá þeim og strákunum var ævintýri í huga lítillar stelpu.

Bensi var mikill fjölskyldumaður og að hans frumkvæði hittist stórfjölskyldan árum saman í kringum jólin og spilaði félagsvist. Í fjölskylduboðum lék hann á als oddi, grínaðist og börnin dáðu hann. Vinátta mömmu og Bensa var náin og töluðu þau saman oft og lengi. Hennar missir er mikill og sár. Þegar ég var lítil vann mamma um tíma á lögfræðistofu Bensa. Þangað var gaman að koma og fá súkkulaði sem var sameiginlegt uppáhald okkar Bensa.

Bensi var hlýr, örlátur og velviljaður. Þegar Helga amma og Ranka ömmusystir mín voru hátt á níræðisaldri fór ég með þeim í frí til Flórída og dvöldum við hjá Bensa og Guðríði og nutum gestrisni þeirra. Síðastliðin 25 ár hef ég ásamt fjölskyldu minni búið í Garðabæ í næstu götu við Bensa og Guðríði. Það er ekki síst Bensa að þakka að við hjónin fluttum með börnum okkar í Garðabæinn en ég fékk skilaboð frá honum um að hús í hverfinu væri að fara í sölu. Við ákvörðun um kaup á húsinu skipti miklu að hér er gott samfélag fyrir börn og fullorðna, samfélag sem Bensi átti stóran þátt í að skapa.

Ég kveð Bensa frænda minn með væntumþykju og þakklæti. Við Stulli vottum Guðríði, Sveini, Nonna, Bjarna og fjölskyldum þeirra innilega samúð. Blessuð sé minning Bensa frænda.

Helga Jónsdóttir.

Ég kynntist Benedikt Sveinssyni í kringum dvöl georgíska Íslandsvinarins Grigols Matsjavarianis og Irmu konu hans hér á landi veturinn 1992-93. Davíð Oddsson hafði boðið þeim í kjölfar lesendabréfs sem Grigol skrifaði í Moggann og falið Benedikt að sjá til þess að þau myndi ekkert skorta. Grigol sat á Árnastofnun og þýddi m.a. Íslendingabók og Grænlendingasögu á georgísku. Við skeggræddum þýðingarnar og vorum sammála um að Ari fróði hefði talið hina „ermsku“ biskupa sem hingað komu vera frá Armeníu, suður af Georgíu.

Faðir minn hafði jafnan talað fallega um Benedikt frænda sinn, og hans hægláta og góðlega húmor – en samgangur milli fjölskyldnanna var þó nánast enginn vegna pólitísks klofnings eftir að pabbi gekk í raðir sovétvina á háskólaárunum og rauf þar með tengsl við fjölskyldu sína sem var innmúruð í Sjálfstæðisflokknum. Í æsku hafði pabbi átt ánægjuleg viðskipti við Svein Ben, m.a. tekið að sér silungsveiði fyrir hann austur við Þingvallavatn og Sog; keypti þá veiðistöng af Sveini og seldi honum aftur með hagnaði – sem var jafnóvænt fyrir þá báða enda var Sveinn ekki vanur að gefa eftir í viðskiptum eins og lesa má um í skemmtilegri ævisögu hans frá í fyrra eftir Steinar J. Lúðvíksson. Við Benedikt komum því að máli Grigols og Irmu úr ólíkum auðmagnsáttum vinstrimenningar og viðskipta. Það kom skýrt í ljós þegar menntamálaráðuneytið hélt kveðjuhóf fyrir þau og bauð þeim sem þau höfðu helst haft samneyti við: þekktum skáldum og menningarvitum af ýmsu tagi af vinstri vængnum og svo auðvitað þeirra efnahagslega velgjörðarmanni: Benedikt Sveinssyni. Mér þótti merkilegt að komast að því að Benedikt var alls ókunnugur þessum íslenska vinahópi Grigols og Irmu þannig að ég þurfti að segja honum deili á flestum. Árið 1996 bárust þau hörmulegu tíðindi frá Georgíu að Grigol hefði látist af áverkum sem hann hlaut í bílslysi og eftir það fluttist Irma með Tamar dóttur þeirra hingað til lands – og naut þá áfram hinnar traustu vináttu Benedikts og Guðríðar sem aðstoðuðu þær mæðgur dyggilega við að koma undir sig fótunum hér á landi.

Þegar pabbi dó 2005 þótti Benedikt kominn tími til að brúa þá fjölskyldugjá sem kalda stríðið hafði skapað. Í erfidrykkjunni bauð hann Baldri bróður og mér að taka upp silungsveiðiþráðinn á milli fjölskyldna okkar við Þingvallavatn — þar sem hann réði veiði fyrir sumarbústaðalandi sínu við sunnanvert vatnið. Við þáðum þetta góða boð og eftir það urðu símtöl frá Benedikt fastur liður þar sem hann bauð okkur til veiða og gekk þá fast eftir því að fá sem gleggstar frásagnir af aflabrögðum, vakandi fiskum og tökustöðum. Eftir fráfall hans sendi Jón sonur hans mér póstkort sem Baldur afi hafði sent Sveini „litla“ frænda sínum frá Kanada í kringum 1910 með ýkjumynd af veiðimönnum með risavaxinn bassa á öngli: „Litli frændi! Biddu nú pabba þinn [bróður Baldurs] að kveða fyrir þig um stóra fiskinn á myndinni: ‘Fagur er fiskurinn, flýgur hann í sjónum’. Kysstu mömmu þína frá mér. Þinn Baldur.“ Blessuð sé minning Benedikts Sveinssonar.

Gísli Sigurðsson

Kærleikur kemur fyrst upp í hugann þegar við minnumst besta vinar okkar Benedikts Sveinssonar. Við kynntumst Bensa fyrir um hálfri öld, þegar við fluttum í Garðabæ, þar sem Bensi og Guðríður bjuggu. Bensa var mjög hugleikið það hlutverk að gera Garðabæ að fyrirmyndarsamfélagi sem svo sannarlega hefur tekist.

Hann lagði mikla áherslu á æskulýðs- og forvarnarstarf og taldi að því væri best borgið með íþróttafélögum bæjarins og öllu því frábæra áhugafólki og foreldrum sem þar starfa. Það er óhætt að segja að sú sýn hafi reynst vel.

Að kveðja þennan öðling og nánasta vin er erfitt, því er ekki að neita. Nokkru eftir að við kynntumst Bensa þá fóru þau að draga sig saman dóttir okkar Þóra og yngsti sonur hans Bjarni. Ekki var það til að minnka sambandið á milli okkar, þvert á móti. Þau gáfu okkur barnabörn og barnabarnabörn sem hafa öll átt þátt í því að styrkja fjölskylduböndin og tryggja trausta vináttu.

Að gæða lífið minningum, sem nauðsynlegt er að safna, höfum við átt með Bensa og Gúí. Við áttum óteljandi stundir í Flórída þar sem við Bensi stunduðum golf af kappi. Fórum m.a. í golfskóla sem við nutum og svo á Ljúfling í Garðabæ.

Við söknum þessa mikla öðlings sem var búinn svo miklum kostum og samhryggjumst Guðríði og fjölskyldu innilega. Megi Guð styrkja ykkur á sorgarstund.

Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?

Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

(Valdimar Hólm Hafstað,
Karl Ó. Runólfsson.)

Baldvin og Margrét.

Genginn er mætur maður. Vissulega í hópi þeirra bestu og setti mark sitt mjög á samtíð sína. Hann fæddist ári fyrir styrjöldina miklu og ólst upp í andrúmi endurreisnarinnar eftir stríð. Það hefur vafalaust mótað persónuleikann. Árin eftir styrjöldina efldu sjálfsbjargarhvötina og mótuðu án efa fyrirhyggjuna, útsjónarsemina og drifkraftinn, sem einkenndi hann alla tíð. Þannig kemur hann, og raunar kynslóð eftirstríðsáranna, mér almennt fyrir sjónir og þannig hefur hún treyst stoðir þess samfélags sem við nú búum svo vel að.

Benedikt Sveinsson var í framvarðarsveit þeirra sem að uppbyggingunni komu hér á landi. Hann var áberandi í íslensku atvinnulífi um áratugaskeið og var í stjórnarforystu í fjölmörgum af öflugustu fyrirtækjum landsins. Þess utan var hann oddviti sjálfstæðismanna í Garðabæ um árabil, lét sig íþróttamál mjög skipta og hefur löngum verið öflugur bakhjarl Umf. Stjörnunnar. Hann var einstaklega heilsteyptur maður, hreinskiptinn svo af bar, úrræðagóður og fylginn sér í þeim málefnum sem stóðu hjarta hans nærri. Og ætíð var gamansemin skammt undan allt til enda.

Mér er í fersku minni þegar fundum okkar bar saman fyrst á miðju sumri fyrir hálfum mannsaldri. Hann kallaði mig til fundar til þess að ræða málefni sveitarfélaga en hann hafði þá nokkru áður tekið að sér forystuhlutverk í bæjarstjórn Garðabæjar. Manninn hafði ég aldrei hitt en þekkti til hans af umfjöllun á opinberum vettvangi. Hafði af honum heyrt sem athafnamanni í íslensku atvinnulífi sem fór með mikil völd á mörgum sviðum og var í mínum huga lifandi ímynd íslenskra kapítalista. Ég lét það ekki trufla mig og reyndi af bestu getu að mæta honum sæmilega keikur.

Mynd sú sem jafnan er dregin upp af slíkum mönnum var önnur en ég átti eftir að reyna. Við fyrstu kynni var ljóst að hér var á ferð óvenjuhlýr og vel meinandi maður. Hann heilsaði léttur í fasi með traustu handtaki og góðmennskan geislaði af honum. Þannig hefur hann komið mér fyrir sjónir allar götur síðan: traustur og umhyggjusamur fyrir samfélagi sínu og samferðamönnum og það sem mest er um vert – stálheiðarlegur í öllum samskiptum. Á hálfri mannsævi höfum við átt traust samstarf og ásamt breiðum hópi atorkumanna komið að mörgum og ólíkum verkefnum. Þar hefur aldrei borið skugga á. Ýkjulaust – ekki eitt andartak. Það er með miklum ólíkindum og er fyrst og síðast til sannindamerkis um það hvílíka mannkosti Benedikt hefur haft að geyma.

Við frekari kynni sannreyndi ég að hann lét sér mjög annt um samfélag sitt og var ósínkur á að veita liðsinni þegar eftir því var leitað. Margoft varð ég vitni að því þegar hann lagði fram hjálparhönd af einlægni og örlæti. Og það veit ég að aldrei hvarflaði að honum að hafa á því orð. Öðru nær, allt fór það hljótt og um það átti ekki að ræða. Honum var ljóst að umhyggjan kemur frá hjartanu og þar er hún best geymd. Þá kynntist ég því hvernig gott fólk í Garðabæ hjálpaði þeim að ganga uppréttir sem lent höfðu undir of þungum böggum.

Benedikt kvaddi eftir snarpa baráttu. Undir lokin átti ég með honum og Guðríði eiginkonu hans ljúfa stund sem seint mun úr minni líða. Það eru forréttindi að hafa kynnst slíkum heiðurshjónum og ómetanlegt að hafa fengið að njóta velvildar þeirra, trúnaðar og trausts. Við ævilok hans er ekki ofmælt að segja að Ísland sjái á bak einum sinna bestu sona. Með þakklæti í huga kveð ég vin minn og samverkamann og færi fjölskyldu hans samúðarkveðjur okkar Hallveigar og minna.

Ingimundur Sigurpálsson

Í bókinni „Skíni Stjarnan“ segir höfundurinn, Steinar J. Lúðvíksson: „Á engan er hallað þótt sagt sé að Benedikt hafi haft meiri áhrif en nokkur annar á styrkingu félagsins og íþróttalíf bæjarins þar sem hann beitti sér ákveðið fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja og auknum fjárhagslegum stuðningi bæjarins við félagið svo sem nánar er fjallað um í bókinni,“ og eru þetta örugglega orð að sönnu. En Benedikt virðist koma fyrst að starfsemi Stjörnunnar árið 1973 er hann hafði forgöngu um að finna félaginu formann einu sinni sem oftar.

Benedikt var formaður byggingarnefndar bæði við íþróttamiðstöðina Ásgarð og sundlaugina. Hann var í forsvari fyrir uppbyggingu knattspyrnuvalla bæði á Ásgarðssvæðinu og við Hofsstaðaskóla og hann hafði einnig frumkvæði að því að koma upp einum fyrsta æfingavelli sem lagður var gervigrasi á Íslandi við Ásgarð. Sagt er að Benedikt hafi spurt þáverandi þjálfara Stjörnunnar, Jóhannes Atlason, hvort honum þætti góð hugmynd að fá æfingavöll lagðan gervigrasi og fengið jákvætt svar frá honum. „Þá látum það gerast,“ svaraði Benedikt.

Benedikt var þekktur fyrir að láta hlutina gerast hvað varðaði uppbyggingu og eflingu alls íþróttastarfs í Garðabæ. Hann, ásamt Erling Ásgeirssyni, hafði forgöngu um að Gunnar Einarsson var ráðinn íþróttafulltrúi í Garðabæ og jafnframt þjálfari mfl. Stjörnunnar í handknattleik. Var það mjög dýrmætt skref í glæsilegu uppgangskeiði handknattleiksins í Garðabæ þar sem leiðin lá úr neðri deildum í þá efstu þar sem félagið hefur verið lengst af síðan.

Árið 1986 tók Benedikt sæti í stjórn knattspyrnudeildar félagsins og hófst þá uppgangstímabil íþróttarinnar hjá félaginu bæði í yngri flokkum og meistaraflokkum. Hann hafði forgöngu um að landsliðsmennirnir Árni Sveinsson og Sveinbjörn Hákonarson auk Rögnu Lóu Stefánsdóttur komu frá Akranesi til Stjörnunnar og skipti það félagið sköpum á leið sinni í fremstu röð bæði karla og kvenna.

Þótt Benedikt hafi ekki setið lengi sem formlegur stjórnarmaður hjá Stjörnunni má segja að hann sé fremstur meðal jafninga í baklandi félagsins í áratugi. Ég leyfi mér að fullyrða að hann var velgjörðarmaður félagsins. Hann var ekki einungis til ráðgjafar og var styrkur fyrir þjálfara og forystumenn félagsins heldur lagði hann einnig fjármuni til reksturs félagsins, bæði persónulega og gegnum þau fyrirtæki sem hann hafði aðkomu að.

Í sínu daglega lífi stundaði Benedikt viðskipti og var í forystu fyrir stórfyrirtæki. Hann hafði líka einlægan áhuga á samfélagsmálum og lét samfélagið Garðabæ njóta þess.

Benedikt var gerður að heiðursfélaga Stjörnunnar árið 2014. Haustið 2023 kom hann í síðasta sinn í Stjörnuheimilið og mætti þar ásamt öðrum heiðursfélögum til að hlusta á fyrirlestra Patreks Jóhannessonar og Jökuls Elísabetarsonar þar sem framtíð félagsins bar ekki síst á góma.

Ungmennafélagið Stjarnan þakkar Benedikt Sveinssyni samfylgdina og fyrir hans mikla og merka framlag til félagsins.

Við sendum Guðríði, Bjarna, Sveini og Jóni innilegar samúðarkveðjur.

Sigurður Guðmundsson, formaður Stjörnunnar.

Benedikt Sveinsson, góður vinur og frábær samstarfsmaður minn til áratuga, hefur nú lagt árar í bát.

Leiðir okkar Benedikts lágu fyrst saman árið 1974 þegar unnið var að því að kaupa fyrsta skip Nesskipa.

Þá hafði Benedikt, sem á þeim tíma starfaði við lögmennsku og skipasölu, samband og bauð fram aðstoð sína enda hafði hann tengsl við skipasala víða erlendis. Niðurstaðan var sú að við keyptum finnskt skip fyrir hans milligöngu sem var gefið nafnið MS Suðurland.

Svo fór að Benedikt kom inn sem hluthafi og varð einn af tólf stofnendum fyrirtækisins. Aðrir voru faðir minn, tveir bræður og skipstjórnarmenn sem ég hafði verið samskipa á mínum sjómannsferli.

Með sínu framlagi varð Benedikt annar stærsti hluthafinn, næstur á eftir þeim sem setur þessar fátæklegu línur á blað. Starfaði Benedikt sem stjórnarformaður Nesskipa um árabil.

Allan þann tíma sem ég stóð að rekstri Nesskipa áttum við Benedikt náið samstarf. Segja má að við höfum verið gott teymi og bætt hvor annan upp.

Ég kom með þekkinguna frá sjónum sem skipstjóri og hann sem öflugur og úrræðagóður lögmaður sem var vel kynntur í íslensku viðskiptalífi.

Styrkleikar Benedikts voru margir en sérstaklega má nefna hvað hann var fljótur að setja sig inn í hlutina, greina vandamál og stuðla að góðum lausnum.

Nesskip keyptu, seldu og endurnýjuðu skipaflotann í gegnum tíðina. Benedikt reyndist þar góður ráðgjafi og gengu skipaviðskipti Nesskipa vel og voru farsæl og átti hann sinn þátt í því.

Í öllum samskiptum hafði Benedikt góða nærveru. Hann gat tekið sér tíma til að meta hlutina og skoða frá ýmsum hliðum, en þegar hann var búinn að átta sig á stöðunni tók hann ákvörðun sem stóð.

Hann hafði góða kímnigáfu og öll samskipti voru góð. Hvort sem það voru formlegir fundir, samkvæmi eða laxveiði sem við stunduðum saman í áraraðir. Þar var Benedikt ávallt hrókur alls fagnaðar og gerði alla samveru ánægjulega.

Þegar ég lít til baka þá var það mikið gæfuspor að hafa kynnst þessum heiðursmanni og hans fólki.

Við Ólöf sendum Guðríði og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðmundur Ásgeirsson.

Mikill sóma- og heiðursmaður, Benedikt Sveinsson, hefur nú kvatt þetta jarðlíf og skilur eftir sig söknuð en um leið góðar minningar og mikinn árangur á mjög mörgum sviðum. Hann var hjartahlýr maður sem hafði ekki þörf fyrir að berast á. Hann rétti mörgum hjálparhönd án þess að þurfa að draga athyglina að sjálfum sér eða krefjast þakklætis.

Benedikt var forystumaður sjálfstæðismanna í Garðabæ til margra ára, formaður bæjarráðs 1987-1997 og átti stóran þátt í að móta það góða samfélag sem þar er. Hann var aðalbaráttumaður fyrir m.a. byggingu Fjölbrautaskólans í Garðabæ og valdi honum staðsetningu og byggingu íþrótta- og annarra skólamannvirkja í Garðabæ. Þessi mannvirki bera vott um stórhug, áræði og framsýni Benedikts Sveinssonar.

Í „kennarafótboltanum“ sem spilaður var í mörg ár tvisvar í viku í Ásgarði í Garðabæ var haft á orði að Benedikt væri alltaf á réttum stað á réttum tíma, skoraði grimmt og spilaði bara sóknarleik. Ekki ósvipað og í lífinu sjálfu. Ég kynntist Benedikt fyrst þegar ég var ráðinn íþrótta- og æskulýðsfulltrúi í Garðabæ 1980 og þjálfari Stjörnunnar í handknattleik. Það var mikið gæfuspor fyrir mig að kynnast Benedikt. Allar götur síðan við kynntumst áttum við fjölmarga fundi og spjall, aðallega um með hvaða hætti best væri hlúð að fólkinu í bænum og farsæld þess. Hann var hvetjandi, gaf góð ráð og gat sagt nei eða já afdráttarlaust á sinn milda hátt. Hann lá ekki á skoðun sinni. Öll framganga hans bar merki um mikla visku og dýpt um leið og hann var mannasættir. Hann hafði einstaka kímnigáfu og tilsvörin voru oft stutt en hnitmiðuð. Benedikt hafði einlægan áhuga á öllu íþróttastarfi og það var ósjaldan að hann hringdi eftir leiki hjá Stjörnunni og vildi fara yfir gang leiksins og hvað mátti betur fara þegar leikir töpuðust. Það er óhætt að fullyrða að Benedikt Sveinsson hafi verið einn fremsti stuðningsmaður Stjörnunnar fyrr og síðar.

Eftir að ég tók við sem bæjarstjóri Garðabæjar 2005 áttum við Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs Garðabæjar til fjölda ára, marga formlega „vöfflufundi“ með Benedikt til að ræða um bæjarins gagn og nauðsynjar. Ég þakka samfylgdina í gegnum tíðina og þau góðu áhrif sem nærvera hans hafði. Megi góður drengur í friði fara. Við Sigga vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Gunnar Einarsson.

Fallinn er frá Benedikt Sveinsson, góður félagi og mikill leiðtogi okkar Garðbæinga.

Kynni okkar Benedikts hófust er hann slóst í hóp okkar áhugamanna um undirbúning að stofnun sjálfstæðs framhaldsskóla í Garðabæ og lét Benedikt fljótt til sín taka sem oddviti meirihluta bæjarstjórnar og formaður skólanefndar. Nutum við mikillar þekkingar hans á fjölmörgum sviðum og góðrar framsýni. Mál þetta átti erfitt uppdráttar því að margir voru mótfallnir því að stofnaður yrði framhaldsskóli í bænum. Hafnfirðingar börðust gegn hugmyndinni og töldu að Flensborg ætti að þjóna bæði Hafnarfirði og Garðabæ. Málið gekk svo langt að lögfræðingur menntamálaráðuneytisins ritaði greinargerð þar sem hann taldi óskynsamlegt að stofna sjálfstæðan framhaldsskóla í Garðabæ og það væri jafnframt ólöglegt. Mér er það minnisstætt þegar ég sá Benedikt lesa greinargerðina. Svipur hans harðnaði smám saman við lesturinn þar til hann stóð upp og sagðist þurfa að bregða sér í ráðuneytið. Eftir stuttan og góðan fund hans með Ragnhildi Helgadóttur, þáverandi menntamálaráðherra, var ákveðið að stofna skólann. Í kjölfarið var gerður samningur á milli Garðabæjar og menntamálaráðuneytis hinn 1. ágúst 1984 sem varð þá stofndagur Fjölbrautaskólans í Garðabæ.

En Benedikt lét ekki þar við sitja, hann kom á fót byggingarnefnd FG því að skólinn var í upphafi í gömlu og óhentugu húsnæði við Lyngás og nú skyldi skólinn fá nýtt húsnæði.

Við vorum mörg sem töldum að nýja húsnæðið ætti að vera í landi Sveinatungu, nálægt gatnamótum Vífilsstaðavegar og Hafnarfjarðarvegar. Benedikt var því algjörlega andvígur. Skólinn ætti að fá glæsilega byggingu á fallegum stað í bænum. Hann valdi skólanum stað við Arnarneslæk á milli Arnarness og Hofsstaðamýrar og það varð úr að FG fékk glæsilega byggingu á þessum fallega stað. Góð framsýni Benedikts í þessu máli skipti sköpum.

Benedikt var ævinlega mjög umhugað um ungt fólk í bænum. Hann hringdi oft í mig þegar ég var orðinn skólameistari FG og spurði hvernig starfið gengi og einnig um líðan nemenda. Jafnan spurði hann hvort hann gæti orðið að einhverju liði.

Ég votta Guðríði, eiginkonu Benedikts, innilega samúð, sonum þeirra, Jóni, Sveini og Bjarna og fjölskyldum þeirra og öllum ástvinum. Blessuð sé minning um afar greiðvikinn og heilsteyptan mann.

Þorsteinn H. Þorsteinsson.

Fáir einstaklingar, ef nokkrir, hafa skilið eftir sig dýpri spor í þróunarsögu Garðabæjar en Benedikt Sveinsson. Með þátttöku sinni, ekki aðeins í bæjarstjórn heldur í bæjarlífinu öllu, lagði Benedikt samfélaginu hér svo mikið til að áhrifa hans mun gæta um ókomna tíð.

Árið 1966 fluttist Benedikt með fjölskyldu sinni í nýbyggt hús við Lindarflöt í Garðahreppi og átti þar heimili sitt til dauðadags. Hann var kjörinn í bæjarstjórn Garðabæjar árið 1986 en þar átti hann sæti fram til ársins 1998. Alls var Benedikt formaður bæjarráðs í tíu ár.

Þegar Benedikt kom fyrst inn í bæjarstjórn Garðabæjar var bærinn enn í mótun og mörgum verkum að sinna. Alveg frá upphafi lagði Benedikt áherslu á uppbyggingu íþróttamannvirkja á Ásgarðssvæðinu í Garðabæ, byggingu íþróttahúss og sundlaugar. Eftir því var tekið að hann fylgdi sjálfur framkvæmdum eftir og kom næstum daglega á svæðið. Sundlaugin var tekin í notkun í apríl 1989 og framkvæmdum lokið á svæðinu sama ár. Jafnhliða stóð Benedikt fyrir því að húsnæði Flataskóla og Garðaskóla var aukið og endurbætt.

Benedikt var ekki aðeins í mun að byggja og bæta heldur einnig að gæta fyllstu hagsýni og á hans tíma batnaði fjárhagsstaða Garðabæjar verulega og komst í það horf sem þekkst hefur síðan. Hann beitti sér einnig fyrir samstarfssamningum við frjáls félög í bænum, sem leiddi af sér fjárframlög til Stjörnunnar, skátafélagsins Vífils og önnur félög. Garðabær var langt á undan sinni samtíð í þessum efnum í hans tíð.

Á bak við tjöldin barðist Benedikt fyrir málefnum Fjölbrautaskólans í Garðabæ og hafði mótandi áhrif á að nýbygging skólans reis í Hofsstaðamýri upp úr 1990. Þetta er mér sérstaklega minnisstætt þar sem ég var í forsvari fyrir nemendafélag á þessum tíma og hreifst af atorku mér eldri manna.

Þótt Benedikt nyti þess allan tímann sem hann sat í bæjarstjórn að vera þar í meirihlutaflokki sáust þess ekki merki í samskiptum við aðra sem sátu í bæjarstjórn eða komu að málum á einn eða annan hátt. Hann lagði áherslu á samstöðu og hafði einstakt lag á að vinna með fólki og taka tillit til skoðana annarra.

Benedikt hafði hlýja og trausta nærveru og reyndist mér einstaklega vel. Ég minnist sérstaklega nokkuð reglulegra samskipta okkar þegar ég var formaður knattspyrnudeildar Stjörnunnar. Á sigurstundum eða þegar á móti blés hringdi hann gjarnan í mig. Samtölin einkenndust af einskærum áhuga hans á málefnum félagsins, innsýn í verkefnin, velvild og alltaf kom hvatning til dáða í enda samtals eða símtals. Hið sama átti við eftir að ég tók við starfi bæjarstjóra. Hann var hvetjandi og styðjandi, jafnvel þótt heilsunni hefði hrakað. Hann spurði mig gjarnan frétta af Guðrúnu frænku sinni, eiginkonu minni, og hafði einlægan áhuga á að heyra fréttir af vinum og vandamönnum.

Benedikt Sveinsson var drengur góður með hlýtt hjarta. Hann kom mörgum til aðstoðar og hjálpar sem með þurftu. Þau mál fóru jafnan hljótt.

Við Garðbæingar minnumst hans með hlýju og þökk.

Með kveðju frá Garðabæ,

Almar Guðmundsson,
bæjarstjóri Garðabæjar.

Enn er höggvið skarð í spilaveröld okkar félaga og nú við fráfall Benedikts Sveinssonar, sem var stofnfélagi í hópnum, líklega árið 1955 eða svo, ásamt þeim Kristni Einarssyni sem er látinn, Skúla J. Pálmasyni og Stefáni Má Stefánssyni, þá allir skólafélagar í MR og síðar í lagadeild HÍ og áfram að mörgu leyti í lífi og starfi. Nokkru síðar veittist Pálma R. Pálmasyni innganga í þennan eðla flokk og enn síðar Jónasi heitnum Aðalsteinssyni.

Að líkum lætur að landsins gagn og nauðsynjar voru rædd við spilaborðið og sýndist sitt hverjum, enda viðhorf býsna mismunandi svo og aðstæður og áherslur æði breytilegar. Slíks gætti þó lítt í spilamennskunni, sem ætíð var af fullri einurð og hörku þar sem ekkert var gefið eftir. Við eftirlifendur sitjum sem fyrr eftir með „svarta Pétur“ við fráfall spilafélaga okkar og söknum vinar í raun.

„Ben“, eins og við nefndum hann okkar í milli, var mjög áhugasamur um menn og málefni og fylgdist vel með því sem hann hafði áhuga á, sem var æði margbreytilegt og fjölþætt. Við minnumst hans sem góðs vinar til margra ára. Samverustundir við hann voru margar. Óhætt er að segja að framkoma hans hafi ávallt einkennst af hófsemd, velvild og tryggð. Minningin um góðan dreng lifir í hugum okkar.

Stór fjölskylda stendur að baki Benedikt sem var honum afar kær. Við félagar þökkum Guðríði margan góðan bitann sem hún hefur borið í okkur á spilakvöldum í áranna rás og vottum henni og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð við lát Benedikts.

Pálmi R. Pálmason,
Skúli Jón Pálmason og Stefán Már Stefánsson.

Það var í júlí 1999 sem mér bauðst að hitta Einar Sveinsson forstjóra Sjóvár, tilgangur fundarins var að kynna honum þá hugmynd að Sjóvá myndi fjárfesta ásamt mér og fleirum í kaupum á gamalgrónu fyrirtæki sem þá var í söluferli. Félagið var Bílanaust sem stofnað var 1962 sem er einmitt fæðingarár mitt.

Einar tók vel á móti þessum unga manni sem hann þekkti ekkert til. Eftir að hafa dregið upp mynd af þessum kaupum sagði Einar: „Mér finnst þetta frekar lítil fjárfesting fyrir okkur og ekki líklegt að þetta verði samþykkt. Ég mun þó bera þetta undir stjórnarformanninn, sem er reyndar eldri bróðir minn.“

Ég hafði árum saman lesið um manninn Benedikt Sveinsson sem var lýst sem mjög valdamiklum manni sem sæti í stjórnum stórra fyrirtækja og léti til sín taka.

Í stuttu máli hringdi Einar í mig fáum dögum síðar og tjáði mér að Benedikt hefði sýnt málinu meiri áhuga en hann átti von á. Það væri því komin samþykkt fyrir því að Sjóvá myndi kaupa fjórðungshlut á móti öðrum hluthöfum. Þetta dugði til þess að okkar litli hópur gat gert tilboð sem á endanum var samþykkt og kaupin á Bílanausti gengu í gegn í byrjun ágúst 1999.

Þegar kom að því að skipa félaginu nýja stjórn var óskað eftir því að ungur lögmaður, Bjarni Benediktsson, kæmi í stjórnina fyrir þá hluthafa sem ekki störfuðu við reksturinn. Það var auðsótt.

Benedikt Sveinsson sjálfan hitti ég í fyrsta skipti í september 1999. Hann kom mér fyrir sjónir sem rólegur og yfirvegaður maður sem ræddi aðalatriði mála. Hann var vanur að vinna með öflugum stjórnendum sem þurftu ekki tilsögn í einstaka efnisatriðum.

Síðar meir þegar við kynntumst betur og töluðum saman löngum stundum kom í ljós hversu grunnt var á húmornum og lífsgleðinni. Hann var í samskiptum okkar afar skemmtilegur maður sem deildi með mér áhuga á viðskiptalífinu og bílum.

Okkur heppnaðist nokkrum sinnum að spila saman golf í Flórída og eiga þar góðar stundir í mat og drykk eftir sólríkan golfhring. Benedikt var höfðingi heim að sækja.

Aldrei sá ég Benedikt glaðari en einmitt þegar börn og barnabörn þeirra hjóna voru með þeim í sólinni vestra og hann að snúast með fullan bíl af barnabörnum, þá var oft öllum boðið upp á ís.

Ég man vel að hann átti við mig allnokkur símtöl þegar hann var að velta fyrir sér að endurnýja Land Cruiser-bíl sem hann átti. Þar toguðust á þau sjónarmið að gamli jeppinn ætti talsvert eftir en nýr svona bíll var hins vegar að kalla til hans. Ég hvatti hann að sjálfsögðu til að endurnýja.

Ég veit um ótal dæmi þess að Benedikt aðstoðaði fólk sem átti um sárt að binda en ávallt án þess að um það væri fjallað. Hann sóttist ekki eftir að koma fram í fjölmiðlum og vildi helst fá að starfa án þess.

Benedikt barst aldrei á í sínu lífi og gerði sér far um að fara vel með fé. Hann var maður þar sem handaband dugði til þess að samningar væru efndir, hvort sem þeir urðu síðar skriflegir eða ekki.

Benedikt hafði mikil og varanleg áhrif til góðs á líf mitt og fyrir það er ég honum þakklátur.

Sonum hans og ættingjum öllum votta ég samúð mína.

Hermann Guðmundsson.

Ég minnist Benedikts Sveinssonar, sem nú er fallinn frá, með hlýju. Ég kynntist Benedikt þegar ég var um 10 ára gömul, en hann og faðir minn Stefán Hirst ráku saman lögmannsstofu í Austurstræti 18 um skeið. Ég hafði mjög gaman af því að koma við í Austurstrætinu og heilsa upp á pabba minn þarna í hringiðu bæjarlífsins og tók gjarnan vinkonur mínar með. Lögmennirnir höfðu auðvitað nóg annað að starfa en að rabba við telpuhópinn, en ég minnist þess sérstaklega hvað Benedikt var alltaf indæll og ljúfur í okkar garð. Nær daglega kom Sveinn faðir Benedikts til hans á skrifstofuna og ég man vel eftir honum þar sem hann sat í stórum leðurstól andspænis syni sínum og þeir ræddu málefni líðandi stundar.

Við fjölskyldan vorum stundum boðin heim til þeirra hjóna, Benedikts og Guðríðar Jónsdóttur, á Lindarflötina. Guðríður þótti mér ein fegursta kona sem ég hafði augum litið og hjá henni mætti mér sama elskulega viðmótið og hjá Benedikt. Synir þeirra, Jón og Sveinn, voru nokkru yngri en ég en sá yngsti, Bjarni, síðar formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, var þá nýfæddur og svaf úti í vagni. Svo líða nokkrir áratugir. Ég er kosin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Bjarni Benediktsson sonur Benedikts er formaður flokksins og leiðir okkar Benedikts fara að liggja saman á nýjan leik á alls kyns fundum og samkomum sem haldnar voru á vegum flokksins. Þá mætti mér sama alúðin af hálfu Benedikts og þegar ég var lítil stúlka. Stjórnmál geta verið mikill darraðardans, flokksmenn taka þingmenn reglulega á beinið eins og gengur og gerist í öllum stjórnmálaflokkum. Í þeim ólgusjó var Benedikt vanur að víkja að mér hughreystandi orðum með hlýlegu handabandi sem mér þótti afar vænt um.

Elín Hirst, fyrrverandi alþingismaður
og fréttastjóri.

Við andlát kærs vinar og samstarfsmanns, Benedikts Sveinssonar, reikar hugurinn allt til þess tíma er við kynntumst fyrst. Það var fyrir margt löngu á vettvangi Umf. Stjörnunnar þar sem ungir synir okkar lögðu stund á knattspyrnu og handbolta. Við Benedikt ásamt Steinari J. hófum að aðstoða við rekstur unglingastarfsins og síðan við rekstur og skipulag félagsins í heild. Hér naut Benedikt sín til fulls; stórhuga, úrræðagóður og með ítök víða. Rifjuðum við oft upp margar dýrmætar minningar frá þessum tíma, nú síðast í júní sl. er við hittumst nokkrir félagar í hádegisverði. Stjarnan heiðraði Benedikt með því að sæma hann gullmerki félagsins með lárviðarsveig og útnefna hann heiðursfélaga á árinu 2014. Einnig hlaut hann gullmerki ÍSÍ og Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Benedikt gekk í Rótarýklúbbinn Görðum 1976 og gegndi þar trúnaðarstörfum; var forseti klúbbsins 1992-1993 og var Paul Harris-félagi.

Benedikt hóf snemma þátttöku í starfi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Hann var um tíma formaður Sjálfstæðisfélagsins og átti sæti í nefndum og sinnti trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Við sveitarstjórnarkosningarnar 1986 var hann í fyrsta sinn í framboði til sveitarstjórnar í Garðabæ. Ég tel næsta víst að það hafi verið að tilstuðlan Benedikts að mér var þá boðið 5. sæti á listanum, sem ég þáði. Skemmst er frá því að segja að að afloknum kosningum varð Benedikt formaður bæjarráðs sem hann var síðan óslitið þar til hann lét af störfum í bæjarstjórn Garðabæjar 1998. Ég starfaði með Benedikt í 10 ár í bæjarráði og var þar varaformaður, sem var mér mikill og góður skóli sem nýttist mér vel er ég tók við af honum sem formaður bæjarráðs. Náið samstarf okkar þróaðist með tímanum í trausta og góða vináttu sem varði allt þar til yfir lauk.

Benedikt var búinn miklum mannkostum. Mér fannst alltaf að hann starfaði í anda hinna gömlu einkunnarorða Sjálfstæðisflokksins; réttsýni, mannúð og mildi. Margir leituðu til hans með hin ýmsu mál er upp koma í lífinu. Hann leitaðist við að greiða götu fólks eftir fremsta megni. Hann trúði á að allir ættu að fá annað tækifæri og starfaði í samræmi við það.

Benedikt var mikill fjölskyldumaður og synir hans og þeirra fjölskyldur áttu hug hans allan sem og systkini hans. Frænd- og vinagarður hans var stór. Hann átti mjög stórt og traust bakland.

Benedikt skilur eftir sig stórt og glæsilegt minnismerki sem er Garðabær dagsins í dag. Hann lagði upp stóru myndina með því að ráða rétta fólkið í yfirstjórn bæjarins og koma skipulagi og aga á fjármál bæjarins. Áhersla var lögð á skóla- og íþróttastarf og byggingu tilheyrandi mannvirkja. Það er sá grunnur sem samfélagið í Garðabæ stendur á í dag.

Við Erla færum Guðríði og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Við kveðjum kæran vin með söknuði.

Erling Ásgeirsson.

Hlýr, hjálpsamur og hnyttinn eru orðin sem mér koma fyrst í hug þegar ég hugsa til samskipta okkar Benedikts Sveinssonar í gegnum árin. Ég var frekar fáfróður um ýmislegt sem tengdist sjávarútveginum og mönnum og málefnum honum tengdum þegar ég tókst á hendur störf í þeim atvinnuvegi á unga aldri. Til Benedikts leitaði ég oft um alls kyns ráðgjöf og þar var svo sannarlega ekki komið að tómum kofunum. Hvort tveggja var, að hann var manna best að sér og alltaf til í að leggja mér lið. Ég minnist þess hve oft hann hringdi, þegar honum fannst hann kannski ekki hafa haft fullnægjandi svar við spurningum mínum, en hafði aflað sér frekari gagna og vildi koma þeim á framfæri. Hann var heill í öllu sem hann tók að sér, um það ber vitni hans langa og farsæla saga í viðskiptum, sveitarstjórnum og íþróttamálum, svo eitthvað sé nefnt. Fjölskyldu hans og ástvinum votta ég samúð mína. Blessuð sé minning hans.

Friðrik Pálsson.