Banaslys varð rétt eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags á Sæbraut við Vogabyggð. Ökumaður ók á gangandi vegfaranda sem var fluttur á slysadeild en skömmu síðar úrskurðaður látinn.
Viðbragðsaðilar voru lengi á vettvangi og loka þurfti umferð á svæðinu á meðan. Hjördís Sigurbjartsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lýsir „dapurlegri“ framkomu vegfarenda á meðan lögreglan var þar að störfum. Í samtali við Morgunblaðið segir hún að vegfarendur, bæði gangandi og akandi, hafi verið ósáttir við að komast ekki leiðar sinnar og þurfa að leggja lykkju á hana.
„Einhverjir komu þarna oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og oftar en þrisvar til að reyna að fá sínu framgengt,“ segir Hjördís.
Alls hafa 13 manns týnt lífi í banaslysum í umferðinni það sem af er ári. Leita þarf aftur til ársins 2018 til að finna fleiri banaslys á einu ári, en þau voru 15 talsins allt það ár.
Árin 2019-2023 voru banaslys á ári aldrei fleiri en tíu.
Fyrir tæpri viku lést maður þegar bifreið hans fór út af Skagavegi og ofan í Fossá norðan við Skagaströnd.
Í júní fórst ökumaður í umferðarslysi á Vesturlandsvegi, skammt frá Hraunsnefi í Norðurárdal. Þrír aðrir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðhlynningar á Landspítalanum.
Í apríl biðu tveir bana í umferðarslysi á Eyjafjarðarbraut eystri, skammt norðan við Laugaland. Bíllinn fór út af veginum og var fólkið úrskurðað látið á vettvangi.
Einn lést í marsmánuði í vélhjólaslysi á Heiðmerkurvegi. Maðurinn missti stjórn á hjólinu og fór út af veginum.
Sjö létust í umferðarslysum í janúar.
Önnur alvarleg umferðarslys
Á árinu hefur einnig verið greint frá mörgum alvarlegum umferðarslysum þó enginn hafi farist. Í júlí varð alvarlegt umferðarslys á Holtavörðuheiði þar sem tveir bílar skullu saman, en sex voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar í sjúkrahús.
Þá varð alvarlegt vélhjólaslys nálægt Gígjukvísl á Skeiðarársandi og einn hlaut alvarlega áverka í umferðarslysi á Suðurlandsvegi í maí.
Í mars varð alvarlegt umferðarslys á Hafnarfjarðarvegi þegar fólksbíll fór út af veginum.