Geir Áslaugarson
geir@mbl.is
Flokksmenn Viðreisnar vilja sjá þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið og að tryggður verði stöðugur gjaldmiðill til að sporna við verðbólgu og háum vöxtum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í stjórnmálaályktun Viðreisnar eftir haustþing flokksins sem var haldið í Hlégarði í Mosfellsbæ um helgina. Þingið bar yfirskriftina „Léttum róðurinn“.
„Það var birta og kraftur í hópnum og mætingin var framar vonum,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar.
Flokksmenn ályktuðu að ríkisstjórnina hefði þrotið erindi sitt og að sundrung innan stjórnarinnar hefði leitt íslenskt samfélag í erfiða stöðu. Í því samhengi var vísað til molnandi innviða, lengri biðlista eftir þjónustu, einkum þegar kemur að börnum, og menntakerfis í neyð. Samkvæmt ályktuninni er höfuðlausnin að koma stjórn á efnahaginn sem er sagður vera í óstjórn.
Rætt um neytendamál
Þorbjörg segir þingmenn finna fyrir því að það styttist í kosningar og vísar til draga að ályktun fyrir landsfund Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þess efnis að flokkurinn slíti ríkisstjórnarsamstarfinu.
„Við erum sammála því að það sé komið nóg af þessu stjórnarsamstarfi og tímabært að renna inn í kosningar svo að næsta stjórn geti komið sér að verki,“ segir hún.
Hún segir síðasta vetur mengaðan af innbyrðis erjum ríkisstjórnarflokkanna og að hún vilji sjá kosningar sem allra fyrst.
„Það að vera með svona sundraða stjórn kostar fólkið í landinu of mikið.“
Hún segir að töluvert hafi verið rætt um neytendamál og samkeppnismál á þinginu og hvernig hægt væri að stuðla að frekari samkeppni á markaði til að stuðla að betri kjörum fyrir neytendur.
„Við erum komin í kosningagír og við erum tilbúin í kosningar.“
Haustþing Viðreisnar
Flokksmenn vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.
Áhersla lögð á innviði, þjónustu við íbúa og menntakerfið.
Þingmaður Viðreisnar segir innbyrðis erjur ríkisstjórnarflokkanna menga störf þingsins.