Hjónin Ingibjörg Björgvinsdóttir og Ingólfur Jónsson ung að árum.
Hjónin Ingibjörg Björgvinsdóttir og Ingólfur Jónsson ung að árum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingibjörg Björgvinsdóttir fæddist á Bólstað í Austur-Landeyjum þar sem náttúran í allri sinni dýrð og víðsýnið greyptist í barnssálina. Hún ólst þar upp í hópi 10 systkina. „Stundum kallaði pabbi í okkur krakkana sem vorum nógu mörg til að mynda lítinn kór og lét okkur syngja þegar komu gestir

Ingibjörg Björgvinsdóttir fæddist á Bólstað í Austur-Landeyjum þar sem náttúran í allri sinni dýrð og víðsýnið greyptist í barnssálina. Hún ólst þar upp í hópi 10 systkina.

„Stundum kallaði pabbi í okkur krakkana sem vorum nógu mörg til að mynda lítinn kór og lét okkur syngja þegar komu gestir. Pabbi sem var organisti hafði gaman af þessu en það kom í hlut mömmu að sjá um kaffi og veitingar handa gestunum. Mamma sem var lærð saumakona sá jafnan til þess að við vorum vel til fara og því minnist ég þess að eitt sinn þegar við sungum fyrir gesti mátti sjá að ég hafði stokkið inn beint úr útileiknum og hefði þá heldur viljað vera tandurhrein við sönginn.“ Ærsl og frelsi barnanna naut skilnings en agi til vinnu og ábyrgð lærðist strax á barnsaldri. Nú eru systurnar Ingibjörg og Margrét Auður, sem nýlega varð áttræð, þær einu í systkinahópnum sem eftir lifa.

Ingibjörg stundaði nám við Kvennaskólann á Hverabökkum 1940-41 sem föðursystir hennar, Árný Filippusdóttir, stofnaði og stýrði. Þar miðlaði Árný námi sínu og reynslu frá Kaupmannahöfn og Póllandi og felldi það að íslenskum raunveruleika.

Ingibjörg var húsmóðir, gift Ingólfi Jónssyni bókara frá Hólmi í Austur-Landeyjum, en hann lést árið 2015. Árið 1944 fluttust þau til Reykjavíkur og reistu í tvígang hús frá grunni, það fyrra gert fokhelt en það síðara fjórbýlishús í Álfheimum 19 fullklárað í samvinnu við góð vinahjón. Á þessum tímum gátu eigendur unnið við byggingar húsa sinna og kom það sér vel. Líkt og fleiri húsmæður í hverfinu lét Ingibjörg ekki sitt eftir liggja við uppbyggingu Langholtskirkju. Eftir um það bil 30 ára búsetu í Álfheimum sem Ingibjörg hefur kallað blómaskeið seldu þau Ingólfur hæðirnar tvær og keyptu hús í Trönuhólum 16 þar sem þeim auðnaðist að dvelja um önnur 30 ár. Þar liggur Elliðaárdalurinn við bakgarðinn, náttúran og kyrrðin í miðri borginni. Ingibjörg naut þess að hanna garðinn og bjó að þekkingu frá yngri árum í skógræktinni á Tumastöðum.

Ingibjörg hefur alltaf verið tónlistarunnandi. Hún var kórfélagi í Söngsveitinni Fílharmóníu frá stofnun hennar 1959 og söng þar í 19 ár. Hún drakk í sig meistaraverkin sem stjórnandinn Róbert A. Ottósson færði Íslandi. Gleðin og krafturinn alger og meðal raddþjálfara sjálf María Markan. Þegar Ingibjörg og Ingólfur bjuggu í foreldrahúsum hennar vildi svo til að í næstu götu bjó fjöskylda Victors Urbancic sem einnig var mikill áhrifavaldur í íslensku tónlistarlífi. Hann kom í auðmýkt á heimili fólks til að kenna á píanó, þar á meðal á heimili þeirra hjóna. Virðingin fyrir þessu fólki var mikil og áhrif þess djúpstæð. Þannig vildi til að erlend menning gat bankað upp á í lífi almúgans.

Á árunum 1970-72 stundaði Ingibjörg nám við Listaskólann Myndsýn en hún hafði áður lært olíumálun fyrir frístundamálara þar sem myndefni voru ljósmyndir af náttúrunni og uppstillingar. „Í Myndsýn hvatti Einar Hákonarson okkur til að mála óhlutbundnar myndir. Í fyrstu fannst mér ógerlegt að hugsa út abstrakt mynd en svo gerðist það alllt í einu þar sem ég lá og hlustaði á 9. sinfóníu Beethovens með lokuð augun að hugsun mín varð frjáls með hljómkviðunni og ég sé fyrir mér hvernig formin hreyfast með tónverkinu, gylltar kúlur dönsuðu með músíkinni. Eftir þetta varð það óhlutbundna mér auðvelt.“ Hún sótti einnig námskeið í bókbandi. Íslendingasögurnar og fleiri merkar bækur fengu persónulegan blæ í bókahillunni og mörg hefti af innbundnum leikskrám frá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur yfir sýningar sem þau hjónin höfðu sótt urðu þannig aðgengileg í fallegu bandi. Annað handverk þótti sjálfsagt í þá daga, að sauma og hanna fatnað á sig og sína.

Ljóðagerð var algeng iðja til sveita og ljóð eftir Ingibjörgu hafa birst í Ljóðum Rangæinga, Vængjatökum – hugverki sunnlenskra kvenna og víðar.

Velgengni og gæfa afkomenda og frændfólks er Ingibjörgu hjartans mál. Eins er henni umhugað um heiminn. Þegar öld er liðin frá fæðingu finnst henni lífið stutt og aðspurð segist hún þakka háan aldur sinn hollum mat og Guði.

Afmælinu fagnar Ingibjörg með sínum nánustu á Hrafnistu Hafnarfirði en hún sendir ættingjum og vinum innilegar kveðjur „með þakklæti fyrir allt í 100 ár“.

Fjölskylda

Eiginmaður Ingibjargar var Ingólfur Jónsson, f. 25.6. 1920, d. 13.1. 2015, bókari í Reykjavík, rak byggingarfyrirtæki og stýrði lífeyrissjóði um árabil. Foreldrar Ingólfs voru hjónin Jón Árnason, 7.3. 1885, d. 14.10. 1964, bóndi í Hólmi, Austur-Landeyjum, og Ragnhildur Runólfsdóttir, f. 26.10. 1888, d. 5.12. 1986, húsfreyja í Hólmi.

Börn Ingibjargar og Ingólfs eru 1) Óli Baldur, f. 9.11. 1944, flugstjóri. Maki: Vigdís Ástríður Jónsdóttir, f. 9.1. 1947. Börn Baldurs og Rósar Bender eru Hrafnhildur Björk, f. 7.3. 1967, löggiltur fasteignasali og stjórnmálafræðingur, og Brynja, f. 13.7. 1969, B.Ed. í kennslufræðum og MA í alþjóðasamskiptum frá HÍ, framkvæmdastjóri hjá InfoMentor ehf.; 2) Anna Ragnhildur, f. 18.9. 1946, kantor, þáttastjóri á tónlistardeild RÚV og þýðandi. Börn Önnu og Vilhjálms Rafnssonar eru Linda, f. 7.9. 1971, félagsfræðingur og verkefnastjóri í Háskólanum í Reykjavík; Þrúður, f. 31.3. 1973, leikari og flugfreyja, og Ingólfur, f. 15.3. 1976, klarinettuleikari; 3) Bjargey Þrúður, f. 30.6. 1958, píanókennari og Feldenkrais-leiðbeinandi. Sonur Bjargeyjar og Helga Grímssonar er Grímur, f. 23.4. 1984, klarinettuleikari. Afkomendur Ingibjargar eru 19 talsins.

Systkini Ingibjargar: Aðalheiður Kjartansdóttir, f. 2.10. 1917, d. 27.6. 2017, húsfreyja á Svanavatni, Austur-Landeyjum; Ingólfur Björgvinsson, f. 18.6. 1923, d. 30.9. 2006, rafvirkjameistari, Reykjavík; Baldur Björgvinsson, f. 29.11. 1925, d. 30.8. 1928; Anna Steingerður Björgvinsdóttir, f. 14.6. 1927, d. 27.5. 1944; Vilborg Árný Björgvinsdóttir, f. 11.1. 1929, d. 25.3. 1984, kennari, Hellu; Baldvin Aðils Björgvinsson, f. 18.4. 1930, d. 15.12. 2010, múrari, Mosfellsbæ; Filippus Björgvinsson, f. 16.10. 1931, d. 10.7. 2018, viðskiptafræðingur, Margrét Auður Björgvinsdóttir, f. 16.8. 1934, vann við verslunar- og skrifstörf, Hvolsvelli, og Helga Björgvinsdóttir, f. 1.12. 1937, d. 13.11. 1957.

Foreldrar Ingibjargar voru hjónin Björgvin Filippusson, 1.12. 1896, d. 6.9. 1987, bóndi og organisti á Bólstað í Austur-Landeyjum, og Jarþrúður Pétursdóttir, f. 28.3. 1897, d. 16.3. 1971, húsfreyja og saumakona á Bólstað.