Birta Hannesdóttir
birta@mbl.is
Frelsisflokkurinn FPÖ bar sigur úr býtum þegar gengið var til þingkosninga í Austurríki í gær. Skoðanakannanir höfðu lengi sýnt fram á forskot flokksins en þetta er í fyrsta skipti sem hann fær flesta þingmenn kjörna af þingflokkum landsins.
Flokkurinn mældist með 27% fylgi daginn fyrir kosningar og skammt á hæla hans var flokkur sitjandi kanslara, Þjóðarflokkurinn ÖVP, með 25% fylgi.
Svo fór að FPÖ hlaut 28,8 prósent greiddra atkvæða. Með þessu bætir flokkurinn við sig 25 þingsætum og fær 56 þingmenn kjörna í neðri deild þingsins, en þar eru 183 þingsæti.
Áðurnefndur ÖVP hlaut 26,3% fylgi. Flokkurinn missir þar með 19 þingsæti og fær 52 þingmenn kjörna.
Sósíaldemókratar fengu 21% fylgi í kosningunum og 41 þingmann. Frjálslyndi flokkurinn NEOS fékk 9,1% fylgi og 18 þingmenn. Þar á eftir komu Græningjar með 8,3% fylgi.
Frelsisflokkurinn er hægri-þjóðernisflokkur sem var stofnaður árið 1956. Fyrsti leiðtogi flokksins var Anton Reinthaller sem áður var í Nasistaflokknum og var einnig í SS-sveit nasista.
Formaður flokksins í dag er Herbert Kickl en hann hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu.
Kickl er andvígur innflytjendum og vill alfarið banna fólki að leita hælis í Austurríki. Þá hefur hann verið mjög gagnrýninn á núverandi ríkisstjórn fyrir efnahagsástandið í landinu og hvernig staðið var að samkomutakmörkunum í covid-faraldrinum.
Kickl fagnaði þessum sögulega kosningasigri í kosningateiti flokksins í gær.
Segist ekki ætla að víkja
„Saman höfum við skrifað hluta af sögunni. Það sem við höfum áorkað er langt umfram mína villtustu drauma. Saman höfum við opnað dyr að nýjum veruleika og nú munum við skrifa saman hluta af sögu Austurríkis,“ sagði Kickl.
Þrátt fyrir sigurinn er þó ekki talið líklegt að flokkurinn geti náð meirihlutasamstarfi.
Karl Nehammer, kanslari og formaður ÖVP, hefur útilokað að mynda ríkisstjórn með FPÖ undir stjórn Kickl. Sósíaldemókratar hafa gengið lengra og alfarið neitað að vinna með flokknum.
Kickl ætlar ekki að stíga til hliðar til að flokkurinn geti myndað ríkisstjórn.
„Af hverju ætti sigurvegari kosninga að skipta út formanni sínum, en þeir sem tapa kosningunum gera það ekki?“ sagði Kickl við stuðningsmenn sína í gærkvöldi.
Til þess að ná meirihluta þurfa flokkar að vera með 92 þingsæti samanlagt.
Líklegt þykir því að þriggja flokka stjórn verði mynduð. ÖVP, Sósíaldemókratar og NEOS gætu myndað ríkisstjórn með 111 þingsæti. ÖVP, Sósíaldemókratar og Græningjar gætu sömuleiðis haft 109 þingsæti. Þá gætu ÖVP og Sósíaldemókratar myndað ríkisstjórn með nauman meirihluta eða 93 þingmenn.